2000-02-22 13:35:47# 125. lþ. 68.92 fundur 333#B vinna við skýrslu um úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á íslenskum markaði# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[13:35]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Yfirlýsing hæstv. viðskrh. er mér mikil vonbrigði því að þessi skýrslubeiðni var lögð fram í október og áður en það var gert gerði hv. 1. flm. þessarar skýrslubeiðni, Sighvatur Björgvinsson, þáv. hæstv. viðskrh. grein fyrir því að hann hygðist leggja fram beiðni um slíka skýrslu. Hæstv. viðskrh. gerði grein fyrir því að málið gæti dregist umfram þær 12 vikur sem gert er ráð fyrir í þingsköpum og hæstv. þáv. viðskrh. tók því vel að klára verkið þrátt fyrir að það gæti tekið lengri tíma.

Virðulegi forseti. Ég vil vekja eftirtekt á því að þessi skýrslubeiðni er lögð fram strax í október löngu áður en fjárlög eru afgreidd. Í öðru lagi vil ég vekja eftirtekt á því að þingskapalög eru almenn lög og það hlýtur að teljast mjög sérstætt að hæstv. viðskrh. skuli koma hér fram með yfirlýsingu frá hæstv. ríkisstjórn um að hæstv. ríkisstjórn hyggist ekki fylgja þeim lögum sem í landinu ríkja. Ríkisstjórninni og hæstv. viðskrh. er skylt að leggja þessa skýrslu fram innan 12 vikna. Ef það er ekki hægt þá er að sjálfsögðu hægt að reyna að leysa það verkefni. En hér, virðulegi forseti, er því lýst yfir að líklegt sé að skýrslan sem um var beðið komi fyrst fram á árinu 2002, því það á að leggja til að á næsta ári, á árinu 2001, verði lagt fram fé til þess að vinna þessa skýrslu. Það tekur 12 mánuði sem hefur þá þau áhrif á skýrslubeiðni sem lögð er fram á árinu 1999 að þingið mun líklega sjá skýrsluna á vordögum árið 2002. Ég vil segja að mér finnast svona vinnubrögð ekki við hæfi og að það sé hæstv. nýorðnum viðskrh. ekki til framdráttar að bera mál sitt fram á þinginu með þessum hætti.