2000-02-22 13:49:55# 125. lþ. 68.92 fundur 333#B vinna við skýrslu um úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á íslenskum markaði# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[13:49]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vona að þingheimi sé ljóst að enginn er andvígur því að láta þessa vinnu fara fram. Ég tel meira að segja mjög mikilvægt að gerð verði úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á Íslandi. Aðstæðurnar eru hins vegar þessar: Þegar ég kem til starfa í viðskrn. um áramót þá hefur þessi vinna ekki farið fram. Hún hefur ekki verið sett í gang og það er ekki fjármagn fyrir hendi til að láta þessa vinnu fara fram á þessu ári. Ég man ekki betur en talsmaður Samfylkingarinnar hefði mörg orð í fjárlagaumræðunni um aðhald í ríkisfjármálum og að ekki mætti eyða umfram fjárlög. Ég held að það hljóti því að vera mjög í samræmi við þann málflutning að fara ekki fram úr fjárlögum.

Forseti, væri hægt að fá hljóð í salnum?

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þm. að gefa hljóð í salnum meðan hæstv. ráðherra talar.)

Ég vona að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að mér finnst ekkert skemmtilegt að koma hér upp til þess að greina frá þessu. Ég hefði gjarnan viljað að þessi vinna væri komin í gang. En ég held að það sé umhugsunarefni fyrir þingið hvernig taka eigi málum þegar svona beiðnir koma fram, beiðnir um skýrslugerð sem allir eru sammála um að vinna þurfi en kostar fremur mikla peninga. Ekki það að við sjáum eftir þessum peningum heldur þarf að vera fjárveiting fyrir verkefninu. Það má vel hugsa sér að til sé fjárlagaliður sem ráðherrar geta sótt fjármagn í þegar svona aðstæður skapast. Ég mundi gjarnan vilja beita mér fyrir því að svo væri.

Varðandi það hvenær þessari skýrslugerð lýkur, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, þá ætla ég að leggja mig fram um að setja vinnuna í gang á þessu ári. Þó óttast ég að ekki náist að ljúka vinnunni áður en þing fer heim vorið 2001. Þetta tekur um ár og svona eru aðstæður.