Starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 16:17:25 (4601)

2000-02-21 16:17:25# 125. lþ. 67.10 fundur 275. mál: #A starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil eins og hv. síðasti ræðumaður og reyndar einnig hæstv. forsrh. þakka fyrir skýrsluna sem hér er fram komin og ljúka lofsorði á þá vinnu sem þar er á ferðinni. Mér virðist skýrslan afar yfirgripsmikil úttekt á þessum málum. Ég skal að vísu játa að ég er ekki þaullesinn í efninu og fyrirgefst það vonandi þar sem um allmikinn pappír er að ræða og ekki ýkja langt síðan hann kom hér fram. Það sem ég hef haft tíma til að lesa í skýrslunni sýnist mér afar fýsilegt.

Þessi einkafundur félmrh., herra forseti, veldur nokkru ónæði í salnum. Væri hægt að fara fram á það við hæstv. félmrh. og viðræðuaðila hans að þeir gerðu hlé á fundi sínum þangað til betur stendur á?

Hér sýnist mér á ferðinni hið merkasta gagn, herra forseti. Ég vil þó leyfa mér að gagnrýna eitt, þó að vísu væri komið inn á það í framsöguræðu forsrh. hæstv., þ.e. að ekki kemur fram í skýrslunni hverjir voru upphaflegir tillögumenn að því að þetta verk væri unnið. Ég gagnrýni það upp á síðari tíma að þeir sem hafa þessa bók undir höndum eða þingskjalið eins og því var útbýtt sjá ekki af skýrslunni hverjir höfðu frumkvæði að því á Alþingi að málið var tekið upp. Þvert á móti mætti ætla að um stjtill. eða annað þvílíkt að ræða. Mér finnst ástæða til að halda því til haga og láta menn njóta þess sem vel er gert. Frumkvæðið að því að leggja til að þessi vinna yrði unnin var haft hér af hálfu þingmanna og 1. flm. tillögunnar, ef ég veit rétt, var hv. síðasti ræðumaður, Jóhanna Sigurðardóttir. Mér finnst það miður þegar slíkt hverfur út úr pappírunum, það er hluti af sögunni og ástæða til að rekja það í inngangi máls.

Ég lít á þessa skýrslu, herra forseti, í samhengi við margt annað sem gerst hefur á sl. 10--15 árum og lýtur að því að betrumbæta margt í stjórnsýslu okkar og réttarfari sem vissulega var orðið tímabært að gera. Þar ætla ég aðeins að nefna þrjá þætti, herra forseti. Hið fyrsta er hreinni verkaskipting og formlegri aðskilnaður hinna þriggja meginþátta valdsins, þ.e. þrígreiningar valdsins. Við höfum farið í gegnum löggjöfina og fært þar ýmislegt til nútímalegra horfs eða þess horfs sem réttara er talið nú. Mér finnst það eiga erindi inn í umræður um þetta mál að þar hefur talsvert verið aðhafst. Í öðru lagi nefni ég tilkomu umboðsmanns Alþings. Það er enginn vafi á því í mínum huga að það var verulega stórt skref fram á við í þessum efnum. Það hefur stuðlað að því að bæta öryggi borgaranna, tryggja betur aðgang þeirra að réttmætri stjórnsýslu og möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, leita réttar síns og fá mál upplýst. Í þriðja nefni ég setningu stjórnsýslulaganna. Þetta tel ég, herra forseti, vera þrjá mikilvægustu áfangana í þessum efnum .

Ég hef gaman af því, herra forseti, og ekki bara gaman heldur tel ég það rétt og skylt, þegar verið er að rökstyðja stöðu löggjafarinnar og reglna í opinberri stjórnsýslu. Á bls. 33 og 34 er t.d. fjallað um almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins og siðferði, þá er farið víða í röksemdafærslu og rökstuðningi. Þar kemur m.a. við sögu neðst á bls. 33 enginn annar en Þorgeir Ljósvetningagoði þegar leitað er eftir einföldum rökum fyrir hvað lágmarksréttlæting sé fyrir laganna bókstaf, að þau þurfi að styðjast í sem allra mestum einfaldleik við það að gera gagn, vera til góðs og tryggja líf og limi manna í samfélaginu. Síðan er vitnað í þau rök sem Þorgeir Ljósvetningagoði hafði uppi hvað það varðar að menn skyldu hafa ein lög og einn rétt, en hann komst þannig að orði, með leyfi forseta:

,,Svo líst mér sem málum vorum sé komið í ónýtt efni að vér skulum eigi hafa ein lög allir. En ef sundur er skipt lögunum þá mun sundur skipt friðnum og mun eigi mega við það búa.``

Þarna var að sjálfsögðu verið að færa rök fyrir því að nauðsynlegt væri að í landinu giltu ein lög og til lengri tíma litið væri þegnunum öllum fyrir bestu að svo væri. Og var þó uppi býsna viðkvæmt mál sem verið var að setja niður, eins og kunnugt er, á Alþingi fyrir um þúsund árum síðan. Það er vel við hæfi á þessum tímamótum að þarna sé vitnað til þessara ummæla.

