Starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 17:01:43 (4606)

2000-02-21 17:01:43# 125. lþ. 67.10 fundur 275. mál: #A starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra# skýrsl, LB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[17:01]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda og ég vil líkt og aðrir þingmenn í umræðunni þakka þeim þingmönnum undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. forsrh. fyrir að leggja skýrsluna fram. Eins og fram kemur í skýrslunni er löngu tímabært að við á hinu háa Alþingi fjöllum skipulega og málefnalega um við hvaða starfsumhverfi stjórnsýslan býr vegna þess að ekki má gleyma því í umræðunni að stjórnsýslan býr fyrst og fremst við þau starfsskilyrði sem Alþingi býr henni, þ.e. lögmætisreglan sem felur í sér að stjórnvöld eru bundin af lögum. Oft og tíðum má Alþingi líta í eigin barm þegar verið er að gagnrýna stjórnsýsluna því að oftar en ekki getur það stafað af því að löggjöf er ófullkomin og hugsanlega, eins og fram kemur í skýrslunni, stafar það af því að Alþingi veitir stjórnvöldum full matskenndar heimildir til þess að taka ákvarðanir. Ég ítreka því þakkir til þeirra sem hafa staðið að því að koma skýrslunni á framfæri við þingið og jafnframt að skýrslan skuli vera tekin til umræðu.

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði í skýrslunni sem ég vil taka hér til umfjöllunar og ræða þó að það verði aldrei gert með tæmandi hætti því svo mikil að vöxtum er skýrslan og svo vel unnin að það væri að æra óstöðugan að ætla sér að fjalla ítarlega um hana. Hins vegar eru nokkur atriði sem ég held að sé vert að minnast á í umræðum um skýrsluna og taka undir þau flest.

Í fyrsta lagi var það sem ég nefndi áðan í ræðu minni að það er mjög mikilvægt að Alþingi vandi mjög til verka í lagasetningu sinni og þegar það er að undirbúa lög. Í skýrslunni er lagt til að Alþingi eða stjórnvöld komi sér upp lagaskrifstofu eða lagaráði í því skyni að tryggja að farið sé vandlega yfir lagasetningu sem er á endanum afgreidd frá Alþingi, sérstaklega út frá tæknilegum sjónarmiðum, og að farið sé vandlega yfir þau svo að við --- ja, ef ég má orða það þannig --- losnum við þær athugasemdir sem íslensk lagasetning og íslensk löggjöf hefur fengið frá eftirlitsaðilum í miklum mun meira mæli en víðast þekkist annars staðar á Norðurlöndum en það eru þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við á þessu sviði. Ég tek undir þær athugasemdir sem koma fram um þessa þætti. Í raun og veru, eins og ég sagði einnig áðan, að starfsskilyrði stjórnvalda mótast mjög af löggjöfinni sem slíkri, þ.e. að stjórnsýslan vinnur í skjóli laganna og þarf að vinna eftir þeim og lögin setja stjórnvöldunum umgjörð sem stjórnsýslan verður að vinna í.

Þessari skýrslu, virðulegi forseti, er skipt í tvo meginþætti eins og ég skil hana, þ.e. í fyrsta lagi eru gerðar athugasemdir við þá löggjöf og það umhverfi sem stjórnsýslan er í og svo hins vegar samskipti Alþingis annars vegar og stjórnvalda hins vegar auk þess sem örlítið er komið inn á valdmörk dómstóla og stjórnvalda en ekki er stórum þætti skýrslunnar eytt í það.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er ekkert skrýtið þó að þetta séu meginatriði skýrslunnar vegna þess að hún fjallar um og tekur á og byggir á þeirri meginskiptingu sem er í íslensku stjórnarskránni sem er þrískipting ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Það eru því þessir valdþættir sem skýrslan fjallar um og byggir á og veltir því upp hvernig samskiptin þarna eru. Meginsjónarmið að baki þrískiptingunni er vitaskuld það að sagan hefur kennt okkur að ef vald fellur um of á eina og sömu hendi er hættan sú að það vald sé misnotað. Þess vegna er ríkisvaldinu skipt upp í þessa þætti og hverjum þætti fyrir sig er ætlað að hafa eftirlit með hinum. Í skýrslunni er mikil áhersla lögð einmitt á þetta eftirlit og hvernig til hefur tekist og bent á ýmis atriði sem betur megi fara.

