Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 15:05:26 (4652)

2000-02-22 15:05:26# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt ef hv. þm. hefur tekið orð mín svo að hann þurfi að skammast sín fyrir stefnu sína. Ég ber mikla virðingu fyrir bindindismönnum og líka því erindi þeirra að finnast að bindindi sé rétt og eðlilegt fyrir aðra, sömuleiðis þeim sem vilja gæta hófs.

Hins vegar erum við að tala um viðskipti og mér finnst það svolítið sérkennilegt þegar hv. þm. talar um að viðskiptahvatinn komi þá fyrst inn þegar aðrir en ÁTVR fara að höndla með þennan varning. ÁTVR er nefnilega með viðskiptahvata inni. Þeir henda út úr verslunum sínum öllum þeim tegundum sem seljast ekki og þeir hrósa sér af söluaukningu á milli ára.

Síðan finnst mér örla dálítið á því þegar menn eru að ræða um áfengismál að menn séu kannski fyrst og fremst í vörn fyrir ÁTVR. Þá vil ég spyrja af því að það er talið öruggast og traustast þegar um er að ræða áfengisstefnu að það séu starfsmenn ríkisins sem afhenda þennan drykk yfir borðið. Er hv. þm. á því að við ættum að gera til þess kröfu að það séu opinberir starfsmenn sem afgreiða á börum?

Það er alveg ljóst að á börum og í vínveitingahúsum út um allt land starfar fólk sem hefur a.m.k. ekki þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa hvað varðar atvinnurétt og annað þess háttar. Er þessu fólki ekki treystandi þess vegna? Þurfa menn að vera opinberir starfsmenn til þess að þeim sé treystandi til þess að afgreiða vín yfir borð?