Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:41:11 (4648)

2000-02-22 14:41:11# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu á þskj. 170 um endurskoðun reglna um sölu áfengis. Ásamt mér flytja málið eftirtaldir hv. þm.: Bryndís Hlöðversdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Svanfríður Jónasdóttir og Björgvin G. Sigurðsson.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að almenn sátt sé í samfélaginu um að leyfð sé sala á áfengum drykkjum hér á landi er erfitt að átta sig á þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa rekið að því er varðar sölu á áfengi og af hvaða rót sú stefna er sprottin. Þegar rýnt er í sögu áfengismála hér á landi á þessari öld má leiða líkur að því að núverandi áfengisstefna sé niðurstaða sáttargjörðar milli viðhorfa þeirra sem annars vegar vildu afnema áfengisbannið og að áfengi yrði flutt inn og selt hér á landi og hins vegar þeirra sem bindindismenn höfðu uppi í lok bannáranna svokölluðu, en eins og flestum er kunnugt ríkti bann við sölu áfengis á Íslandi frá árinu 1915 til ársins 1935, eða í um 20 ár. Miklar og harðar deilur áttu sér stað í samfélaginu um áfengisbannið og tilvist þess meðan það var við lýði. Lauk þeim deilum með því að bannið var fellt úr gildi árið 1935. Þegar banninu lauk höfðu bæði andbanningar, en svo voru þeir kallaðir sem vildu afnema bannið, og þeir sem voru fylgjandi áframhaldandi banni á sölu áfengis miklar áhyggjur af drykkjuskap Íslendinga í kjölfar afnáms þess. Því vildu menn fara varlega í sakirnar eftir að innflutningur og sala á áfengi yrði leyfð að nýju svo komið yrði í veg fyrir kollsteypu. Sá ótti reyndist ástæðulaus eins og síðar kom á daginn enda má glöggt sjá þegar rýnt er í innflutningstölur áfengis frá þessum tíma að í ljós kemur að nánast öll árin sem meint bann var við lýði var flutt inn verulegt magn áfengis til landsins samkvæmt opinberum tölum og því þarf ekki að fara í grafgötur um að í þeim skjölum er ekki að finna tæmandi talingu á því magni sem flutt var til landsins á þeim tíma.

Í grein sem skrifuð var í dagblaðið Tímann haustið 1934 var þeim kröfum lýst sem bindindismenn gerðu til stefnumótunar í áfengismálum þjóðarinnar eftir afnám bannlaganna. Þar voru einkum nefnd til sögunnar fimm atriði sem nauðsynlegt var að þeirra mati að horfa til þegar sala á áfengi yrði leyfð að nýju.

Í fyrsta lagi skyldi kjósendur í hverju héraði ráða því hvort þar yrði áfengissala eður ei. Í öðru lagi skyldi banna áfengisveitingar í skipum. Í þriðja lagi skyldi verð á áfengi vera hátt. Í fjórða lagi varð að koma á bindindisfræðslu í skólum og í fimmta lagi var nefnd sú krafa að skipuleggja yrði útbreiðslu bindindis.

Ég tel að öll könnumst við meira og minna við þessi viðhorf þegar skoðuð er framkvæmd á áfengisstefnu þjóðarinnar undanfarna áratugi. Þeim línum sem bindindismenn drógu upp við lok bannáranna hefur því að mestu verið fylgt þegar komið hefur að framkvæmd á áfengisstefnu Íslendinga allar götur síðan.

Forsendur áfengisstefnu Íslendinga undanfarin 65 ár eru því að meginstefnu til þær sömu og lágu til grundvallar sjálfri bannstefnunni þótt frá henni hafi verið horfið fyrir löngu og áherslur breyst með breyttum tíðaranda.

Þessar kröfur bindindismanna byggðu aðallega á þeirri hugmyndafræði að eftir því sem erfiðara væri að ná í áfengi því minna væri drukkið, því dýrara sem áfengið væri því minna væri keypt af því. Segja má að þessi sjónarmið séu alfa og omega þeirrar áfengisstefnu sem hér hefur verið rekin síðan og við öll þekkjum. Því er ekki nema von að spurt sé nú við upphaf 21. aldar hvort rétt sé að viðhalda til frambúðar áfengisstefnu sem byggir á slíkum grunni. Að mínu viti eru of miklar þversagnir í þessari stefnu til þess að mögulegt sé að taka hana alvarlega, enda hefur ólöglegur innflutningur á áfengi, svokallað smygl, til langs tíma verið ein af þjóðaríþróttum Íslendinga.