Ég hefði kannski, herra forseti, út frá leikmannsvangaveltum mínum um þessi mál talið ástæðu til að fjalla í þessu samhengi um býsna huglægt atriði sem tengist framkvæmd stjórnsýslunnar og mér finnst náskylt þessu, spurningunni um grundvallarréttlætingu þess að í landinu gildi lög og reglur og okkur sé fyrir bestu að farið sé eftir þeim. Það er spurningin um framsetningu og viðhorf af hálfu stjórnvalda í umgengni sinni við þegnana. Þar tel ég að skorti nokkuð á að hugarfarið sé í öllum tilvikum hið sama hér, herra forseti, og mér finnst ég skynja sums staðar erlendis. Ég gæti þar nefnt sem dæmi t.d. hugarfarið á bak við framkvæmd í almannatryggingalögum og velferðarréttarreglum sem við styðjumst við, þá nálgun að grundvallarmarkmið framkvæmdarvaldsins og í allri stjórnsýslunni skuli vera að sjá til þess að þegnarnir njóti réttar síns og fari ekki á mis við hann en þetta snúi ekki öfugt, að reglurnar séu til að þegnarnir geti leitað réttar síns ef þeir hafa fyrir því sjálfir. Mér er ljóst, herra forseti, að vangaveltur af þessum toga eru afar huglægar og kannski erfitt að sjá fyrir sér að einfalt sé að færa í búning leiðbeinandi reglur af þessu tagi. En mér finnst samt umhugsunarefni hvort þær eigi ekki einnig erindi inn í þessa umfjöllun, þ.e. að reyna eftir atvikum að fjalla um og vera með leiðbeinandi umfjöllun um hvers konar hugarfar eða andrúmsloft að breyttu breytanda skuli viðhaft í nálgun sinni og viðfangsefnum innan stjórnsýslunnar.

Ég get nefnt ýmsa hluti sem fróðlegt væri að fara inn á sem lúta að rétti manna til að koma sjónarmiðum sínum að eða leita réttar síns. Þetta snýr t.d. líka að því hversu dugleg stjórnvöld eru að veita upplýsingar, fræða um réttindi borgaranna og fræða um leikreglurnar eins og þær eru. Ég verð æði oft fyrir því og það gildir væntanlega um fleiri hv. alþm. að til mín leitar fólk sem virðist vera í óvissu um jafnvel grundvallarréttindi sín samkvæmt stjórnsýslulögum eða öðrum landslögum. Ég fæ t.d. iðulega fyrirspurnir um það, þrátt fyrir að stjórnsýslulögin séu að nálgast áratuginn í aldri, hvort ráðuneytum sé ekki skylt að svara bréfum. Þá segi ég: Jú að sjálfsögðu. Það eru skýr ákvæði um það í stjórnsýslulögum að stjórnvöldum ber að bregðast við erindum, ber að svara, og hafa þau til þess tiltekinn frest o.s.frv. Samt virðist fólk, aðilar sem eru í samskiptum við stjórnvöld, við ráðuneyti, í fullkominni óvissu um að þeir eigi slíkan rétt. Sama gildir um þá meginreglu að stjórnvöld skuli ef eftir því er leitað rökstyðja úrskurði sína. Menn eru alls ekki með slíka hluti á hreinu og það virðist heilmikil óvissa ríkja í landinu þrátt fyrir að stjórnsýslulög hafi lengi verið í gildi.

Sama gildir t.d. um stjórnsýslukærur, um réttinn til að kæra til æðra stjórnsýslustigs, ákvarðanir sem teknar eru á neðri stigum. Ég leyfi mér að efast um, herra forseti, að nægjanlega vel sé upplýst um þann rétt. Ég leyfi mér að segja í allri hreinskilni að ég held að talsverðu af þeim fjármunum, sem stjórnsýslan hneigist til að nota nánast í áróður, væri betur varið í hlutlægar upplýsingar um mál af þessu tagi. Við fáum frá ráðuneytum og ríkisstjórn glanspappírsbæklinga sem jafnvel eru prentaðir í þannig upplagi að þeir duga til að dreifa inn á hvert heimili í landinu, dýrar útgáfur þar sem öðrum þræði er kannski verið að upplýsa og fræða um einhverja stefnumótun, einhver afrek í viðkomandi ráðuneytum og stundum hefur efnið þó viljað verða býsna áróðurskennt. Fyrir hinu fer minna, að fjármunum sé varið í hlutlæga og hlutlausa upplýsingamiðlun um réttindi borgaranna. Réttindi eins og möguleika á stjórnsýslukærum, til að krefjast rökstuðnings þegar niðurstöður stjórnvalda eiga í hlut, til að erindum sé einfaldlega svarað, sem kannski er algengasta umkvörtunarefnið meðal þeirra sem eiga samskipti við stjórnvöld. Því miður, svo dapurlegt sem það nú er. Enn þann dag í dag held ég að það sé algengasta umkvörtunin sem maður heyrir.

