Fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 13:55:35 (4631)

2000-02-22 13:55:35# 125. lþ. 68.94 fundur 335#B fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Nýverið bárust fregnir af tillögu um verulegan niðurskurð á þjónustu við geðsjúka. Geðsviði Sjúkrahúss Reykjavíkur skyldi sérstaklega ætlað að skera niður um 100 millj. Það er fjórðungur af rekstrarfé deildarinnar og ljóst að hún stæði ekki undir nafni eftir það.

Á Sjúkrahús Reykjavíkur koma þúsund sjúklingar á ári inn á geðdeildina um slysadeild. Þúsund sjúklingar, þar af yfir 60% eftir sjálfsvígstilraunir eða sjálfskaðandi hegðun. Oftast er um ungt fólk að ræða sem þarf geðlæknisþjónustu auk annarrar læknisþjónustu. Geðdeildin sinnir einnig mikilvægu hlutverki í samstarfi við aðrar deildir svo sem í þjónustu við aldraða sjúklinga sem eiga oft við geðrænan vanda að stríða.

Þessar niðurskurðartillögur koma á sama tíma og landlæknir er með kynningarátak til að berjast gegn þunglyndi og sjálfsvígum, átak til að minnka fordóma gegn geðsjúkdómum. Átakið hefur aukið gífurlega álagið á geðdeildum, hjá geðlæknum og hjá Geðhjálp. Það er greinilegt að margir sem nú eru að koma fram í kjölfar átaksins hafa ekki fengið læknishjálp. Eðlilegt væri að efla geðlæknisþjónustu í kjölfar átaks sem þessa frekar en draga úr henni. Engu að síður koma tillögur um 100 millj. kr. sparnað á geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Reyndar var nú síðast talað um 50 millj. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? 100 millj. í gær og 50 millj. í dag. Ég fagna því reyndar að þrýstingur utan frá skuli þó hafa haft þau áhrif að niðurskurðartillögurnar skuli hafa farið úr 100 millj. niður í 50 en hér eru áfram tillögur um niðurskurð á þjónustu. Nú þegar eru geðdeildir yfirfullar þrátt fyrir að notkun þunglyndislyfja hafi aukist um 20--25% á ári.

Geðlæknafélagið, Geðverndarfélagið og fleiri hafa harðlega mótmælt niðurskurðinum og síðast í gær ályktaði BSRB um málið. Þar er bent á að landlæknir hafi í sambandi við fjölgun sjálfsvíga lýst yfir að bæta þyrfti bráðaþjónustu við geðsjúka og að ekki mætti skerða hana frá því sem nú er. Ég tek undir álit Geðlæknafélagsins. Skerðing kemur verst niður á þeim sem haldnir eru alvarlegustu geðsjúkdómunum, þeim sem búa við erfiðar félagsaðstæður og einstaklingum sem þurfa á bráðainnlögn að halda vegna sjálfsvígshættu. Geðsjúkdómar eru oftar en ekki sjúkdómar ungs fólks. Ónóg meðferð á byrjunarstigi getur stofnað lífi ungra einstaklinga í hættu og stuðlað að varanlegri örorku.

Aukin sparnaður við þessa sjúklinga kemur niður á öðrum deildum. Þessir sjúklingar hverfa ekki. Þeir eru áfram til staðar. Niðurskurður á þjónustunni kemur líka niður á börnum þeirra og fjölskyldum. Það er dýrt að spara í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega við geðsjúka.

Ljóst er að rekstrarkostnaður Sjúkrahúss Reykjavíkur er meiri en gert var ráð fyrir. Komum á slysa- og bráðadeild hefur fjölgað um 10--15% undanfarið. Sparnaður á Sjúkrahúsi Reykjavíkur hefur gert það að verkum að dregið hefur úr þjónustu á öðrum deildum þannig að alvarlega sjúkir og dauðveikt fólk liggur á göngum. Suma undanfarna daga hafa 30--40 sjúklingar og jafnvel fleiri legið á göngunum. Það er auðvitað ekki boðleg heilbrigðisþjónusta og ég er viss um að hæstv. heilbrrh. er mér sammála um það. En þetta ástand réttlætir ekki að geðsjúkir verði fyrir niðurskurðarhnífnum núna.

Herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað liggur að baki því að spara á við geðsjúka nú þegar fjármagn vantar á sjúkrahúsunum? Halda menn kannski að þessir sjúklingar séu ekki í lífshættu? Þeir eru ekki í minni lífshættu en margir aðrir alvarlega sjúkir á sjúkrahúsunum. Í niðurskurðartillögunum er talað um 50 millj. samkvæmt fréttum í hádeginu en engin endanleg ákvörðun hefur verið tekin. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Mun hún samþykkja þennan niðurskurð á þjónustu við þennan hóp eða mun hún beita sér fyrir auknu fjármagni eða öðrum leiðum til að unnt sé að sinna viðunandi þjónustu við geðsjúka á sjúkrahúsunum í Reykjavík?