Starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 17:37:28 (4609)

2000-02-21 17:37:28# 125. lþ. 67.10 fundur 275. mál: #A starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra# skýrsl, GAK
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[17:37]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því eins og aðrir hv. alþm. sem hér hafa verið í ræðustól að þakka þá skýrslu sem hér er komin fram og lýsa þeirri skoðun minni almennt á skýrslunni að ég held að hún muni í framtíðinni nýtast þingmönnum vel til að skoða ýmislegt í lagaumhverfinu og hvernig standa megi að tillögugerð til breytinga á lögum og hvernig menn hugsanlega geta unnið þau verk.

Það er mjög fróðleg lesning að renna yfir skýrsluna, ég get þó ekki sagt að ég hafi lesið hana frá orði til orðs, og vonandi fáum við þingmenn tækifæri til að ræða þessi mál aftur. Ég held að hér séu dregnir fram margir áhugaverðir punktar og mörg atriði sem bæði stjórnvöldum og þingmönnum ber að taka tillit til.

Í skýrslunni segir að lagaheimildir skuli vera skýrar, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Miklu skiptir að lagaheimildir, sem veita stjórnvöldum heimild til að íþyngja borgurunum, séu skýrar og ótvíræðar að efni til og gangi ekki lengra en nauðsyn ber til.`` Einnig segir: ,,Reynslan sýnir að mörg deilumál hafa risið um takmarkanir á atvinnuréttindum manna.``

Reglur og lög hafa afgerandi áhrif á allt okkar starfsumhverfi og líf fólks í landinu. Hin almenna gildandi regla er sú að einstaklingnum sé heimilt það sem honum er ekki bannað. Það er hin almenna regla, sem kannski er ekki alveg skýrt rituð, en þetta held ég að sé hinn almenni skilningur flestra Íslendinga.

Íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda verða að byggjast á lagaheimild og reglugerðir verða að hafa næga stoð í lögum og skýrar heimildir vera fyrir þeim í lögum í því sem kveðið er á um í reglugerð. Reglugerð sem fyrirmæli frá stjórnvöldum þarf einnig að vera skýr um það efni sem hún heimilar eða takmarkar. Ég hygg að ein umdeildustu lög hér á landi séu lögin um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, og þær breytingar sem gerðar hafa verið á þeim lögum síðan, og ég ætla aðeins að blanda þeim efnislega inn í umræðuna.

Ég hygg að flestir viti að ég hef talsverðan áhuga á þessari lagasetningu og sérstaklega á því hvernig hægt væri að breyta henni og lagfæra landsmönnum til heilla, að ég tel, og vonandi öllum til sátta. Það er einfaldlega þannig að þessi blessuð lög, nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, veita heimildir sem ég held að séu dálítið á skjön við það sem almennt má telja að eigi að vera í lögum. Svo ég taki örstutt dæmi, þá segir í 3. gr. laganna um stjórn fiskveiða, með leyfi forseta:

,,Sjútvrh. skal að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili og vertíð úr þeim einstöku nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Heimildir til veiða samkvæmt lögum þessum skulu miðast við það magn.``

Hér er það Hafrannsóknastofnun sem ákveður það hvernig skuli takmarka veiðarnar og þangað er sú ráðgjöf og vald sótt. Síðan segir í 8. gr. um þetta atriði:

,,Verði veiðar takmarkaðar samkvæmt 3. gr. á tegundum sjávardýra sem samfelld veiðireynsla er á en ekki hafa áður verið bundnar ákvæðum um leyfðan heildarafla, skal aflahlut úthlutað á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja veiðitímabila.``

Hér eru í tveimur stuttum málsgreinum færðar miklar heimildir til sjútvrh. og hann hefur í raun og veru mjög rúman rétt til þess að útfæra þau atriði á grundvelli þessara laga og mér sýnist að í mörgum tilfellum megi lesa það út úr skýrslunni sem við nú ræðum að slíkar heimildir í lögum, opnar heimildir, standist einfaldlega ekki þær kröfur sem verði að gera til löggjafans. Því almennt segir að reglugerð skuli byggja á skýrum lagaákvæðum um þær athafnir manna sem þeim eru bannaðar. Þetta vildi ég draga inn í umræðuna.

