Starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 18:24:32 (4613)

2000-02-21 18:24:32# 125. lþ. 67.10 fundur 275. mál: #A starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra# skýrsl, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[18:24]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Ég fagna því sérstaklega sem fram kom í máli hæstv. ráðherra, að hann telur eðlilegt með vísan til þess sem stendur í skýrslunni að lög um ráðherraábyrgð verði skoðuð og að þau hafi ekki fylgt eftir þeirri þróun sem orðið hefur í stjórnsýslunni. Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra um það enda hef ég flutt frv. um það að lögin um ráðherraábyrgð verði endurskoðuð.

Ég lít svo á að hæstv. forsrh. hafi sama viðhorf varðandi upplýsingagjöf til þingsins og upplýsingaskyldu stjórnvalda til þingmanna enda bendir hann á og tekur undir að endurskoða verði lögin um þingsköp að því er þennan þátt varðar. Einnig útilokar hæstv. ráðherra ekki, ef ég skil máls hans rétt, það sem ég hef haldið fram að setja þurfi lög um skaðabótaábyrgð. Ráðherrann nefnir að það þurfi að huga að því þó að það sé fyrst og fremst dómstólaþróunin, sem er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðherra, sem hefur verið þarna á undan lagasetningunni. Allt þetta þrennt tel ég mjög til bóta.

Hæstv. forsrh. heldur því enn til haga varðandi talsmann skattgreiðenda og ég get verið hæstv. ráðherra sammála um að betur þurfi að huga að stöðu skattgreiðenda almennt. Ég held að það sé alveg rétt sem fram kom hjá forstöðumanni ráðherrastofu að skattakrumlan er oft mjög hörð gagnvart þeim sem skulda mikið og eru komnir í þrot. Oft er betra að slaka þar á klónni en herða á eins og oft vill gerast hjá hinu opinbera að því er varðar skuldsetta einstaklinga.

Varðandi lagaráðið tel ég að það eigi að vera í höndum Alþingis að hafa þar eftirlit og yfirsýn og lögfróðra manna að fara yfir það að stjórnarfrumvörp standist stjórnarskrána og alþjóðasamninga. Þó það sé líka á vegum framkvæmdarvaldsins þá á það einnig að vera á hendi þingsins að hafa slíkan lagaramma.