Starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 15:39:54 (4599)

2000-02-21 15:39:54# 125. lþ. 67.10 fundur 275. mál: #A starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra# skýrsl, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir skýrslu sem ég hef lagt fyrir hið háa Alþingi um starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu en óskað var eftir að skýrslan yrði tekin til umræðu.

Aðdraganda að gerð skýrslunnar má rekja til þáltill. er hv. 5. þm. Reykv. flutti ásamt fleirum haustið 1997 og nefndi Um bætt siðferði í opinberum rekstri. Í ályktunartillögunni og greinargerð er henni fylgdi var m.a. látið að því liggja að ákvarðanir stjórnvalda væru byggðar á geðþótta, lítið eftirlit væri með störfum þeirra og engin viðurlög ef út af brygði. Enda þótt mér þætti ekki ástæða til að taka undir allt er þar kom fram, og reyndar fjarri því að gera það, þá snertu staðhæfingar af þessu tagi ákveðin grundvallaratriði í stjórnarfari landsins. Iðulega eru þær settar fram í tengslum við einstök mál sem upp koma og eru ofarlega á baugi á líðandi stund og eru yfirleitt svo nátengdar atvikum þeirra að ekki verður um þær fjallað í breiðara samhengi. Þess vegna gaf þetta frumkvæði hv. þm. ákveðið tilefni til að kannað yrði hvernig starfsskilyrði stjórnvalda eru almennt mótuð um þessi atriði og tekið saman yfirlit um af hvaða reglum stjórnvöld eru í raun bundin við töku ákvarðana sinna, hvernig eftirliti með starfsemi þeirra er háttað og hvaða afleiðingar réttarbrot í stjórnsýslunni geta haft í för með sér. Af þeim sökum beitti ég mér fyrir því að áðurnefnd tillaga yrði samþykkt svo breytt að úr yrði almenn úttekt á þessum atriðum og án tengsla við einstök mál sem upp hafa komið. Þannig eru dregnar fram þær forsendur sem nauðsynlegt er að liggi fyrir til að skynsamleg umræða geti farið fram um þessa þætti í starfsemi og stjórnkerfi hins opinbera og ákvarðanir um þróun þess teknar á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Í þessu sambandi hlýt ég reyndar að vekja athygli á að starfsskilyrði stjórnvalda hafa síðastliðinn hálfan annan áratug tekið stórstígari framförum á tiltölulega fáum árum en dæmi eru um í annan tíma. Nægir þar að vísa til stofnunar embættis umboðsmanns Alþingis og setningar stjórnsýslu- og upplýsingalaga.

Áðurnefnd tillaga var samþykkt svo breytt hinn 2. júní 1998 sem ályktun Alþingis um könnun á starfsskilyrðum stjórnvalda, eftirliti með starfsemi þeirra og viðurlögum við réttarbrotum í stjórnsýslunni. Samkvæmt henni var ríkisstjórninni falið að skipa nefnd til að kanna réttarástand á þessum sviðum stjórnsýslunnar og semja um það skýrslu. Í því skyni skipaði ég þá um haustið nefnd undir forustu Páls Hreinssonar, dósents í lögum við lagadeild Háskóla Íslands, og með honum Þórunni Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmann og Ragnar Arnalds, þáv. alþm. og 1. varaforseta Alþingis. Vil ég færa nefndarmönnum og formanni hennar sérstaklega þakkir fyrir mikla og góða vinnu við skýrsluna.

Samkvæmt ályktun Alþingis bar að leggja skýrslu nefndarinnar fyrir Alþingi áður en fundum þess yrði frestað vorið 1999. Verkefni nefndarinnar reyndist vera viðameira en svo að tækist að gera því viðunandi skil innan þeirra tímamarka. Af þeim sökum veitti ég nefndinni leyfi til að miða störf sín við að unnt yrði að leggja skýrslu hennar fyrir haustþing sama ár og gekk það eftir.

