Réttarstaða örorku- og ellilífeyrisþega

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 18:33:52 (4703)

2000-02-22 18:33:52# 125. lþ. 68.9 fundur 259. mál: #A réttarstaða örorku- og ellilífeyrisþega# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[18:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Í þessari till. til þál. er verið að leggja til löngu tímabærar breytingar og vinnu. Þetta er nokkuð sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum margrætt á þingi og lagt til ýmis frv. og önnur þingmál til að koma á breytingum í þessa veru. Eins og hv. þm. Margrét Sverrisdóttir sagði í ræðu sinni áðan er hér um að ræða mjög alvarlega ágalla á öryggisneti tryggingakerfisins. Hv. þm. Frjálslynda flokksins lögðu í fjárlagaumræðunni til fjárveitingar til þessara mála. Það gerðu sömuleiðis þingmenn Samfylkingarinnar og bentu þá á leiðir til að bæta úr þessu.

Hér er í fyrsta lagi nefnt að hækka þurfi tekjutryggingu hjá lífeyrisþegum. Það er sá kostur sem kemur flestum þeim verst settu til góða í kerfinu eins og það er byggt upp í dag. Í þingmálum sem þessum er ekki hægt að búast við veigamiklum breytingum á kerfinu heldur tillögum um hvernig hægt sé að koma sem flestum af þeim verst settu til góða.

Í öðru lagi er lagt til að fella niður tengingu við tekjur maka. Það hefur lengi verið mitt baráttumál og ýmissa annarra þingmanna í stjórnarandstöðunni. Það er í raun forneskjuleg regla sem því miður er enn þá inni í almannatryggingum okkar. Þrátt fyrir að sú tekjutrygging hafi verið minnkuð í árslok 1998 þá var hún lögfest. Mér fannst mjög til vansa fyrir ríkisstjórnina að lögfesta þessa tekjutengingu við tekjur maka á sama tíma og út eru að koma faglegar úttektir á vegum Félagsvísindastofnunar sem fordæma hana. Ég bendi t.d. á bókina um Íslensku leiðina þar sem því er lýst að þetta sé fornaldarhugsunarháttur frá fátækraaðstoðinni á 19. öld. Þetta er gert nú þegar við erum að ganga inn í 21. öldina.

Allmargir hv. þm. hafa lagt fram brtt. við þetta, þ.e. lagt til að ekki sé heimilt að tengja tekjutryggingu lífeyrisþega við tekjur makans. Mig langar til að benda á nokkur rök fyrir því að svo eigi ekki að gera. Það er ekki bara að þessi regla sé gamaldags og úrelt hugsun heldur tel ég hana vera brot á stjórnarskránni. Í 65. gr. stjórnarskrárinnar segir:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Lífeyrisþegum er með þessari skerðingarreglu mismunað eftir hjúskaparstöðu. Fólki á vinnualdri er líka mismunað eftir því hvort það á við atvinnuleysi eða heilsubrest að stríða. Þeir sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum eiga þann rétt óháð tekjum maka. Um leið og þeir missa heilsuna eru þeir hins vegar upp á maka sína komnir og eiga ekki sinn persónulega rétt. Mig langar til að benda á að í upphafi, þegar almannatryggingarnar voru settar á laggirnar 1935, kom fram í nefndaráliti með almannatryggingalögunum 1935 að gert væri ráð fyrir því að í þeim fælist hrein persónutrygging. Samkvæmt þessari skoðun flytjenda fyrsta almannatryggingalagafrv. þá er það andstætt hugsun laganna að færa tryggingaskylduna yfir á maka. Þar með er hið opinbera að firra sig skyldu, firra sig ábyrgð sé lífeyrisþeginn í hjónabandi eða sambúð. Þessi skerðingarregla brýtur einnig gegn 11. gr. stjórnsýslulaganna og sömuleiðis gegn mannréttindasáttmálum og alþjóðasáttmálum sem við höfum skuldbundið okkur til að virða.

Mig langar til að benda á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en þar segir:

,,Það ber að viðurkenna, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.``

Í 2. gr. sáttmálans segir:

,,Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.``

Í 16. gr. er sömuleiðis fjallað um jafnrétti til hjúskapar og stofnunar fjölskyldu og er þá sérstaklega kveðið á um hlutverk fjölskyldunnar og skyldur ríkisins gagnvart henni. Þar segir m.a.:

,,Fjölskyldan er í eðli sínu frumeining þjóðfélagsins, og ber þjóðfélagi og ríki að vernda hana.``

Síðan segir í 25. gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna:

,,1. Hver maður á kröfu til lífskjara, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Telst þar til matur, klæðnaður, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagshjálp, svo og réttindi til öryggis gegn atvinnuleysi, veikindum, örorku, fyrirvinnumissi, elli eða öðrum áföllum, sem skorti valda og hann getur ekki við gert.``

Fötluðum á þannig ekki að mismuna með lögum hvað varðar kynferðissambönd, hjónaband og barneignir. Þetta er skýrt. Þetta er nákvæmlega það sem okkur ber að virða. En ríkisstjórnin er að hunsa þessa alþjóðlegu sáttmála með því að lögfesta tengingu við tekjur maka í lok árs 1998. Þess vegna tek ég heils hugar undir það sem fram kemur í þessari þáltill., að þessa tekjutengingu beri að afnema og við munum auðvitað leggja fram frv. og berjast fyrir því fram í rauðan dauðann að þessari óréttlátu reglu verði hnekkt. Það er ekki bara að þeir sem eru lífeyrisþegar og eru í hjónabandi búi við að tekjur maka skerðist, heldur fá þeir einnig lægri bætur og þeir fá ekki heimilisuppbætur sem eru allt að 22 þús. kr. Þeir eru með lægri greiðslur en einhleypir lífeyrisþegar. Þannig er vegið að hjónaböndum lífeyrisþega á fleiri en ein hátt í lögunum eins og þau eru í dag.

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir að farið verði í þessa vinnu. Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum margoft lagt það til, frumvörp okkar liggja fyrir, og hvetjum til að eftir umræðuna í heilbr.- og trn. verði þetta mál samþykkt.