Um eftirlitshlutverk Alþingis og alþingismanna, herra forseti, er einnig fjallað í þessari skýrslu. Þar er komið inn á ýmsa mjög mikilsverða þætti sem ástæða hefði verið til að ræða ítarlega. Ég hefði gjarnan getað hugsað mér að gera það í lengra máli en ég hef tíma til að flytja hér. Farið er rækilega yfir það á bls. 65--67 hversu margþættur og sterkur réttur alþingismanna til að krefja upplýsinga er. Það er farið yfir það lið fyrir lið hvaða ákvæði þingsköpin geyma í þessum efnum, um munnlegar og skriflegar fyrirspurnir, óundirbúnar fyrirspurnir, um skýrslur, um utandagskrárumræður, rannsóknarnefndir og annað slíkt. Þar er einnig fjallað um eftirlitshlutverk umboðsmanns Alþingis. En það er annað sem enn meira máli skiptir, finnst mér, herra forseti, því það sem bundið er í lögum vitum við um og þekkjum.

[16:30]

Á bls. 73 er mjög athyglisverð umfjöllun um rétt alþingismanna til aðgangs að upplýsingum um opinber málefni. Þar tel ég rökstutt, þannig að ég er eftir atvikum ágætlega sáttur við það, að þessi réttur er sjálfstæður. Hann er til staðar utan þess þrönga, skilgreinda ramma sem bundinn er t.d. í þingsköpum og rétturinn á að leggja fram skriflegar fyrirspurnir. Hann leiðir af stöðu Alþingis eða stöðu framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi. Þingmenn hljóta að hafa sterkan og sjálfstæðan rétt og sá réttur t.d. er sterkari en upplýsingalög. Hann er sjálfstæður og þess vegna lít ég svo á að óþarfi sé fyrir alþingismenn að vísa til upplýsingalaga þegar þeir snúa sér að ráðuneytum og biðja þar um upplýsingar eða fyrirgreiðslu. Það leiðir af stöðu þessara aðila hvors gagnvart öðrum að þarna er sjálfstæður og mjög sterkur réttur.

Herra forseti. Það væri líka fróðlegt að taka inn í þetta samhengi stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég get ekki neitað því, herra forseti, að mér finnst sú staða hafa veikst. Ég held að hún hafi gert það kannski í aðalatriðum af tveimur ástæðum. Hin fyrri er ákveðið hugarfar sem ríkt hefur í samskiptum framkvæmdarvaldsins og Alþingis. Hin seinni er sú pólitíska staðreynd að við höfum búið við, sem er gott í sjálfu sér, sterkar meirihlutaríkisstjórnir áratugum saman á Íslandi. Við höfum ekki haft þá hefð hér að í bland sætu minnihlutastjórnir sem háðari eru löggjafanum. Það leiðir til þróunar eins og við höfum séð í Noregi, Danmörku og víðar, að þjóðþingin fá sterkari stöðu. Nú um stundir er að verða ólíku saman að jafna, t.d. stöðu norska Stórþingsins sem í raun er algjörlega ráðandi og stefnumótandi aðili sem veikar minnihlutastjórnir hafa þurft að sækja reglulega umboð sitt til og því sem við höfum fengið að kynnast hér þar sem manni virðist æðioft, þegar hlutirnir hafa verið ákveðnir við ríkisstjórnarborðið og stimplaðir í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna, að litið sé á það sem formsatriði að ljúka umfjöllun um þá hér.

Herra forseti. Að síðustu ætla ég að nefna að tilmæli um stöðu umboðsmanns Alþingis og rétt hans til að beina tilmælum til stjórnvalda og að mæla með gjafsókn ef mál fara til dómstóla. Ég tel að þar sé á ferðinni atriði sem ástæða er til að fara yfir í ljósi reynslunnar. Eftir atvikum mætti jafnvel styrkja stöðu embættis umboðsmanns Alþingis að þessu leyti þannig að tilmæli hans fengju meiri vigt og staða hans yrði styrkt í þessu sambandi.