[14:45]

Virðulegi forseti. Það er mat flutningsmanna að þau skilaboð sem núverandi áfengisstefna feli í sér beri í sér mikinn tvískinnung. Annars vegar að heimilt skuli að flytja inn og selja áfengi en um leið séu send skýr skilaboð um að reynt skuli að koma í veg fyrir neyslu. Þetta tvennt fer einfaldlega ekki saman og getur ekki farið saman. Að mati flutningsmanna er orðið tímabært að umræðan um áfengi og umgengni við það verði á öðrum nótum en þeim sem verið hefur undanfarna áratugi. Það er mat flutningsmanna að ef takast eigi að móta trúverðuga áfengisstefnu verði hún að byggja á öðru en misskilinni fortíð því forsendur þeirrar sáttar sem gjörð var við talsmenn áfengissölubannsins fyrr á öldinni er sátt milli ósættanlegra sjónarmiða. Það er því öðrum þræði broslegt þegar lesa má fréttatilkynningar ÁTVR, hvort heldur er í fjölmiðlum eða heimasíðu stofnunarinnar, um söluaukningu á áfengi milli ára og opnun nýrra áfengisbúða í ókominni framtíð. Slíkar tilkynningar bera það með sér að jafnvel ÁTVR hefur gefist upp á því að framfylgja hinni opinberu áfengisstefnu. Einnig má lesa á heimasíðu ÁTVR að sala á áfengum drykkjum jókst um tæp 8% milli áranna 1998 og 1999. Þessar fréttatilkynningar eru þess eðlis að erfitt er að taka þær alvarlega. Enn fremur þær sem birtast gjarnan um mánaðamót um að áfengi skuli hækka í verði frá og með tilteknum degi. Nú á tímum er almennt viðurkennt að verðmyndun skuli eiga sér á markaði en ekki með miðstýringu og rétt að minna á að fréttatilkynning ÁTVR, þar sem tilkynnt var um að verð á bjór skyldi hækka almennt um 1,75% frá og með 1. febrúar sl. og að annað áfengi að meðaltali um 0,67%, var einföld og án mikilla útskýringa. Hún hljóðaði svo: ,,Breytingarnar stafa af verðbreytingum birgja.`` Þar með var komin skýring á því að áfengi hækkaði um síðustu mánaðamót.

Virðulegi forseti. Það er skoðun mín að leita þurfi annarra leiða en þeirra sem farin hefur verið í sölu áfengis hér á landi undanfarin 65 ár. Það er staðfastlega skoðun mín að áfengismenning sú sem sprottið hefur á grunni þessarar stefnu sé okkur ekki til mikils sóma enda er það oftar en ekki svo að umfjöllun um áfengismenningu okkar, hvort heldur er í innlendum eða erlendum fjölmiðlum, hefur verið þess eðlis að lítill sómi hefur verið að fyrir land og þjóð og alls ekki til þess fallin að auka hróður landsins á erlendri grundu. Það er skoðun mín að við mótun nýrrar áfengisstefnu þurfi að taka mið af tvennu. Í fyrsta lagi að viðurkennd sé sú sátt um að áfengi skuli flutt inn og selt hér á landi. Í öðru lagi getur sátt um að heimila sölu á áfengi aldrei byggst á öðru en því að einstaklingum sé treystandi til að fara með og umgangast slíkar veigar. Það er því heilbrigðara að mínu mati og vænlegra til árangurs að áfengisstefna þjóðarinnar taki mið af þeim raunveruleika sem við búum við hér á landi en ekki einhverju hypótetísku ástandi. Það hlýtur að vera eðlilegra að þjóðin alist upp við það að áfengi og áfengisneysla sé eðlilegur þáttur í samfélaginu, það getur ekki þrifist til lengdar, auk þess sem það dregur úr ábyrgðartilfinningu fólks þegar stjórnvöld haga sér með þeim hætti sem sagan greinir frá í þessum málum.

