Erfðafjárskattur

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 18:47:01 (4618)

2000-02-21 18:47:01# 125. lþ. 67.12 fundur 360. mál: #A erfðafjárskattur# (yfirstjórn) frv. 18/2000, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[18:47]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, með síðari breytingu. Frv. er flutt í þeim eina tilgangi að flytja yfirstjórn mála er varða álagningu og innheimtu erfðafjárskatts frá félmrn. til fjmrn. sem að meginstefnu til fer með yfirstjórn allrar tekjuöflunar ríkissjóðs.

Núverandi yfirstjórn þessara mála á sér þá sögulegu skýringu að tekjum af þessum skatti hefur löngum verið varið til uppbyggingar á sviði félagslegrar þjónustu en tekjur erfðafjársjóðs skulu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra renna til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Enda þótt ráðstöfun þessa tekjustofns sé þannig bundin stofnunum er heyra undir félmrn. er álagning skattsins og innheimta í eðli sínu ekki frábrugðin almennri tekjuöflun ríkissjóðs. Með auknum kröfum til nákvæmari skattlagningarheimilda og öryggis við beitingu þeirra þykir þeim þáttum málsins því betur fyrir komið undir yfirstjórn fjmrn. sem jafnframt getur þá annast þá endurskoðun sem lög þessi þyrftu að sæta í ýmsum atriðum.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv., herra forseti, og legg því til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.