Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 16:33:18 (4680)

2000-02-22 16:33:18# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[16:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru fáein atriði sem mér vannst ekki tími til að koma að í fyrri ræðu minni. Ég vil sérstaklega gera athugasemdir við þann málflutning hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að vegna þess að orðið hafi nokkur söluaukning á áfengi milli ára, þá séu í rauninni öll efni til þess að leggja af það fyrirkomulag sem verið hefur, eins og að í því felist að markmiðið með því sé að koma með öllu í veg fyrir að þessi vara sé seld eða sala hennar aukist. Það hefur auðvitað sveiflast upp og niður eins og gengur hvernig sala þessa varnings hefur verið og fylgir almennt neyslusveiflum í þjóðfélaginu. Það hefur orðið geysileg neysluaukning í samfélaginu sl. tvö, þrjú ár og neysla áfengra drykkja hefur haldist í hendur við stóraukin umsvif í þjóðfélaginu.

Við þekkjum líka að á erfiðleikatímum þegar kaupmáttur fer minnkandi, þá dregst sala þessarar vöru saman eða a.m.k. minnkar heldur en endranær þannig að þetta er í raun og veru bara að taka hlutina úr samhengi að gera þetta að sérstöku umtalsefni.

Við getum líka velt fyrir okkur hinu hvort ekki væri ástæða til að ætla að þessi söluaukning hefði orðið enn þá meiri á þeim tímum þegar annar hver unglingur og jafnvel niður í grunnskóla landsins gengur um með farsíma og eitt helsta vandamál í mörgum af framhaldsskólunum er skortur á bílastæðum, væri þá ekki ástæða til að ætla að ef ekki hefði þarna verið fylgt eftir atvikum aðhaldssamri stefnu, þá hefði þróunin orðið enn óhagstæðari.

Síðan finnst mér hv. 1. flm. vera á nokkrum flótta í máli sínu vegna þess að ég gat ekki betur heyrt í orðaskiptum áðan en að hv. flm. væri í raun og veru að afneita eigin tillögu og flýja í burtu frá textanum sem stendur þar svart á hvítu. Nú á þetta að vera orðin svona voðalega hlutlaus könnun þar sem engar forsendur eru gefnar upp fyrir fram, en það eru gefnar upp forsendur í tillögunni. Tillögugreinin gengur út á það að endurskoða reglur um sölu á áfengi, með leyfi forseta: ,,... svo að heimila megi sölu á léttum vínum og bjór í matvöruverslunum.`` Þetta er eins skýrt og nokkuð getur verið og ég verð þá að fara að læra íslensku upp á nýtt ef þetta felur ekki í sér þann vilja flm. að breyta reglum þannig að hefja megi sölu í matvöruverslunum. Stendur það ekki þarna, hv. þm.? Jú, það stendur þarna. (Gripið fram í.) Hvers vegna var þá hv. flm. að flýja frá því í útskýringum sínum hér áðan?

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að þegar maður skoðar samhengi tillögunnar og grg., þá renna mjög á mig tvær grímur og ég gagnrýni það, mér finnst það léttúðarfullt að fjalla þá ekki a.m.k. um þær hættur sem ég ímynda mér að skynsamir flm. hafi séð að gætu legið í málinu að þetta hlyti a.m.k. að bjóða upp á hættur á ákveðinni aukningu. Ef þarna hefðu einhverjar mótvægisaðgerðir verið nefndar á nafn eða einhverjar vangaveltur um að ástæða væri til að auka þá á sama tíma fræðslu o.s.frv., þá hefði maður a.m.k. getað virt það sem viðleitni. Ég sé ekki betur en að með þessu tvennu sem þarna er lagt til annars vegar að fara skuli með sölu á léttum vínum og bjór út í allar matvöruverslanir og hins vegar það sem stendur í grg., vel að merkja vissulega í grg. en ekki í tillögugreininni, að einnig verði sérstaklega skoðað hvort æskilegt sé og unnt að hafa áhrif á neysluvenjur Íslendinga með því að lækka verð hlutfallslega á léttum vínum og bjór á kostnað verðs á sterkari drykkjum.

Ef þetta fyrirkomulag yrði nú að veruleika, að sterku drykkirnir verði áfram í einhverjum búðum sem hugsanlega yrðu reknar í einhver ár á vegum ÁTVR áður en menn gæfust upp en léttu vínin og bjórinn færu út í matvöruverslanirnar út um allt land og verð þeirra yrði gagngert lækkað, hvað er það? Það getur ekki verið annað en ávísun á aukna neyslu vegna þess að verðið og aðgengið eru þættir sem ráða miklu um neysluna. Það sýna okkur allar kannanir og reynslan alls staðar að úr heiminum og það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn í þeim efnum. Við erum að tala um slíka hluti og eigum ekkert að fela það í neinn búning.

