Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 15:21:36 (4661)

2000-02-22 15:21:36# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo mál böl bæta að benda á annað verra. Það er svona nokkurn veginn innihaldið í þessum málflutningi. Ég spurði hv. þm. spurningar. Ég spurði hann og kallaði eftir röksemdafærslu fyrir þeirri fullyrðingu hans úr ræðustólnum á hinu háa Alþingi hvað hann átti við þegar hann talaði um aðhaldssama áfengisstefnu í ljósi þeirra staðreynda að sala Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hefur aukist um 8% milli ára og að fyrirhugað er að fjölga útibúum um a.m.k. fjögur. Ég held að hv. þm. skuldi okkur skýringu á því hvað hann á við því að það sé umræðunni ekki til framdráttar að koma hér upp með fullyrðingar án þess að gerð sé krafa til manna að rökstyðja þær. Í þessu tilviki kalla ég eftir því að hv. þm. rökstyðji þá fullyrðingu sína að hér sé rekin aðhaldssöm áfengisstefna og bendi þá okkur hinum sem teljum okkur a.m.k. hafa skoðað þetta mál hvar okkur hefur skjátlast. Hvað varð okkur á? Þetta liggur einfaldlega fyrir á heimasíðu ÁTVR. Kannski hefur okkur einhvers staðar yfirsést eitthvað sem hv. þm. hefur séð og þá væri gott að vita af því.