Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 16:17:56 (4675)

2000-02-22 16:17:56# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um endurskoðun reglna um sölu áfengis. Ég tek undir þau orð nokkurra þingmanna sem hér hafa bent á að tillagan hefði gjarnan mátt vera vandaðri. Hún hefði gjarnan mátt skýra betur hugi þeirra hv. þm. sem flytja tillöguna. Það hefur komið í ljós í umræðunni að ýmislegt hafa hv. þm. til málanna að leggja sem betur hefði mátt koma fram í greinargerðinni. Ég er sammála hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni um að væntanleg nefnd virðist ekki eiga að hafa neitt svigrúm. Þannig er tillagan orðuð. Ég bendi sömuleiðis á annan galla í tillögunni. Það hefur komið fram í ræðum hv. þm. að þeir eru ekki að mæla með eftirlitslausri sölu. Það hefði auðvitað verið sjálfsagt mál að láta þá skýringu, sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir kom með í ræðu sinni áðan, fylgja í greinargerð.

Herra forseti. Með það í huga að hér er um gallaða framsetningu að ræða þá væri ég fremur til í að ræða hér tillögu til lækkunar á áfengiskaupaaldri. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að tvískinnungs gætir í þeim efnum í samfélaginu og hann er alls ekki af hinu góða. Það er ekki samræmi í að ungt fólk á aldrinum 18 ára til tvítugs skuli geta gift sig en hafi ekki leyfi til að fara í áfengisverslun og kaupa kampavínið í brúðkaupsveisluna. Það er ekki til eftirbreytni að ungt fólk skuli geta afgreitt á vínsölustöðum en megi ekki geta keypt sér drykk á þeim sama vínsölustað. Ég væri til í að vera að ræða hluti á borð við þessa, þar sem ákveðins tvískinnungs gætir sem við verðum að fara að vinna bug á.

Ég tek sömuleiðis undir það sem fram kom í ræðu hv. þm. Þuríðar Backman þar sem talað var um tvískinnunginn í því, sem þegar er til staðar á landinu, að fólk geti farið á bensínstöðina og tekið með sér kippu af bjór. Ég held að ég sé að fara rétt með en á Reyðarfirði er bensínstöð sem hefur með höndum leyfi til áfengisverslunar. Ég vildi að við værum að ræða hér um þann tvískinnung sem viðgengst hér. Ég væri líka til í að ræða mjög náið hvaða aðferðir væru vænlegar til þess að bæta vínmenningu okkar. Þar tel ég svo sannarlega verk að vinna.

Herra forseti. Ég gagnrýni sem sagt þessa tillögu. Ég hefði sannarlega viljað sjá hana vandaðri. Engu að síður vil ég taka virkan þátt í þessari umræðu. Ég er að mörgu leyti sammála hv. þm. Ástu Möller sem hér talaði og ræddi um að allar reglur um áfengissölu þurfi að taka til endurskoðunar. Ég er sannarlega fylgjandi því en ég er mótfallin því að áfengissala verði gefin frjáls til einkaaðila. Ég tel ekkert tilefni, herra forseti, til að gera það eða taka það skref núna.

En af því að við nefndum vínmenninguna og ég er hlynnt því að hefja umræðu um vínmenningu til vegs, þá er ég sannfærð um að það má gera með Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í liðinu. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er vel rekin ríkisstofnun og ég þori að fullyrða að þar á bæ eru ótal hugmyndir sem geta aukið þjónustustig verslunarinnar. Ég held að okkur sé nauðsyn að leita í þá smiðju eftir hugmyndum þeirra manna sem annast hafa áfengissölu síðustu áratugina. Ég tel miklu skynsamlegra að leita eftir hugmyndum sem þar eru til staðar heldur en byrja á því að ætla að reka þennan sterka leikmann, kannski öflugasta leikmanninn í liðinu, út af vellinum á þessu stigi málsins áður en leikurinn hefst. Ég flokka það undir bráðræði, herra forseti.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur hingað til gert ýmislegt til að bæta aðgengi og efla þjónustu í verslunum sínum. Þar hafa eftirtektarverðar tilraunir verið gerðar. T.d. nefni ég verslunina í Árbænum, Heiðrúnu, þar sem boðið er upp á sérpöntunarþjónustu sem er til fyrirmyndar. Ég er sannarlega sammála því að hér megi að mörgu leyti gera betur. Ég er hlynnt því að við gerum allt til að bæta vínmenninguna. Ég held að bætt vínmenning verði á endanum lóð á vogarskál forvarnanna. Það er ég alveg sannfærð um.

