Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 15:24:34 (4663)

2000-02-22 15:24:34# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Eitthvað er hún kunnugleg þessi umræða. Hún minnir á bjórumræðuna fyrir það hvað hún er tilfinningaheit. Bjórumræðan var sérstök fyrir þær sakir að hún klauf alla flokka og hún stóð, ef ég man rétt, í ein tíu ár frá því að menn fóru að flytja mál hér á Alþingi og þar til leyfi til að framleiða og selja bjór var endanlega heimilað á hv. Alþingi með eins atkvæðis mun.

Ef til vill er þessi umræða sem verið er að hefja í dag með till. til þál. frá fjórum þingmönnum Samfylkingarinnar upphaf á áralangri umræðu á Alþingi um hvar eigi að selja áfengið, hvað sé best að drekka og hverjir eigi að sjá um annars vegar sölumál og hins vegar forvarnamál. Allt þetta hefur komið inn í umræðuna hjá þeim sem hafa talað í þessari umræðu

Virðulegi forseti. Sem betur fer eru þessi mál ekki flokkspólitísk. Hér flytja fjórir þingmenn Samfylkingarinnar till. til þál. um endurskoðun reglna um sölu áfengis. Þeir fara varlega. Þeir vilja fela fjármálaráðherra að skipa nefnd er vinni að endurskoðun reglna um sölu áfengis svo að heimila megi sölu á léttum vínum og bjór í matvöruverslunum og að nefndin athugi hvort unnt sé og æskilegt að hafa áhrif á neysluvenjur Íslendinga með breyttri verðlagningu á áfengi og aðgengi að léttum vínum og bjór. Ég segi að þeir fari varlega eða hóflega í ályktunartexa sínum. En það fer ekkert á milli mála að í honum felst viljinn til þess að heimilt verði að selja létt vín og bjór í matvöruverslunum. Þetta er ekki stefna Samfylkingarinnar ef einhver sem sér þessa tillögu eða hlustar á þessa umræðu heldur það. Þetta er tillaga fjögurra þingmanna og það eru eflaust margir utan og innan Samfylkingarinnar sem deila þessu sjónarmiði. En þeir eru líka mjög margir utan og innan Samfylkingarinnar sem deila því að ekki sé tímabært að gera þessar breytingar og ég er í hópi þeirra. Ég er ekki sammála þessari tillögu og er því í hinum hópnum.

Áðan var nefnt hvort þetta snerist um það hvort það væri betra eða réttara að ríkisstarfsmenn réttu flöskur yfir borð eða hvort þær væru teknar úr hillu, ef ég skildi umræðuna rétt eða viðbrögðin. Að mínu mati snýst þessi umræða ekki um það heldur að hér er verið að leggja til að gera breytingar á hefðbundnum áratugalöngum söluháttum með þeim afleiðingum sem þær breytingar kunna að hafa, um það er deilt hvort þær breytingar yrðu til góðs eða ekki, þ.e. að gera breytingar á ríkjandi hefðbundnum söluháttum margra áratuga.

Herra forseti. Ég gæti alveg hugsað mér að nefnd mundi gera úttekt á neysluvenjum. Ég held að það sé ekki slæmt og hvort þær hafi breyst og hvað það sé sem hafi orsakað þær breytingar. Ég get alveg hugsað mér að nefnd skoði hvort heimild til framleiðslu og sölu á bjór sem Alþingi heimilaði árið 1989 hafi haft áhrif og þá í hvaða átt. Ég get líka alveg hugsað mér að skoðað verði hvernig eða hvaða áhrif breytingar á vínveitingaleyfum á sínum tíma þegar matsölu- og kaffihús fengu leyfi, en þá urðu mikil þáttaskil í kaffihúsa- og veitingahúsamenningu okkar, hafi haft á neyslu fólks í þessum efnum.

Þetta eru ekki einföld mál og eins og ég sagði í upphafi eru þau tilfinningaheit. Íslendingar ferðast mjög mikið. Þeir heimsækja fjarlæg lönd með aldagamalli vínmenningu þar sem það að neyta léttra vína er eðlilegasti hlutur í heimi, nærri því hvenær sem er. Menn heillast af því að geta gripið með sér vínflösku úr hillu í kjörbúðinni um leið og nauðsynjarnar eru tíndar ofan í körfuna og menn vilja flytja þetta heim líka.

Ég dvelst mikið á fjarlægum slóðum og hef kynnst þessari vínmenningu þar sem það þykir næstum jafneðlilegt að sækja vínið með matnum eins og að sækja matinn sjálfan. En ég er ekki þeirrar skoðunar að vilja flytja það hingað heim núna. Það er skoðun mín og mér er frjálst að hafa hana, um það tökumst við á á hv. Alþingi, að við eigum að fara varlega. Menning okkar er önnur, allt önnur og miklu líkari því sem er á öðrum þeim Norðurlöndum sem hafa verið með einkasölu og hafa ríghaldið í hana. Mér finnst ósennilegt að vínmenning okkar breytist við það að ég fari út í 10-11 og sæki vínflöskuna fremur en í áfengisverslunina í Austurstræti. Mér finnst gert of mikið úr þessu vegna þess að það er búið að auka gífurlega aðgengi fullorðins fólks að áfengi. Það er ekki það sem við þurfum.

Þær þjóðir sem ég vísaði til áðan hafa léttvín mjög mikið um hönd og börnum er jafnvel skenkt í glas. Neyslan er með öðru hugarfari og sjálfsagt að vín sé hluti máltíðar. Það er nærri því jafnsjálfsagt að hafa vín með matnum eins og kartöflur hjá okkur. Munum það.

Virðulegi forseti. Hér var það nefnt áðan hvort meira frelsi í sölu á víni mundi hafa áhrif á vandamál sem hér eru. Vissulega virðumst við vera að verða jafnilla stödd og aðrar þjóðir hvað varðar unglingadrykkju, vímuefnaneyslu og ofbeldi. Fleiri og fleiri eru í þessari neyslu og yngri og yngri.

Hugsun þessarar tillögu er að fólk kaupi fremur vín og bjór, að það verði ný stefna frekar en sterkt áfengi. Ég er ekki hér til að mæla með því að fólk drekki sterkt áfengi. Það er val hvers og eins. En það var nefnt í framsöguræðu að Norðmenn væru að breyta sölu á bjór og heimila sterka bjórinn í verslunum. Það vakti með mér minninguna um allmörg ár í Noregi þegar Íslendingurinn gerði sér dagamun með sterku víni en skólafélagarnir höfðu varla kynnst því, hvað þá heldur snert. En skelfing gátu þeir góðu félagar orðið vel kenndir af sterka pilsnernum sem fékkst í búðinni. Það var drykkjumenning þeirra.

Við getum talað mikið um heimildir og frelsi og mér finnst eðlilegt að á því sé tekið hér í sölum Alþingis alveg eins og með bjórinn. Gerum það ekki flokkpólitískt. Skoðum þessi mál í nefnd. Komum með fleiri mál og fleiri skoðanir. Gerum úttekt svo við vitum hvað við erum að gera. Göngum svo til atkvæða. Ef sú atkvæðagreiðsla yrði í dag þá mundi ég greiða atkvæði gegn þessu.