Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 16:11:10 (4674)

2000-02-22 16:11:10# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[16:11]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur víða verið komið við í umræðu um till. til þál. um endurskoðun reglna um sölu áfengis. Ég er einn flutningsmanna þessarar tillögu. Ég mun ekki vitna í heilaga ritningu eins og hv. þm. Karl V. Matthíasson heldur hygg ég að þetta mál byggi einfaldlega á almennri skynsemi, eilitlu frjálslyndi og því að treysta fólki fyrir sjálfu sér. Hér er mikið rætt um aðgengi að áfengi og vissulega mundi sú ráðstöfun að selja bjór og létt vín í matvöruverslunum auka aðgengi að áfengi.

Það er líka margsannað mál að aðgengið eitt og sér gerir ekki útslagið um það hve áfengisdrykkja í einu landi er mikil. Fleira kemur til. Verðlag hefur einnig mikil áhrif og flutningsmenn þessarar tillögu eru þeirrar skoðunar að verðlag skipti máli þegar áfengisdrykkja er annars vegar. Það er auðvitað margsannað út frá manneldissjónarmiðum sem nokkuð hefur verið vitnað til í umræðunni að það getur verið tvennt ólíkt að bergja á brenndum drykkjum ellegar drekka bjór eða léttvín í hófi, herra forseti.

Flutningsmenn þessarar tillögu eru þeirrar skoðunar að áfengi í hófi drukkið gleðji sálina, (Gripið fram í: Mannsins hjarta.) að það sé hverjum manni í sjálfsvald sett hvort hann neytir áfengis eða ekki hafi hann til þess aldur og að þetta mál fjalli ekki um það eins og einn hv. þm. sagði í upphafi umræðunnar að hér eigi að upphefja mikla unglingadrykkju á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að fólk verði og eigi að reyna að bera ábyrgð á sjálfu sér í þessum efnum eins og öllum öðrum.

Auðvitað er unglingadrykkja mjög mikið vandamál á Íslandi en við skulum líka horfast í augu við það að hún er mjög mikið vandamál á Íslandi þrátt fyrir þá áfengisstefnu sem hér hefur ríkt og sumir vilja viðhalda. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og það er áfengisneysla fullorðinna sem hefur farið úr mestum böndum á Íslandi.

Samfylkingin er ekki forsjárhyggjuflokkur. Við sem flytjum þessa tillögu gerum það til þess að leyfa hv. þingmönnum að taka afstöðu til málsins. Við höfum ákveðið að fara varlega, taka eitt skref í einu. Nú þegar hefur komið í ljós í umræðunni að flest flokksbönd bresta þegar umræða um áfengi er annars vegar. Það má eiginlega segja að þegar sú þrenning er rædd, áfengi, kynlíf og trúarbrögð, þá bresti fyrst flokksböndin á hinu háa Alþingi. Hér er einungis lagt til að málið verði sett í nefnd og skoðað með það að markmiði að finna leið til þess að leyfa sölu á léttu víni og bjór í matvöruverslunum. Ég hygg að þessi nálgun við viðfangsefnið sé bæði skynsamleg og ábyrg. Við vitum að með þessari nálgun er verið að koma til móts við óskir mjög margra. Við vitum líka að þeir finnast á Íslandi og sem hafa sumir hverjir tjáð sig í umræðunni sem eru algerlega á móti þessu. En ég hygg að það sé vel þess virði að málið verði skoðað af fullri alvöru í nefnd og svo lagt fyrir hið háa Alþingi til afgreiðslu.

Ég vil að lokum taka tvennt fram. Ég er ósammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að ríkisreksturinn geri gæfumuninn við sölu áfengis. Ég held að svo sé ekki. Og ég vil fagna ummælum og ræðum hv. þm. Ástu Möller og Péturs Blöndals þar sem þau vilja reyndar stíga skrefi lengra en lagt er til í þessari tillögu en sú umræða og skoðanir okkar eru á sömu nótunum.

Að lokum vegna þess að flokksbróðir minn hv. þm. Karl V. Matthíasson hafði áhyggjur af biðröðum og því að þurfa að sanna hver maður er, þá held ég að best sé að upplýsa hann um það strax að Íslendingar hafa náttúrlega fyrir löngu síðan tapað kennitölustríðinu, þ.e. kennitölur eru alls staðar, þær eru á öllum kortum sem við eigum og það er minnsta mál í heimi að sanna aldur við þær aðstæður sem við búum við á tækniöld.