Efnistök og uppbygging skýrslunnar eru mótuð eftir þeirri verklýsingu er Alþingi setti nefndinni fyrir í ályktun sinni. Með skírskotun til þess er í inngangi að skýrslunni bent á að ályktun Alþingis hljóti að teljast nokkuð óvenjuleg og það verkefni sem hún fól nefndinni verið ólíkt öðrum úttektum sem þingið leitar stundum eftir. Samkvæmt ályktuninni hafði nefndinni verið falið að kanna gildandi réttarástand á tilteknum sviðum stjórnsýslunnar og semja um það skýrslu. Í ályktuninni hafi þannig falist beiðni um almenna úttekt á ákveðnum atriðum í stjórnarfari landsins og ábendingar um úrbætur eftir því sem tilefni væri til. Í samræmi við það hafi umfjöllun nefndarinnar verið almenns eðlis og takmarkast raunar við grundvallaratriði þeirra þátta sem nefndinni var falið að kanna, enda umfjöllunarefnið bæði flókið og mikið að vöxtum.

[15:45]

Nefndin lauk umfjöllun um hvern þátt könnunar sinnar með ábendingum um annmarka sem hún rakst á í yfirferð sinni og leiðir sem færar kunna að vera til úrbóta. Þessar ábendingar eru af ýmsum toga og snerta bæði starfshæfi stjórnvalda og þá umgerð sem starfsskilyrðum þeirra er búin af hálfu Alþingis. Rétt er að vekja athygli á að ábendingarnar eru einnig dregnar saman í lokakafla skýrslunnar. Engin þessara ábendinga ræður þó til lykta þeim álitaefnum sem bent er á. Eins og annað efni skýrslunnar skapa þær hins vegar grundvöllinn að málefnalegri umræðu um starfsskilyrði stjórnvalda og leggja okkur til þær forsendur sem ákvörðunartaka um úrbætur getur byggst á.

Ég vil þessu næst, herra forseti, fara nokkrum orðum um efnistök skýrslunnar og einstakar ábendingar eftir því sem tök eru á.

2. kafli skýrslunnar ber yfirskriftina Almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins. Þar er því lýst hvernig starfsskilyrði stjórnvalda eru mótuð af löggjafanum og þeirri grundvallarreglu stjórnskipunarréttar að stjórnsýslan sé bundin af lögum. Verkahringur stjórnvalda er í megindráttum mótaður af gildandi löggjöf á hverjum tíma. Löggjöfin er hins vegar misjafnlega nákvæm um hvernig stjórnvöldum beri að standa að útfærslu þeirra heimilda sem þeim er að lögum falið að beita. Viðtekið er að slíkar lagareglur megi eftir eðli sínu skipta í tvo flokka, þ.e. fastmótaðar reglur annars vegar og matskenndar heimildir hins vegar. Ágreiningur hefur einkum risið um meðferð matskenndu heimildanna, þ.e. þegar lög eða stjórnvaldsfyrirmæli sett samkvæmt þeim tiltaka ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi svo að ákvörðun verði tekin eða fela stjórnvöldum að einhverju leyti mat á því hvert efni ákvörðunar skuli vera. Stjórnvöldum er með öðrum orðum eftirlátið frjálst mat um framkvæmd laga eins og það var kallað í mínu lögfræðilega ungdæmi. Eins og skýrist af þessum kafla skýrslunnar eru stjórnvöld þó ekki frjálsari af þessu mati en svo að meðferð þess er bundin af tilteknum efnisreglum stjórnsýsluréttarins, bæði almennum og sérstökum, sem stýra m.a. því hvaða sjónarmið verði talin málefnaleg og þar með lögmæt sem grundvöllur að ákvarðanatöku stjórnvalda. Þá er í samræmi við ályktun Alþingis leitast við að setja þær í siðferðilegt samhengi og kannað hvort efnisreglur stjórnsýsluréttarins séu almennt í samræmi við siðferðishugmyndir manna.

Ég hef ekki tök á því hér að fara nákvæmlega yfir greinargerð skýrslunnar um þessi atriði. Í megindráttum er þar farið yfir hvaða skorður valdheimildum stjórnvalda eru settar af hinni svonefndu lögmætisreglu og þeirri reglu sem af henni er leidd og felur í sér að ákvarðanir stjórnvalda skuli byggðar á málefnalegum sjónarmiðum. Lýst er hvaða sjónarmið teljist málefnaleg og kennt hvernig þau verða fundin og beitt í framkvæmd.

Eins og fram kemur í skýrslunni eru ýmis vandamál tengd beitingu matskenndra heimilda og ekki er til á þeim nein einföld lausn. Þessi vandamál eru ekki séríslensk heldur vel þekkt í öllum nágrannaríkjum okkar.