Hv. þm. og fleiri flm. sem hér hafa talað virðast ekki hafa kynnt sér vel hvað felst í aðhaldssamri stefnu í áfengismálum og það er reginmisskilningur að klína því upp á deilur bindindismanna og þeirra sem vildu innleiða áfengi hérna fyrir 60--70 árum, það er sko virkilega að drepa umræðunni á dreif. Aðhaldssöm áfengisstefna samkvæmt skilgreiningum bæði íslenskra heilbrigðisyfirvalda, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og fleiri slíkra aðila felur í sér í fyrsta lagi að aðgengi að áfengi er eitthvað takmarkað í samfélaginu. Það er ekki alls staðar á boðstólum. Því er ekki haldið að fólki hvar sem er.

Hún felur í öðru lagi í sér víða að auglýsingar á áfengi eru bannaðar. Bannað er að vera með slíkar beinar aðgerðir til að hvetja til aukinnar neyslu. Það er hluti af aðhaldssamri áfengisstefnu og ætti að vera augljóst mál hverjum sem er.

Í þriðja lagi felur hún í sér ákveðna stýringu í gegnum verðlagið, verð er hátt, og reynt með því að hamla gegn því að þessarar vöru sé neytt í óhófi.

Í fjórða lagi eru nokkuð strangar reglur í gildi um meðferð vörunnar. Reynt er að framfylgja t.d. aldursmörkum og þarf leyfisveitingar til þeirra staða sem hafa með höndum sölu o.s.frv.

Þarna hef ég nefnt fjóra, fimm liði sem eru hluti af aðhaldssamri áfengisstefnu og þar af leiðandi er hægt að ræða þetta á þeim nótum.

Niðurstaðan er sú að áfengisneysla er hér og í öðrum löndum þar sem helst er um sambærilegt fyrirkomulag að ræða til mikilla muna minni en hún er annars staðar þar sem löggjöfin er frjálslyndari. Það hefur ekki alltaf verið svo. Á Íslandi voru á 19. öldinni sáralitlar takmarkanir á meðferð þessarar vöru og neyslan var ótrúlega mikil þrátt fyrir fátækt þjóðarinnar. Frá og með bannárunum hefur verið í gildi aðhaldssöm stefna sem og á hinum Norðurlöndunum mínus Danmörk og það er algerlega kristalklárt að þetta hefur haft mikil áhrif á neysluna. Hún er langmest í Danmörku af Norðurlöndunum og hún er minnst á Íslandi og næstminnst í Svíþjóð, hygg ég vera, og þar kemur hin aðhaldssama löggjöf og stefna stjórnvalda beint við sögu. Ég nefndi dæmin frá Bandaríkjunum þar sem hægt er að bera þetta saman milli fylkja, annars vegar þeirra sem hafa mjög stranga löggjöf og svo á mismunandi stigum yfir í að þetta er nánast algerlega frjálst og þar kemur fram mjög skýr mismunur í þessum efnum.

Að síðustu verð ég, herra forseti, að segja eins og er að hugsun þessara tillögumanna og þeirra sem boðað hafa sérstaklega breytingar í þessa átt á Íslandi núna síðustu missirin er tímaskekkja. Það er nefnilega einmitt hún sem er tímaskekkja. Af hverju er hún það, herra forseti? Vegna þess að víðast hvar í löndunum í kringum okkur er þróunin ef eitthvað er í hina áttina, nema þá á Norðurlöndunum þar sem menn hafa verið að reyna að verja þessa aðhaldssömu stefnu. Í Danmörku er umræðan í þá átt að eitthvað verði að gera gagnvart vaxandi barnadrykkju, drykkju í barnaskólunum í Danmörku. Í Frakklandi er verið að takmarka auglýsingar og setja strangari reglur um ýmislegt í þessum efnum. Í Bandaríkjunum eru fleiri og fleiri fylki að innleiða aðhaldssama pólitík og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er út um allan heim að hvetja ríki til þess að taka upp aðhaldssamari stefnu af því að hér sé á ferðinni eitt stærsta heilbrigðisvandamál heimsins næst á eftir faraldrinum nýja, sem mun skella á mannkyninu á næstu árum vegna aukinna reykinga og þá einkanlega aukinna reykinga kvenna.

Ég held því, herra forseti, að þarfara væri að ræða hluti sem gengju til gagnstæðrar áttar í þessum efnum.