Fjármögnun á tvöföldun Reykjanesbrautar

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 15:16:50 (4587)

2000-02-21 15:16:50# 125. lþ. 67.1 fundur 329#B fjármögnun á tvöföldun Reykjanesbrautar# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Í síðustu viku urðu hér líflegar umræður um vegáætlun. Athygli vakti hversu þunga áherslu tvöföldun Reykjanesbrautar fékk í þeirri umræðu og jafnfram hversu lítill ágreiningur er um gildi þess verks. Jafnframt kom fram mjög eindregin samstaða um að reyna að finna leiðir til að flýta þeirri tvöföldun frá langtímaáætlun.

Síðastliðinn laugardag var mjög skemmtilegur atburður í Reykjanesbæ þar sem svonefnd Reykjaneshöll var vígð, fyrsta yfirbyggða knattspyrnuhúsið hér á landi. Það var skemmtileg samkoma en þar vakti athygli, herra forseti, ræða Stefáns Friðfinnssonar, forstjóra Íslenskra aðalverktaka, þ.e. einkafyrirtækis sem annaðist fjármögnun og byggingu þessa verks og afhenti það þarna bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ. Um leið og forstjórinn afhenti Reykjaneshöllina til afnota þá lýsti hann áhuga þessa stórfyrirtækis á því að fjármagna og framkvæma verkið og koma þannig til móts við stjórnvöld.

Ég tel það, herra forseti, vera nokkur tíðindi og fyrir þessu eru auðvitað ýmis rök svo sem að bjóða verkið út allt samtímis. Það hlýtur að lækka verðið. Það liggur fyrir að kostnaður tryggingafélaga á 10 árum vegna tjóna á brautinni er að óbreyttu áætlaður um 1,3 milljarðar og bætist þá við kostnaður hins opinbera og þannig má áfram telja.

Jafnframt er spurning hvort ekki sé æskilegt að tryggingafélög taki þátt í slíkum kostnaði eða þeim verði boðið það. Spurning mín er þessi: Hvernig mun hæstv. samgrh. bregðast við fái hann svo myndarlegt tilboð sem forstjóri Íslenskra aðalverktaka gaf í skyn?