Í kafla 2.14 er hins vegar bent á ýmis úrræði til að draga úr þeim erfiðleikum sem fylgja matskenndri ákvarðanatöku og auka um leið réttaröryggi almennings. Þar er m.a. bent á að á ýmis hollráð sem frumvarpssmiðum og löggjafanum er rétt að hafa hugföst þegar lagasetning er undirbúin og eins þegar hún er til meðferðar á Alþingi. Vakin er athygli á að hinum ört vaxandi tilflutningi verkefna til sveitarfélaga þurfi að fylgja betur eftir bæði við undirbúning lagasetningar í því skyni og af hálfu stjórnvalda. Sérstaklega er bent á að sveitarstjórnum hafi ekki gengið sem skyldi að setja og birta eigin reglur í þeim tilvikum sem lög mæla svo fyrir. Í því sambandi er fullrar athygli verð sú tillaga sem fram kemur um að tímabært sé að endurskoða lög um birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla með það fyrir augum að gera sveitarstjórnum kleift að birta slíkar reglur á sérstökum miðlægum gagnagrunni sem væri aðgengilegur öllum að kostnaðarlausu. Þessi hugmynd er út af fyrir sig í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um málefni upplýsingasamfélagsins og það verkefni sem unnið er að á vegum dóms- og kirkjumrn. að koma upp sérstöku vefsetri eða heimasíðu þar sem hægt verði að nálgast á einum stað allar skriflegar réttarheimildir, hvort sem um er að ræða lagasafn, reglugerðasafn, dómasafn, fjölþjóðlega samninga sem stjórnvöld eiga aðild að og fleira þessu tengt.

Öll miðlun upplýsinga á netinu telst enn sem komið er til nokkurs konar aukaþjónustu af hálfu hins opinbera og engin sett ákvæði gera ráð fyrir að miðlun upplýsinga með rafrænum hætti teljist nægileg birting eða fullnaðarbirting. Á hinn bóginn er hagræði af rafrænni miðlun upplýsinga sem þessara augljóst og ekki vafi á því að með tímanum ætti rafræn birting þeirra að geta komið í stað miðlunar með öðrum hætti.

Með tilliti til hins greiða aðgangs sem Íslendingar virðast almennt hafa að interneti ætti sá möguleiki jafnvel að vera tiltölulega nærri okkur í tíma. Þessi ábending nefndarinnar færir okkur heim sanninn um það og sýnist skynsamlegt að reyna þetta í tilraunaskyni á afmörkuðum sviðum stjórnsýslunnar. Jafnframt virðist netbinding aðlaðandi kostur með tilliti til þeirra reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins sem verða hluti af EES-samningnum og okkur eru nú birtar í sérstökum EES-viðbæti við stjórnartíðindi EB. Þessi viðbætir er gefinn út í Brussel og hefur ekki reynst sérstaklega aðgengilegur almenningi á Íslandi.

Af þeirri ástæðu og fleirum hefur umboðsmaður Alþingis beint því til stjórnvalda að taka birtingu og miðlun EES-gerða til endurskoðunar. Við þá endurskoðun hlýtur rafræn birting að koma sterklega til greina.

Þá er í skýrslunni bent á að umboðsmaður Alþingis gerir á hverju ári athugasemd við svokallaða meinbugi á lögum í mun fleiri tilvikum en þekkist annars staðar á Norðurlöndum. Ástæður þessa eru m.a. raktar til þess að lagafrv. eru hér ekki yfirfarin með samræmdum og skipulegum hætti með tilliti til ýmissa lagatæknilegra atriða og hvort valdheimildir þeirra samræmist ákvæðum stjórnarskrár. Undir þetta get ég tekið og hef fyrir mitt leyti fullan hug á að bæta þar um betur. Í framkvæmd þarf slík skoðun hins vegar að vera skilvirk og helst ekki lengja mikið þann tíma sem meðganga stjfrv. tekur nú þegar.

Kostnaðaráhrif allra stjórnarfrv. eru til að mynda metin í fjmrn. áður en þau eru lögð fram og eftir að hert var á stjórnarskrárbundnum kröfum til skattlagningar og gjaldtökuheimilda sæta slík ákvæði sérstakri skoðun á vegum samráðuneytis. Í nýlegum lögum um eftirlitsreglur hins opinbera er enn fremur gert ráð fyrir að stjfrv. er hafa slíkar reglur að geyma sæti sérstakri úttekt og mati áður en þau eru lögð fram.

