Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:53:02 (4649)

2000-02-22 14:53:02# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er andvígur þessu máli og mun því leggja til að tillagan verði felld ef hún kemur aftur til umfjöllunar og afgreiðslu. Ég hefði talið það standa Alþingi nær miðað við ástand þessara mála að hér væri til umræðu tillaga um að skipa nefnd til að koma með tillögur til þess að draga úr vaxandi unglingadrykkju og taka á því vandamáli sem við blasir samkvæmt tölfræðilegum upplýsingum að drykkja hefur færst niður í aldurshópum. Ástandið er með öðrum orðum, herra forseti, nógu slæmt fyrir þó ekki verði farið út á þá braut að sleppa öllu lausu og auka stórlega aðgengi unglinga að áfengum drykkjum.

Herra forseti. Mér finnst dapurlegt að hv. flutningsmenn, þingmenn Samfylkingarinnar, skuli ganga í lið með íhaldsöflunum í landinu sem hafa undanfarin ár haldið úti markvissum aðgerðum til þess að brjóta niður Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að því er virðist fyrst og fremst til þess að koma verslun með þessar vörur út í almennar verslanir þannig að menn geti farið að höndla með þær þar og græða á því að versla með þær.

Ég tel líka að hv. 1. flm. og frsm. sé á miklum villigötum þegar hann sækir sér aðallega rök í málflutning manna sem rifust um þessa hluti fyrir sex eða sjö áratugum þegar hér stóðu deilur um það hvort afnema ætti áfengisbann og málflutning af því tagi að síðan hafi ekkert breyst skil ég ekki. Ég held að hv. þm. þurfi heldur ekki að velkjast lengi í vafa um hver sé grundvöllurinn fyrir þeirri stefnu í áfengis- og vímuefnamálum sem hefur verið rekin á Íslandi. Munurinn er sá að hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum, kannski að frátalinni Danmörku, er litið á þetta sem hluta af heilbrigðis- og forvarnamálum viðkomandi lands. Það er ekki lengra en sex ár síðan ríkisstjórn Íslands ásamt ríkisstjórnum hinna Norðurlandanna að frátalinni Danmörku setti fyrirvara inn í samningaviðræðurnar um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði til að verja mætti einkasölu á áfengi og tóbaki vegna þess að það væri hluti af heilbrigðisstefnu Norðurlandanna. Sama viðurkenning felst í því að á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru Norðurlöndin, skandínavísku löndin og Ísland, tekin sem sérstakt fordæmi og bent er á hvaða árangri megi ná í þessum efnum með því að reka markvissa og aðhaldssama stefnu í þessu efni. Hvatt er til þess út um allan heim af þessari stofnun Sameinuðu þjóðanna að menn fylgi fordæmi Norðurlandanna og reki ábyrga og aðhaldssama stefnu.

Tölfræðin talar öll sínu máli. Það er ákaflega auðvelt mál hvort heldur er úr þessum ræðustóli eða annars staðar í samfélaginu að koma og reyna að slá keilur á því að þetta sé fornaldarlegt fyrirkomulag, óþægilegt, ekki í takt við tímann o.s.frv. En er það hinn ábyrgi málflutningur eða hitt að horfast í augu við staðreyndirnar eins og þær liggja fyrir og þær eru að stefnan á þessu sviði, spurningin um aðgengið og spurningin um hvort hægt er að hafa reglur sem tryggja t.d. að áfengir drykkir séu ekki seldir til fólks undir lögaldri, skipta miklu máli. Útkoman er sú að vandamál þessu tengd, þó að þau séu vissulega ærin hér, eru hvergi minni en einmitt á þeim Norðurlandanna sem hafa haldið úti aðhaldssamri stefnu í þessum efnum.

Hvers vegna eru Svíar og að nokkru leyti Finnar í hörkuslagsmálum einmitt núna þessi árin að verja fyrirkomulag sitt á áfengissölu? Það er vegna þess að þar er þetta viðhorf lagt til grundvallar að þetta sé ábyrg og aðhaldssöm stefna stjórnvalda, liður í heilbrigðispólitík viðkomandi landa og mikilvægt sé að halda utan um þessa hluti. Ég tek ofan fyrir þeim sem þannig hugsa og óska Svíum og Finnum góðs gengis í því að verja fyrir kjöftum Evrópusambandsins sitt ,,Systembolag`` og sitt ,,Alko``.

