Bætt staða þolenda kynferðisafbrota

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 18:24:50 (4701)

2000-02-22 18:24:50# 125. lþ. 68.6 fundur 174. mál: #A bætt staða þolenda kynferðisafbrota# þál., MSv
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[18:24]

Margrét K. Sverrisdóttir:

Herra forseti. Ég vil í örfáum orðum lýsa stuðningi við þá þáltill. sem hér er fram komin um bætta stöðu þolenda kynferðisafbrota þar sem Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd sérfræðinga sem hafi það verkefni að kanna og gera tillögur um bætta stöðu þolenda kynferðisbrota, einkum barna og unglinga.

Samkvæmt greinargerðinni er ætlunin m.a. að sérfræðingar verði verði fengnir til að gera ítarlega úttekt á öllu réttarfari í kynferðisbrotamálum, einkum þeim er snerta börn og unglinga. Þetta tel ég afar mikilvægt. Einnig á að athuga hvaða úrbætur eru nauðsynlegar á allri málsmeðferðinni, en eins og við höfum orðið vör við þá virðist vera mikil brotalöm í því.

Ég tek undir nauðsyn þess að skoða aðgerðir sem varða stöðu brotaþola kynferðisofbeldis í réttar- og dómskerfinu almennt. Sömuleiðis verður að huga að refsiákvæðum og starfsháttum dómstóla og þá hvort skylt ætti að vera að kveðja til meðdómendur eins og kemur fram í þessari ágætu greinargerð.

Einn alvarlegasti glæpur sem hægt er að hugsa sér er kynferðisafbrot gegn börnum og ég tel nauðsynlegt að fylgja þessum málum eftir því að dæmin sanna að úrbóta er þörf. Ég vil kannski láta þess getið af því að Jóhanna Sigurðardóttir nefndi að í salnum væri kannski ekki fulltrúi úr allshn. að Frjálslyndi flokkurinn á fulltrúa í allshn. og ég mun gjarnan nefna það við þann fulltrúa allshn. að þetta sé brýnt málefni sem þurfi að taka á.

(Forseti (HBl): Ég vil minna á að það ber að segja hv. þm.)