Þá hefur af hálfu þingsins á liðnum árum verið boðið upp á málfarsyfirlestur á öllum frv. Ég dreg ekki dul á mikilvægi þess og nauðsyn að leitast verði skipulega við að draga úr lagatæknilögum göllum á þeirri löggjöf sem hér er samþykkt en nefni þessi atriði hér til að ljóst megi vera að undirbúningur stjfrv. sætir nú þegar samræmdri skoðun af ýmsu tagi og e.t.v. er ekki alveg einfalt að koma enn einu skoðunarstigi við. Það kann með öðrum orðum að krefjast endurskoðunar á þeim áherslum sem við höfum lagt til við undirbúning stjfrv. hingað til og samstillts átaks innan Stjórnarráðsins sem heild.

Í lok þessa kafla er svo vikið að siðareglum fyrir opinbera starfsmenn sem löngum hefur verið vinsælt umræðuefni í þessum sal þar sem staddir eru fleiri sjálfskipaðir siðferðisverðir á fermetra en á nokkrum öðrum stað á landinu og sjálfsagt í víðri veröld. Þar er athyglisverð sú niðurstaða að slíkar reglur koma ekki nema að takmörkuðu gagni nema þær séu sérstaklega sniðnar að aðstæðum starfsmanna á hverju sviði stjórnsýslunnar um sig. Almennar siðareglur fyrir alla opinbera starfsmenn eru með öðrum orðum líklegar til að vera of almennar til að nokkurt hald sé í þeim.

Þá er einnig bent á að siðareglur leysi ekki allan vanda þar sem stöðugt koma upp ný siðferðileg álitaefni. Þess vegna kunni oft að vera vænlegra til árangurs að auka færni ríkisstarfsmanna til að fást við vandamál af siðferðilegum toga með menntun og þjálfun í að takast á við slík mál en setja þeim reglur á þessu sviði. Þessi ábending getur að því leyti farið saman við ábendingar nefndarinnar um endurmenntun opinberra starfsmanna og að fé sem varið er til slíkra hluta sé e.t.v. ekki ráðstafað með nægilega markvissum hætti.

Herra forseti. Í 3. kafla er megindráttum í uppbyggingu stjórnkerfisins lýst og á hvern hátt eftirlit með starfsemi stjórnvalda er innbyggt í þessa uppbyggingu, einkum með stigskiptu kerfi milli æðri og lægra settra stjórnvalda. Jafnframt er vikið að eftirliti utanaðkomandi aðila með stjórnsýslunni, bæði dómstóla og stofnana sem Alþingi hefur sérstaklega komið á fót í því skyni.

Að mínu viti er það athyglisverðast við þennan kafla skýrslunnar að hann sýnir okkur fram á hvernig þingræði og lýðræðislegt stjórnskipulag og stjórnarhættir eru beinlínis undir því komnir að stjórnkerfið sé byggt upp á þann hátt að ráðherrar fari með yfirstjórn stjórnsýslunnar hver á sínu sviði. Ríkisstjórnin starfar í skjóli hins þjóðkjörna þings, þiggur í raun umboð sitt frá því, og ber á grundvelli þingræðisvenjunnar og 14. gr. stjórnarskrárinnar ábyrgð á verkum sínum gagnvart þinginu. Slíka ábyrgð geta ekki aðrir borið. Engu að síður hefur það tíðkast að fella tiltekin verkefni eða verksvið innan stjórnsýslunnar að hluta eða í heild undan yfirstjórn ráðherra og fela þau í hendur sjálfstæðra stjórnvalda, ýmist stofnana með þingkjörnar stjórnir eða sjálfstæðra nefnda.

Í sjálfstæði þeirra felst að þær eru undanskildar eftirlits- og boðvaldi ráðherra nema lög heimili annað sérstaklega. Þegar svo ber undir er því skorið á þau tengsl sem er forsenda þess að ráðherra geti borið þá ábyrgð á stjórnsýslu slíkra stjórnvalda sem einungis er á hans valdi að bera gagnvart þinginu. Sjálfstæðar stofnanir eða nefndir eru því ekki aðeins undanskildar stjórnunar- og eftirlitsheimildum ráðherra. Þær eru jafnframt undanskildar því aðhaldi sem ríkisstjórnin hefur af þinginu á grundvelli þingræðisvenjunnar. Ekkert sambærilegt samband er á milli þingsins og hinna sjálfstæðu stjórnvalda. Þingið getur ekki krafið þau um að standa því skil gerða sinna, veitt þeim sama aðhald og ráðherrum eða komið þeim frá.

