Fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:09:46 (4635)

2000-02-22 14:09:46# 125. lþ. 68.94 fundur 335#B fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:09]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Það má öllum vera ljóst að sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík mun leiða til skipulagsbreytinga sem að líkindum varða allar deildir sjúkrahúsanna. Tilgangurinn er aukin hagkvæmni í rekstri og betri þjónusta við skjólstæðinga sjúkrahúsanna með sameiningu sérdeilda sem er á báðum sjúkrahúsunum um leið og sérhæfing og sérþekking í viðkomandi grein lækninga og hjúkrunar er styrkt og efld. Breytingar á starfsemi geðdeilda sjúkrahúsanna í Reykjavík er tilefni utandagskrárumræðu á hinu háa Alþingi í dag.

Hugmyndir stjórnenda sjúkrahúsanna lúta að því að breyta áherslum í starfsemi geðdeilda með fækkun legurúma á geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur en efla á móti þjónustu og bæta nýtingu dagdeilda og göngudeilda á geðdeildum Ríkisspítala og auka bráðaþjónustu á þessu sviði á báðum sjúkrahúsunum. Þegar þessar hugmyndir kvisuðust út fyrir stuttu fóru stóru orðin að fjúka um völl. Stjórnvöld hafa verið sökuð um skilningsleysi á málefnum geðsjúkra og hafa yfirlýsingayfirboð ýmissa aðila gengið út yfir allt velsæmi. Hér hefur sannleikurinn enn eina ferðina verið skrumskældur. Hið rétta er að á undanförnum árum hefur hagur geðsjúkra verið bættur margvíslega.

Sannleikurinn er sá að þjónusta við geðsjúk börn hefur stóraukist á undanförnum mánuðum og árum með eflingu barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og á síðustu tveimur árum einum saman hefur stöðugildum á BUGL fjölgað um 21. Sannleikurinn er einnig sá að þjónustuúrræði við þá sem þurfa aðstoð vegna áfengis- og vímuefnavanda hefur stóraukist. Sannleikurinn er einnig sá að af Norðurlöndunum fimm eru flest sjúkrarými fyrir geðsjúka hér á landi. Samkvæmt ársskýrslu um heilbrigðistölfræði á Norðurlöndum sem kom út á síðasta ári eru um 70--90% fleiri sjúkrarými fyrir geðsjúka á Íslandi miðað við mannfjölda en í Noregi og Svíþjóð og um 50% fleiri en í Danmörku. Við hljótum að skoða þessar tölur og velta rækilega fyrir okkur hvort áherslur í þjónustu við geðsjúka hér á landi séu réttar og of mikil áhersla lögð á sjúkrarúm sem mælikvarða á magn og gæði þjónustu.