Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 15:32:52 (4664)

2000-02-22 15:32:52# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Til umræðu er till. til þál. um endurskoðun reglna um sölu áfengis og eru flutningsmenn nokkrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Í tillögunni er lagt til að skipuð verði nefnd sem hafi það hlutverk í fyrsta lagi að vinna að endurskoðun reglna um sölu áfengis og að heimila megi sölu á léttum vínum og bjór í matsöluverslunum og í öðru lagi að athuga hvort unnt sé og æskilegt að hafa áhrif á neysluvenjur Íslendinga með breyttri verðlagningu á áfengi og aðgengi að léttum vínum og bjór.

Ég get fallist á þá meginhugmynd þáltill. að nefnd verði skipuð til að vinna að endurskoðun á reglum um sölu áfengis. Hins vegar er ég ósammála þeim forsendum sem flm. tillögunnar gefa sér.

Það eru einkum tvö atriði í þáltill. sem ég hef athugasemdir við. Í fyrsta lagi gengur þáltill. út frá að einkasölu á áfengi verði aflétt hvað varðar létt vín og bjór sem heimilt verði að selja í matvöruverslunum. Hins vegar verður ekki annað ráðið af tillögunni en að einkasala á sterku áfengi verði áfram í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og því er ég ósammála.

Í öðru lagi gengur þáltill. út frá því að leyft verði að selja létt vín og bjór í matsöluverslunum. Þessu er ég einnig ósammála. Sú útfærsla sem flm. þáltill. leggja til, þ.e. að einkaaðilar fái heimild til að selja létt vín og bjór í matvöruverslunum en ríkið hafi áfram með höndum sölu á sterku áfengi í einkasölu er ein afleitasta útfærslan í þessum málum sem hugsast getur. Það er fráleitt að ríkið haldi úti áfengisverslunum um allt land eingöngu til að selja sterkt áfengi. Sá mikli kostnaður og óhagræði við að halda úti verslunum og starfsfólki sem eingöngu selja sterkt áfengi og óhagræði við dreifingu á vörunni í þessar verslanir er augljóst.

Mín skoðun er sú að einkasala ríkisins á áfengi sé tímaskekkja. Ég sé engin rök fyrir því að ríkisstarfsmenn selji áfengi í áfengisverslunum fremur en ég sé rök fyrir því að ríkisstarfsmenn afgreiði áfengi á vínveitingastöðum. Við höfum allt frá því að bannlögin voru afnumin treyst einkaaðilum til að selja áfengi á vínveitingastöðum. Því ættum við síður að treysta einkaaðilum til að selja létt vín, bjór og sterkt áfengi í smásölu? Fyrir því eru engin rök.

Það er hins vegar alveg ljóst að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Þetta er vara sem getur verið ávanabindandi og hún er skilgreind sem vímuefni, enda gilda sérstök lög í landinu um sölu og dreifingu á áfengi. Það er eðlilegt að sala á slíkum varningi sé háð sérstökum leyfum og lúti ströngum skilyrðum sem fylgst er með að fylgt sé eftir á sama máta og sala á léttum vínum, bjór og sterku áfengi á vínveitingastöðum er háð ströngum reglum. Brot á reglum eiga að fela í sér sviptingu á leyfi til að selja áfengi.

Virðulegi forseti. Niðurstaða mín er því að leggja eigi niður einkasölu ríkisins á áfengi og að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði lögð niður eða seld einkaaðilum ef það þykir fýsilegur kostur. Flutningsmenn tillögunnar leggja til að leyft verði að selja létt vín og bjór í matsöluverslunum. Þessu er ég ósammála eins og ég sagði áðan því áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Að mínu mati á áfengi ekki að vera í hillum í matvöruverslunum eins og hvert annað morgunkorn, mjólk eða bleiur. Í grg. með tillögunni kemur reyndar fram að flm. gera ekki greinarmun á hvort áfengi verði selt í matvöruverslunum eða sérverslunum.

