Fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:16:31 (4638)

2000-02-22 14:16:31# 125. lþ. 68.94 fundur 335#B fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:16]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. vill fullvissa okkur um að ekki eigi að draga úr þjónustu við sjúklinga. En það er alveg ljóst, herra forseti, að það á heldur ekki að auka hana og í mörg undanfarin ár hefur verið hrópað á úrlausnir, langtímaúrlausnir til handa geðsjúkum og sérstaklega til handa geðsjúkum börnum. Það munu vera um það bil 20 börn í landinu sem þjást af alvarlegum geðsjúkdómum. Langflest þessara barna búa á heimilum sínum og eru í umsjá foreldra sinna allan sólarhringinn, enda eru engin úrræði í heilbrigðiskerfinu fyrir geðveik börn til langs tíma. Það staðfesta aðgerðir foreldra þessara barna sem nýverið bundust samtökum til að knýja á um aðgerðir, fyrst og fremst að því er lýtur að langtímaúrræðum.

Á landinu öllu eru aðeins fimm langlegupláss til framhaldsmeðferðar fyrir börn með alvarlega geðsjúkdóma, fimm úrræði, herra forseti. Tvennt verður að koma til og það strax. Í fyrsta lagi verður að koma til viðurkenning stjórnvalda á þessum vanda og á þeirri sérstöðu sem geðsjúk börn og geðsjúkir eiga við að stríða. Því hefur íslensk ríkisstjórn ekki sinnt. Hún hefur ekki viðurkennt þennan vanda. Ég nefni ekki einungis niðurskurðarhugmyndir heldur nefni ég líka nýjustu ummæli hæstv. forsrh. í umræðum á Alþingi fyrir nokkrum dögum um fátækt á Íslandi, en það kemur fram í skýrslu Rauða kross Íslands að geðsjúkir eru í hópi þeirra sem búa við bágust kjör.

Hitt sem þarf að koma til, herra forseti, eru nauðsynleg aukin langtímaúrræði til að forða ungu fólki og fjölskyldum þess frá þeim hroðalega vanda sem fylgir því að taka á móti barni út af geðdeild eftir sex vikna vistun og geta ekki boðið upp á neitt annað en áframhaldandi baráttu við það sama.