Ég held, herra forseti, að flutningsmenn skuldi okkur líka útskýringar á því hvernig þeir ætla, ef vínið fer út í búðir, almennar matsöluverslanir, að tryggja að þar sjáum við ekki sambærilega hluti gerast og í sölu á tóbaki sem er bannað að selja unglingum en kannanir bæði í Hafnarfirði og víðar hafa sýnt að í 70--90% tilvika fá unglingar undir þessum aldri hindrunarlaust keypt tóbak. Hvernig halda menn að það verði á föstudögum í stórmörkuðunum þar sem meðalaldur fólksins á kössunum er sennilega stundum undir þessum lögaldri sem þarf til að kaupa áfenga drykki, þegar skólasystkini þeirra og félagar færu að koma með léttvínsflöskur og bjórkippur? Halda menn að það yrði mikið aðhald í því að ætla þá að treysta á það að afgreiðslufólkið á kössunum tryggði að ekki væri um sölu til unglinga undir lögaldri að ræða o.s.frv.? Ég er sannfærður um að ef menn missa það aðhald sem fólgið er í núverandi fyrirkomulagi, að það sé á opinberri ábyrgð að framfylgja þessum reglum og stefnu stjórnvalda að þessu leyti, geta menn eins sleppt þessu algerlega lausu vegna þess að það mun reynast ógerlegt ef dreifing þessa varnings fer út í almennar verslanir og án sérstakrar leyfisbindingar því hér var ekki komið inn á það. Hvorki er það í greinargerð né var í máli framsögumanns að það væri þá hugsað, að a.m.k. að einhverja sérstaka leyfisveitingu þyrfti til, nei, heldur er talað um matvöruverslanir t.d. almennt og úti um allt land, hvernig aðhaldinu verði þá við komið. Ég er sannfærður um að það verður liður í því að brjóta endanlega niður þetta fyrirtæki og það mundi hverfa á fáeinum árum. Rökin fyrir því að reka það þegar þetta skref hefði verið tekið færu náttúrlega óðum þverrandi og þá væri langþráður draumur þeirra afla sem hafa um áratuga skeið séð glýju í þeim gróða sem hafa mætti af því að fara að höndla með þessa vöru næði hann að rætast. Það er svo augljóst mál að það þarf ekki að ræða það að þegar viðskiptalegur hvati er fyrir hendi til að reyna að selja sem mest af þessari vöru, draga viðskiptavini að og fá þá leiðinni til að kaupa aðra hluti, mun það hafa áhrif og ýta undir aukna neyslu þessarar vöru. Þannig talar tölfræðin sínu máli alls staðar að úr heiminum. Það sýnir reynslan frá Norðurlöndum okkur, það sýnir samanburður milli fylkja í Bandaríkjunum þar sem þetta er sums staðar með þessum hætti en annars staðar ríkisverslun og hægt er að fá mjög góðan samanburð út úr þeirri tölfræði sem fæst með því að skoða mismunandi fyrirkomulag í einstökum fylkjum Bandaríkjanna. Þar er þróunin núna í þá átt að verið er að hækka aldurinn og aftur er verið að setja strangari reglur um verslun með þessar vörur.

Sama er að gerast í Frakklandi og í Danmörku geisar núna mikil umræða um það að Danir verði að grípa til aðgerða vegna stórkostlegrar drykkju skólabarna í Danmörku sem litið er á sem eitt mesta vandamál í uppeldis- og kennslumálum. Ég held því að við ættum að líta frekar á það sem nú er til umræðu annars staðar í heiminum en leggja til hluti af þessu tagi.

Það er svo vissulega svo, herra forseti, að ýmislegt má skoða og fara yfir, t.d. hvað varðar framkvæmd þessara mála hjá ÁTVR og þá þjónustu sem þar er veitt. Það hefur m.a. sá sem hér talar lagt til og var brosað að því fyrir nokkrum árum þegar ég lagði til að þar yrði stofnað embætti þjónustufulltrúa og reynt að færa þjónustu þess fyrirtækis í nútímalegra horf sem hefur vissulega verið að gerast en mætti betur gera. Það er ekkert því til fyrirstöðu að koma til móts við kröfur neytenda í því fyrirkomulagi rétt eins og öðru án þess að stíga skref af þessu tagi sem yrðu til ófarnaðar.