Hér á hinu háa Alþingi heyrist stundum kvartað yfir því að þingið megi sín lítils í samskiptum við stjórnvöld og sé iðulega ofurliði borið af þeim styrk sem liggur í fjölmennu starfsliði embættismanna og sérfræðinga framkvæmdarvaldsins. Sá munur er þó á að ríkisstjórnin ber ábyrgð á stjórnsýslu þeirra starfsmanna sem fram koma í hennar nafni eða starfa undir hennar stjórn en hún getur enga ábyrgð borið á stjórnsýslu þeirra sem ekki lúta boðvaldi hennar. Sé yfirstjórn stjórnsýslu frá ráðherra tekin sýnist manni þingræðið og það lýðræðislega aðhald sem í því er fólgið fara fyrir lítið.

Því miður er það svo að reynslan sýnir að ráðherrum þykir þægilegt að koma hluta af valdi sínu til sjálfstæðra nefnda og úrskurðaraðila til að firra þá óþægilegum verkum og ábyrgð. Þingið ætti að gæta þess að ráðherra komi sér ekki undan því að axla til fulls ábyrgð með því að fella slíkar sjálfstæðar stjórnir eða ráð inn í þau frv. sem þeir flytja.

Í skýrslunni er bent á að gild rök geti staðið til þess að ljá ákveðnum stofnunum og nefndum sjálfstæði og undanþiggja þær þannig yfirstjórn þess ráðherra sem málefni þessara stjórnvalda mundu stjórnarfarslega heyra undir. Ég get tekið undir að það kunni í einhverjum mæli að vera réttlætanlegt og jafnvel æskilegt. Það er hins vegar mikilvægt að menn geri sér þá grein fyrir að slíkar stofnanir lúta ekki þeim lögmálum sem lýðræðisleg stjórnskipun okkar gerir almennt ráð fyrir. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að slíkum stofnunum sé ekki komið á fót án ígrundaðs mats á því hvort kostirnir eða ávinningurinn af því að koma þeim á fót yfirgnæfi áreiðanlega þann alvarlega galla sem slík frávik fela í sér.

Skýrsluhöfundar benda réttilega á það í skýrslu sinni að sjálfstæðum stjórnsýslunefndum hefur síðustu árin fjölgað mikið án þess að séð verði að nein heildarstefnumörkun búi þar að baki og hvetja til að mótuð verði framtíðarstefna um þróun stjórnsýslukerfisins með tilliti til þessara og fleiri atriða er lúta m.a. að lögunum um Stjórnarráðið sjálft. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var því m.a. lýst yfir að lögin um Stjórnarráð Íslands verði tekin til endurskoðunar á yfirstandandi kjörtímabili. Ég tel einboðið að slík stefnumótun verði hluti af þeirri endurskoðun, enda að mörgu leyti um samofin atriði að ræða.

Undir þessum kafla er jafnframt gerð nánari grein fyrir eftirlitshlutverki Alþingis og sér í lagi fjallað um inntak stjórnarskrárvarins fyrirspurnaréttar þingsins. Það er einmitt inntak þessa réttar sem verður okkur stundum að deiluefni hér á hinu háa Alþingi og greinir menn á um ýmislegt í þeim efnum, þar á meðal hversu ítarlegar upplýsingar er hægt að veita á þeim tiltölulega stutta tíma sem ráðherra er ætlað til að undirbúa svör sín. Alvarlegra er hins vegar þegar ágreiningur rís um hversu langt verði gengið í að knýja fram upplýsingar sem ljóst þykir að háðar væru þagnarskyldu að öðru leyti og almenningur mundi til að mynda ekki eiga aðgang að á grundvelli upplýsingalaga. Í skýrslunni er bent á að æskilegt væri að þessi mörk yrðu dregin í þingskapalögum þannig að ekki þyrfti að valda deilum hvaða upplýsingar ráðherra væri heimilt að undanþiggja í svörum sínum. Undir þá ábendingu get ég heils hugar tekið og tel reyndar að ekki megi draga öllu lengur að draga einhverjar slíkar línur, sér í lagi þegar til þess er litið að upplýsingaskylda stjórnvalda er meira og minna orðin reglum bundin að öllu öðru leyti en gagnvart þinginu.