Í þáltill. sem hér er mælt fyrir og er að finna á þskj. 170 er lagt til að fjmrh. verði falið að skipa nefnd sem vinni að endurskoðun á reglum um sölu áfengis svo m.a. verði heimilað að selja létt vín og bjór í matvöruverslunum. Markmiðið með þessu er m.a. að tryggja að allir, hvar sem þeir búa, hafi jafnan aðgang að þessum vörum. Enn fremur að undirstrika að neysla léttra vína og bjórs sé ekki síður partur af matargerð og matarmenningu þeirri sem við erum að reyna að skapa og koma okkur upp.

Meðal annars af þessum sökum er einnig lagt til að það verði verkefni nefndarinnar að kanna hvort æskilegt og mögulegt sé að reyna að hafa áhrif á neysluvenjur Íslendinga með því að breyta verðlagningu á áfengi og breyta og bæta aðgengi að þeim tegundum sem æskilegt er talið að Íslendingar neyti.

Lagt er til að nefndin endurskoði lög um sölugjöld og tolla á áfengi en með lögum nr. 97/1995 var afnuminn einkaréttur ÁTVR á innflutningi áfengis til landsins. Lagt er til að endurskoðunin taki sérstaklega mið af því að fólk alls staðar á landinu hafi sömu möguleika að nálgast áfengi.

Í tillgr. er lagt til að nefndin verði a.m.k. skipuð fulltrúum allra þeirra flokka sem setu eiga á Alþingi og skili tillögum til fjmrh. eigi síðar en 1. júlí árið 2000 þó sá dagur sé senn að renna upp.

Það er ekkert launungarmál að hér er lagt til að skoðað verði gaumgæfilega hvort rétt sé að auka aðgengi í áfengi frá því sem nú er, einkum að því er varðar létt vín og bjór auk þess sem lagt er til að verðstefna sú sem hér hefur verið rekin um langt skeið verði endurskoðuð. Það er heldur ekkert launungarmál að við teljum það hollara íslenskri þjóð að alast upp við það að áfengi sé eðlilegur hlutur tilverunnar og umgangast það sem slíkt í stað þess tvískinnungs sem verið hefur íslenskri þjóð leiðarljós allt frá því að bannlögin voru numin úr gildi.

Það er trú þeirra sem þetta mál flytja að íslenskri þjóð sé ekki síður treystandi en öðrum Evrópuþjóðum til að umgangast þessa vöru og hafa svipað aðgengi og aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Það er einnig trú okkar að öðrum en ríkinu sé fullkomlega treystandi til að hafa þennan varning á boðstólum.

Við erum einnig sannfærð um að eini möguleikinn til að byggja upp annars konar áfengismenningu en hér tíðkast sé sú að hverfa frá þeirri fortíðarhyggju og þeim tvískinnungi sem einkennt hefur áfengisstefnu Íslendinga um langt árabil. Það verður ætíð svo að alltaf verða einstaklingar sem kunna ekki með áfengi eða aðra slíka vöru að fara frekar en ýmislegt annað sem til boða er í nútímasamfélögum. Hvorki núverandi ástand né sú tillaga sem við ræðum hér breytir nokkru þar um.

Þrátt fyrir að hér sé verið að leggja til verulegar breytingar frá þeirri áfengisstefnu sem verið hefur við lýði um langt skeið er ekki verið að leggja til meiri breytingar en svo að þjóð eins og Norðmenn, sem hingað til hafa ekki verið taldir til frumkvöðla á þessu sviði, hafa þegar stigið það skref að heimila sölu bjórs í matvöruverslunum. Hér er því verið að leggja til breytingu frá núverandi stefnu en um leið lagt til að stigið sé varlega til jarðar í fyrstu og einungis heimilað að auka aðgengi að léttu víni og bjór.

Einnig skal tekið fram að í tilögunni eins og hún er orðuð er ekki loku fyrir það skotið að slík sala í matsöluverslunum geti átt sér stað í samstarfi eða samvinnu við ÁTVR. Í þeim efnum er engum dyrum lokað.

Meginefni tillögunnar er það að við þurfum að ræða um og vinna út frá öðrum forsendum en þeim sem við höfum verið að gera í tæpa sjö áratugi og skilað okkur litlu sem engu fram á veginn.

Virðulegi forseti. Að lokinni umræðunni er lagt til að tillagan fari til meðferðar hjá efh.- og viðskn.