Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 16:44:47 (4682)

2000-02-22 16:44:47# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[16:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er undir viðhorfi manna og gildismati komið hvað er áfram og hvað er aftur á bak í þessum efnum. Það er bara ósköp einfaldlega þannig. Ef hv. þm. telur að það sé áfram að gera breytingar sem að mínu mati leiða til aukinnar áfengisdrykkju, þá er það hans skoðun, það teldi ég vera afturför, það teldi ég vera að fara í öfuga átt í þessum efnum.

Ég hef ekki í málflutningi mínum talað gegn áfengi sem slíku í þeim skilningi að ég sé að leggja til bann á þessari vöru. Hún er hluti af neyslu í okkar heimshluta og reyndar víðast hvar á byggðu bóli og verður væntanlega ekki breytt í einni svipan.

Ég hef talað fyrir aðhaldssamri og því sem ég tel vera ábyrgri stefnu í þessum efnum. Það er rétt, já, ég tel að dreifingin eða sölufyrirkomulagið þurfi að vera hluti af þeirri stefnu. Ég held að menn missi þetta út úr höndunum á sér og að aðrar aðferðir og tilraunir til að hafa stjórn á þessum hlutum verði miklu erfiðari, ef ekki árangurslausar, ef menn missa þennan mikilvæga þátt þar sem hægt er að koma við aðhaldi og hægt er að tryggja framkvæmd þeirrar stefnu sem við lýði er á hverjum tíma. Ég tel að það sem hefur gerst í tóbakinu sé sönnun þessa. Kannanir sýna að tóbak er selt miskunnarlaust til unglinga undir aldri og það hefur sigið mjög á ógæfuhliðina í þeim efnum á nýjan leik eins og kunnugt er, t.d. með stórvaxandi reykingum unglingsstúlkna og ungra kvenna, þar eigum við því í vændum næsta faraldur í auknu krabbameini og öðrum slíkum afleiðingum.

Herra forseti. Ég hef í þessu sambandi langmestar áhyggjur af hættunni á vaxandi drykkju unglinga og þessu sem er því miður að gerast, og ég tel að það væri að fara úr öskunni í eldinn ef svona breytingar yrðu gerðar, og það er að meðaldrykkjualdurinn er að færast niður. Hann hefur á skömmum tíma færst niður um næstum tvö ár og við stefnum þar af leiðandi í öfuga átt og þyrftum að vera að ræða aðgerðir til þess að snúa vörn í sókn í þeim efnum en ekki hluti sem alls staðar þar sem þeir hafa verið framkvæmdir hafa haft í för með sér neikvæða þróun í þessu sambandi.