Ég held að við öll sem störfum á hinu háa Alþingi þekkjum þá umræðu sem fram hefur farið að því er varðar samskipti alþingismanna annars vegar og ráðherra hins vegar og upplýsingagjöf til Alþingis. Þar hafa ekki verið og eru ekki nægilega skýrar reglur. Við höfum séð það og sú mynd hefur birst okkur í ýmsum myndum. Má nefna málefni Landsbankans sem voru til umræðu ekki fyrir margt löngu þar sem menn tókust á um hvaða upplýsingar ætti að gefa. Ég get nefnt fræga skýrslu sem laut að svokölluðu Stofnfiskmáli þar sem Alþingi fékk skýrslu frá ríkisendurskoðanda, sem reyndar heyrir undir Alþingi, og hún var nánast ritskoðuð, þ.e. ríkisendurskoðandi ritskoðaði nánast það sem fyrir Alþingi var borið. Öll umræða í framhaldi af því var dálítið erfið því að eins og kemur fram í skýrslunni virðast menn ekki vera með það á hreinu hvernig upplýsingaréttur Alþingis er gagnvart ráðherrum og hvernig hann beri að framkvæma. Það kemur einmitt fram í skýrslu þeirrar nefndar sem um þetta fjallar að mjög mikilvægt sé að kveðið sé skýrar að orði hvernig þessi réttur er og gerð er tillaga í skýrslunni um að þessi réttur verði skýrður nánar í þingskapalögum. Það er sú tillaga sem hér er gerð en jafnframt vakin eftirtekt á því sem flestir höfðu kannski gert sér grein fyrir að réttur alþingismanna til þess að fá upplýsingar er vitaskuld sjálfstæður og byggir ekki á upplýsingalögum eða neinu þess háttar. Rétturinn er rakinn til í fyrsta lagi 2. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveður á um þrískiptingu ríkisvaldsins og þeirrar hugmyndafræði sem þar býr að baki, þ.e. að hver þáttur ríkisvaldsins hafi eftirlit með öðrum til þess að tryggja það að vald komist ekki um of á fáar hendur því að sagan hefur kennt okkur afleiðingar af þeirri niðurstöðu.

Í öðru lagi byggir þessi sjálfstæði réttur vitaskuld á 54. gr. stjórnarskrárinnar sem vitnað er réttilega til og vakin er eftirtekt á þessu og hnykkt á í þessari skýrslu.

Enn fremur er í skýrslunni vakin eftirtekt á ákvæðum um svokallað fullnaðarúrskurðarvald stjórnvalda en sá skilningur hefur verið uppi að Alþingi hafi getað sett reglur sem kveði á um að ákvarðanir stjórnvalda verði ekki endurskoðaðar og þá hefur stundum verið sett í lög að stjórnvöld hafi fullnaðarúrskurðarvald um tiltekið atriði. Eins og kemur fram í skýrslunni á hugmyndafræði af þessum toga rót sína að rekja til deilna á 19. öld um valdmörk milli stjórnvalda og dómstóla sem ég held að sé í dag einvörðungu tímaskekkja því að bæði fræðimenn og dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu fyrir löngu að þrátt fyrir slík ákvæði þá sé ljóst að dómstólar geti tekið til skoðunar þau sjónarmið sem búa að baki slíkum ákvörðunum. Því má segja sem svo að dómstólar geti nánast í öllum tilvikum endurskoðað ákvarðanir stjórnvalda.

Þá vil ég einnig í þessari umræðu, virðulegi forseti, taka undir þá beiðni sem kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem óskaði áðan eftir því í ræðu sinni að málinu yrði frestað að lokinni umræðunni og því vísað til allshn. Ég held að eins og skýrslan er byggð upp og eins og hún snýr að miklu leyti að Alþingi sjálfu og vinnubrögðum Alþingis sé mjög mikilvægt að allshn. fari mjög vandlega yfir þessa skýrslu og skili síðan umsögn sinni til þingsins, jafnvel með tillögum um úrbætur. Ég gat ekki betur heyrt en að í framsögu hæstv. forsrh. og eins annarra sem hér hafa talað að mjög mikilvægt sé að taka skýrsluna til vandlegrar meðferðar og bregðast við þeim athugasemdum sem fram koma í skýrslunni. Ég held að fáir séu betur til þess fallnir eða varla hægt að ætlast til annars en að allshn., sem er náttúrlega nefnd sem starfar á vegum þingsins og þessi mál heyra þar undir, en að hún taki þessa skýrslu til vandlegrar skoðunar. Ég tek því undir þau sjónarmið sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir setti fram í umræðunni um það að hv. allshn. taki þetta mál til vandlegrar skoðunar.

Virðulegi forseti. Þar sem ég sit í hv. allshn. og á von á því að Alþingi samþykki þá tillögu að nefndin taki málið til skoðunar þá held ég að mér gefist nægt tækifæri til þess að fjalla ítarlegar um þessa skýrslu en gert hefur verið hér. Ég ítreka þakkir til þeirra sem frumkvæði hafa átt að því að skýrslan var skrifuð og jafnframt þakkir til hæstv. forsrh. sem hefur bæði gefið þessa skýrslu út og lagt hana fyrir Alþingi.