Í 4. kafla er loks fjallað um afleiðingar réttarbrota í stjórnsýslunni, gerð grein fyrir hvaða viðurlög eru við þeim og hverjir geta sætt ábyrgð, bæði bótaábyrgð og refsiábyrgð. Jafnframt er sérstaklega fjallað um ábyrgð ráðherra í þessu tilliti. Ég hef aðeins fá orð um þennan kafla, herra forseti. Í honum er bent á ýmsar ástæður þess að tímabært sé orðið að taka XIV. kafla almennra hegningarlaga, um brot í opinberu starfi, til endurskoðunar, en hann hefur verið nær óbreyttur frá gildistöku þeirra laga fyrir hartnær 60 árum.

Á vegum dóms- og kirkjumrn. er starfrækt svonefnd refsiréttarnefnd og sýnist næsta sjálfgefið að vísa þessari ábendingu þangað. Í þessu tilliti er vert að hafa í huga að það er ekki aðeins í þágu hins opinbera að reglur séu skýrar um refsiábyrgð starfsmanna þess heldur einnig í þágu réttaröryggis starfsmannanna sjálfra. Til að forða misskilningi er þá e.t.v. rétt að taka það fram hér að ekki er vísað til þess að breyta þurfi inntaki refsiábyrgðar þeirra heldur miklu fremur að reglurnar þurfi að skýra í takt við aðrar breytingar sem orðið hafa í þjóðfélaginu, þar á meðal um starfsumhverfi opinberra starfsmanna sem og í takt við auknar kröfur til forms og efnis refsiheimilda. Hið sama á út af fyrir sig við um verknaðarlýsingar refsiábyrgða í ráðherraábyrgðarlögum.

Herra forseti. Ég hef þá lokið greinargerð minni um þessa skýrslu og hef ég þó aðeins drepið á fátt eitt sem þar kemur fram. Ég hygg að starfsskilyrði stjórnvalda hafi ekki í annan tíma verið tekin út með sams konar hætti og umfjöllunarefni skýrslunnar á sér í raun enga hliðstæðu meðal íslenskra lagabókmennta. Skýrslan er afar vönduð að allri gerð og er í sjálfu sér fullburða kennslurit í almenna hluta stjórnsýsluréttarins. Þess vegna tók ég þá ákvörðun að gefa skýrsluna jafnframt út á bók sem kemur einmitt út um þessar mundir og hefur þegar verið útbýtt meðal þingmanna. Viðskilnaður nefndarinnar sem fyrir henni er skrifuð er því einkar lofsverður. Þar hygg ég reyndar að formaður nefndarinnar eigi stærstan hlut að máli og er ekki á neinn hallað þó ég úr þessum stóli noti þetta tækifæri til að færa honum á ný sérstakar þakkir fyrir vel unnin verk en öðrum sem að verkinu komu færi ég að sjálfsögðu einnig miklar þakkir.

Ég vil í lokin, herra forseti, enn leggja á það áherslu að með skýrslu þessari er dreginn saman sá lögfræðilegi grundvöllur sem nauðsynlegt er að fyrir liggi til að fram geti farið upplýst og málefnaleg umræða um starfsskilyrði stjórnvalda og ábyrgð þeirra gagnvart Alþingi og þá einnig ábyrgð þingsins gagnvart stjórnvöldum með tilliti til þess hvernig það mótar verkefni þeirra og starfsskilyrði á hverjum tíma. Í skýrslunni er hins vegar ekki tekin nein afstaða til þeirra ábendinga sem þar eru settar fram. Þar er aðeins kortlagður sá garður sem yrkja þarf betur. Það er aftur á móti eins og vera ber verkefni okkar sem í þessum sal eiga sæti að yrkja garðinn og nýta til þess þær ábendingar sem fram koma í skýrslunni. Það mun, eins og ég hef sagt hér, verða gert af hálfu ríkisstjórnarinnar og einstakir þingmenn fá hér einnig gott efni til að moða úr.