Stefna stjórnvalda í áfengismálum hér á landi felst í að draga úr neyslu áfengis. Stefna stjórnvalda í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum birtist m.a. í stefnumótun ríkisstjórnarinnar frá 3. desember 1996 þar sem sérstök áhersla er lögð á að efla forvarnir, einkum þær sem beint er að einstaklingum sem eru í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna, áfengis og tóbaks. Þá er í stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki lögð sérstök áhersla á að hefta aðgengi barna og ungmenna að þessum efnum og efla andstöðu í þjóðfélaginu gegn notkun þeirra á fíkniefnum, áfengi og tóbaki. Til að vinna að þessum málum og samræma aðgerðir var stofnað áfengis- og vímuvarnaráð og tók það til starfa í ársbyrjun 1999, fyrir rúmu ári síðan.

Í lögum og reglugerðum eru einkum fjórar leiðir notaðar af stjórnvöldum til að stýra neyslu á áfengi. Þetta er í fyrsta lagi aldursmörk við sölu á áfengi, svokallaður áfengiskaupaaldur, í öðru lagi reglur um auglýsingar á áfengi, í þriðja lagi lög og reglur um aðgengi að vörunni og í fjórða lagi verðlagning á áfengi. Hér á landi hefur tiltölulega ströngum reglum verið fylgt í þessum efnum. Áfengiskaupaaldur er 20 ár. Bannað er að auglýsa áfengi. Ríkið hefur einkarétt á smásölu á áfengi og útsölustaðir þar til nýlega verið fremur fáir og verð á áfengi er hátt í samanburði við önnur lönd, sérstaklega verð á léttum vínum og bjór. Líkur eru á að breyting á einhverjum eða öllum þessara þátta leiðir til aukinnar áfengisneyslu. Hugmyndir um breytingar á öllum þessum atriðum, þ.e. áfengiskaupaaldri, auglýsingum á áfengi, aðgengi og verði á áfengi hafa verið í umræðunni hér á landi síðustu missiri. Rannsóknir hafa sýnt að breyting á einhverjum eða hverjum og einum þessara þátta leiði til aukinnar neyslu áfengis. Því er mikilvægt að þau skref sem tekin eru verði vel ígrunduð, skynsamleg og þótt þau taki mið af tíðarandanum og breyttum viðhorfum til áfengismála verður um leið að hafa auga á stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Því tek ég undir þá meginhugsun þáltill. að skipa nefnd til að vinna að endurskoðun á reglum um sölu áfengis þó ég sé ósammála þeim leiðum sem flm. leggja til.

Í matvöruverslunum er fjöldi ungmenna undir áfengiskaupaaldri starfandi. Verði létt vín og bjór seld í matvöruverslunum er aðgengi ungmenna að vörunni stóraukið. Að sama skapi yrði erfitt að hafa eftirlit með sölu á áfengi því í mörgum smærri verslunum eru ungmenni ein við afgreiðslu, t.d. um helgar og á kvöldin.

Oft hefur verið vísað til Norðurlanda varðandi sölu á áfengi í verslunum. Við þekkjum flest að verslun með áfengi er leyfð í matvöruverslunum í Danmörku. Hins vegar er áfengi ekki selt í matvöruverslunum á hinum Norðurlöndunum, einungis bjór undir 4,7% styrkleikamörkum er seldur utan ríkisverslana.

Virðulegi forseti. Niðurstaða mín er því að heimila eigi að selja áfengi, þ.e. létt vín, bjór og sterkt áfengi í sérverslunum sem fá sérstakt leyfi til smásölu á þessum vörum. Verslun með áfengi verði því aðgreind frá annarri smásölu og hlíti sérstökum reglum sem eftirlit er með að sé framfylgt. Þessar verslanir geta verið í tengslum við matvöruverslanir en verði í sérstöku aðgreindu húsnæði.

Á síðustu árum hefur orðið veruleg breyting á verslun með áfengi ekki síst á landsbyggðinni. Opnaðar hafa verið áfengisverslanir í fjölmörgum kaupstöðum og kauptúnum sem höfðu áður verið án slíkra verslana. Mikilli hugkvæmni hefur verið beitt til að tryggja hagkvæmni í rekstri þessara verslana og þær víða reknar í tengslum við aðra verslun eins og í skjóli byggingarvöruverslunar, barnafataverslunar og í smávöruverslunar eins og t.d. í Borgarnesi. Ég sé fyrir mér frekari þróun í þessa átt en í stað þess að ríkið reki áfengisverslunina verði hún í höndum einkaaðila. Ég kem e.t.v. í seinni ræðu minni að öðrum þáttum í þessu máli.