Landsvirkjun og rekstur fjarskiptafyrirtækja

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 15:26:49 (4594)

2000-02-21 15:26:49# 125. lþ. 67.1 fundur 331#B Landsvirkjun og rekstur fjarskiptafyrirtækja# (óundirbúin fsp.), MF
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir stuttu síðan var rætt hér á Alþingi frv. til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun þar sem um var að ræða heimild til Landsvirkjunar til að gerast aðili að fjarskiptafyrirtækjum. Í umræðunni voru lagðar fram spurningar til hæstv. viðskrh. um það hvort þetta tengist eitthvað uppsetningu á TETRA-fjarskiptakerfinu, öryggiskerfi sem boðið var út og fyrirtæki sem heitir Irja ehf. fékk en tvö önnur fyrirtæki, Tal og TNet ehf. höfðu boðið í.

Eftir að þessi umræða fór fram þar sem engin svör fengust frá hæstv. ráðherra hafa komið fram upplýsingar þess efnis að Landsvirkjun sé nú þegar aðili að fjarskiptafyrirtæki með Landssímanum og Tölvumyndum þar sem eignarhluturinn skiptist jafnt á milli þessara þriggja fyrirtækja, þ.e. Landsvirkjunar, Landssímans og Tölvumynda. Þarna hefur Landsvirkjun gerst aðili að fjarskiptafyrirtæki án heimildar. Vissulega var settur fyrirvari við það þegar þetta fyrirtæki bauð í TETRA-kerfið en engu að síður hefur það haldið áfram starfi sínu á fullri ferð, m.a. eru uppi hugmyndir um að kaupa eða leigja annað kerfi, TETRA-kerfi, og setja það upp til hliðar við það sem ríkið hafði boðið út og samið um.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Var henni kunnugt um þessi vinnubrögð Landsvirkjunar þegar umræðan átti sér stað? Hvers vegna lágu ekki fyrir upplýsingar í umræðunni um þetta fyrirtæki sem Landsvirkjun á aðild að? Það kom ítrekað fram bæði hjá hæstv. ráðherra og hv. formanni iðnn., Hjálmari Árnasyni, að hér væri aðeins um það að ræða að heimila Landsvirkjun að veita öðrum fyrirtækjum afnot af búnaði sínum.