Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 16:42:36 (4681)

2000-02-22 16:42:36# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[16:42]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Viðhorf hv. þm. eru löngu kunn. Hann hefur talað gegn áfengi í a.m.k. ein tíu ár. (Gripið fram í.) Í 16 ár, segir hann sjálfur. Það kemur því ekkert á óvart í þeim málflutningi sem hér kom fram. Kjarni hans er einfaldlega þessi: Það er einungis Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, þ.e. ríkisfyrirtæki sem getur selt áfengi svo vel fari. Það er nákvæmlega kjarni málsins og síðan er lagt út af þessu viðhorfi með þeim hætti sem raun ber vitni og við höfum hlýtt á, ekki bara hér í þessari umræðu heldur í umræðum á mörgum undangengnum árum. Viðhorfið er því alveg skýrt. Það er engum treystandi til að selja áfengi nema ríkisverslunum. Það liggur fyrir.

Í öðru lagi vil ég segja það, virðulegi forseti, af því hv. þm. talaði um það í máli sínu að við værum á flótta frá tillögu okkar. Það er vitaskuld langur vegur þar í frá og við stöndum vissulega við það markmið okkar að koma því til leiðar að hægt verði að heimila sölu á léttum vínum og bjór í matvöruverslunum.

Hins vegar var merkilegt í málflutningi hv. þm. þar sem hann loksins vitnaði um það eða staðfesti a.m.k. að væri rétt, að núverandi áfengisstefna á fyrst og fremst rót sína að rekja til bannáranna og ég vil segja það, virðulegi forseti, að ég tel það ekki vera til framdráttar og ég tel að sú áfengismenning sem hér er við lýði sé ekki til neinnar fyrirmyndar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að við reynum að endurskoða hana með þeim hætti að setja nefnd á laggirnar í því skyni en mæta ekki öllu með því að ef einhverju á að breyta, þá sé það af hinu vonda og sitja svo undir heimsendaspám og öðru slíku í hvert skipti sem nokkru á að breyta. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að við færumst ekkert áfram ef slík viðhorf ráða för.