Ég vil líka minnast á að þau lög sem ég hef aðeins vikið að, lögin um stjórn fiskveiða, eru gefin út í bók frá sjútvrn. ásamt reglugerðum fyrir hvert fiskveiðiár fyrir sig og í viðhengi við lögin nr. 38/1990 eru komin 27 bráðabirgðaákvæði. Búið er að setja 27 bráðabirgðaákvæði við lögin um stjórn fiskveiða. Og þegar þeir sem áhuga hafa á þessum lögum og þeim afleiðingum sem þeim fylgja vilja reyna að nálgast það að koma fram með brtt. eða lagatexta sem hugsanlega geta breytt þeim lögum, þá eru lögin orðin þannig uppbyggð í dag að ekki er hægt að nálgast það verkefni öðruvísi en leggja til ný bráðabirgðaákvæði sem verða þá nr. 28, 29 eða 30. Það er náttúrlega ekki við það búandi að jafnumdeild og veigamikil löggjöf og lögin um stjórn fiskveiða eru séu þannig úr garði gerð. Ég held að virkileg þörf sé á því sem kemur fram í skýrslunni að setja á stofn fyrir Alþingi svokallað lagaráð þar sem alþingismenn og þeir sem eru að huga að lagagerðinni geti farið með textann og látið gaumgæfa hann vandlega og færa hann til lagaákvæðanna sem í gildi eru þannig að lögin verði ekki sami frumskógur og þessi lög sem ég hef dregið inn í umræðuna eru reyndar orðin. Þau eru að mörgu leyti orðin illskiljanleg þar sem bráðabirgðaákvæði er ofan á bráðabirgðaákvæði sem tekur tillit til bráðabirgðaákvæðis sem er síðan fallið úr gildi. Þannig eru þessi lög, því miður. Fyrir utan allar þær breytingar sem við höfum gert á viðkomandi lagagreinum og þarf engan að undra þó að menn greini dálítið á um efni þessara laga.

[17:45]

Þar fyrir utan hafa dómstólar landsins kveðið á um það í einum hæstaréttardómi og einum héraðsdómi að ákveðinn hluti laganna standist ekki stjórnarskrá landsins og frelsi borgaranna varðandi jafnræði og atvinnuréttindi. Ég held því að mikil þörf sé á því sem lagt er til í þessari skýrslu að stofnað verði lagaráð. Um það segir m.a. á bls. 49, með leyfi forseta:

,,Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra lagafrumvarpa sem samþykkt eru á hverju þingi stafar frá Stjórnarráðinu. Annars staðar á Norðurlöndum er það liður í starfi þeirra ráðuneyta sem fara með stjórnarfar almennt, oftast dómsmálaráðuneyta, að starfrækja sérstakar lagaskrifstofur sem hafa það hlutverk með höndum að fara yfir stjórnarfrumvörp og kanna m.a. hvort einhverjir lagatæknilegir hnökrar eru á þeim, auk þess sem kannað er hvort frumvarpið sé samrýmanlegt ákvæðum stjórnarskrár.

Hér á landi er ekki starfandi lagaskrifstofa hjá Stjórnarráði Íslands sem hefur það hlutverk að gera lögfræðilega athugun á öllum stjórnarfrumvörpum áður en þau eru lögð fyrir Alþingi. Þá er heldur ekki starfandi lagaráð hjá Alþingi sem hefur þetta hlutverk með höndum.``

Ég held að þarna sé hreyft afar nauðsynlegu máli og slíkt beri að setja á fót þannig að lög verði betur úr garði gerð, um þau rísi færri deilumál og þau séu þá ótvíræðari.

Að meginstefnu eru það auðvitað eingöngu lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi sem hafa þann rétt með kjöri sínu að setja athafnafrelsi borgaranna skorður með lögum. Þess vegna er ábyrgð okkar mikil sem vinnum hér að því að lögin í heild sinni standist þau ákvæði sem eiga að vernda rétt þegnanna í landinu. Ég legg mikla áherslu á að ráðgjöf til alþingismanna annars vegar og þessum skrifstofum fyrir Stjórnarráðið hins vegar varðandi lagarammann verði komið á fót. Ég held að það sé til mikilla bóta.

Að öðru leyti fagna ég þessari skýrslu, þakka fyrir að hún er fram komin og þeim sem áttu frumkvæðið að henni.