Ég er eins og hv. þingmenn Ásta Möller og Þuríður Backman fylgjandi því að sjá verslanir á borð við þær sérverslanir sem við höfum lýst hér að við höfum unun af að heimsækja í útlöndum, verslanir sem hafa á að skipa færum ráðgjöfum og ástríðufullum vínsölum sem eru vel að sér um vöruna sem þeir eru að selja, menn sem bjóða upp á vínsmakkanir á tyllidögum og leiða mann í allan sannleikann um vínmenningu erlendra þjóða, segja manni söguna á bak við miðann á flöskunni og kynna manni þessar lendur. Ég er sannarlega hlynnt því og tel þörf á slíku átaki. Ég tel að fræðsla sé lykilatriði í þeirri vinnu sem þarf að fara fram til að auka vínmenningu á Íslandi. Okkur virðist því miður ekki í blóð borið að velja vínin af ástríðu og spekúlera í víni á sama hátt og Frakkar, Ítalir og fleiri þjóðir virðast hafa í genunum.

Herra forseti. Það er talað um forræðishyggju. En hvað ef við lítum á forræðishyggjuna frá öðru sjónarhorni? Forræðishyggja á einu plani getur í raun verið umhyggja á öðru plani. Ég verð að segja að það er á einhvern hátt af umhyggju fyrir ungu fólki að ég vil forða því frá freistingunum. Ég tel mig ekki gera ungu fólki gott ef ég legg freistingarnar meðvitað við hvert fótmál þess. Ég er alveg sannfærð um að gott er að standast eldraunir. Við höfum öll gott af því að ganga í gegnum eldraunir. En að leggja freistingar og eldraunir við fótmál ungs fólks í þeim mæli sem við mundum gera með því að gefa áfengissölu frjálsa inn í matvöruverslanir þá værum við ekki að efla það til sjálfsákvörðunartöku. Við værum að veikja karakter þess. Við værum að veikja möguleika þess til að standast eldraunir og freistingar. Undir formerkjum umhyggju fyrir ungu fólki er ég hrædd við að gefa áfengissöluna frjálsa í matsöluverslanir. Það er ekki gott fyrir unglingana okkar að þurfa stöðugt að viðurkenna fyrir sjálfum sér og kannski foreldrum sínum að þeir séu stöðugt að falla á þeim prófum sem samfélagið leggur fyrir þá.

Ég er ósammála hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur um að í þessari tillögu sé farið varlega. Mér finnst þetta skref satt að segja risastórt. Ég hefði viljað sjá meiri varfærni þar sem fólk sæi fótum sínum betur forráð en mér sýnist þessi tillaga gera ráð fyrir.

Óhamingjusömu ungu fólki fjölgar. Ódæðisverkum unglinga fjölgar og heimilisofbeldi eykst. Fleiri eru teknir ölvaðir undir stýri og fleiri umferðarslys má rekja til ölvunar ökumanns en áður. Fleiri unglingar leiðast inn á brautir vímuefnaneyslu og ungu fólki fjölgar á meðferðarstofnununum. Ég held að við ættum að ræða forvarnir af alvöru fremur en frelsi til kaupa á áfengi í matvöruverslunum.