Sala Sementsverksmiðjunnar hf.

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 13:36:14 (4718)

2000-02-23 13:36:14# 125. lþ. 70.11 fundur 348. mál: #A sala Sementsverksmiðjunnar hf.# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[13:36]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil bara fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að það sé ekki á dagskrá að selja Sementsverksmiðjuna. Eins og hæstv. ráðherra nefndi hefur verið heimild til þess í nokkur ár að selja 25% hlutafjárins. Sú heimild hefur ekki verið nýtt og ég hef lýst því áður við umræður um þetta mál að ég telji ekki skynsamlegt að selja þessa verksmiðju vegna þess að ég tel að það muni leiða til hækkunar á sementsverði.

Það er einfalt mál að þeir sem eignast verksmiðjuna, verði hún seld, munu væntanlega vilja fá arð af því fé sem þeir leggja í fyrirtækið. Þær arðgreiðslur mundu verða til þess að verð á sementi mundi hækka. Verksmiðjan er afskaplega vel rekin. Hún hefur farið í gegnum mjög mikla rekstrarlega endurnýjun. Afkoman hefur verið bærileg og það góð að fyrir rúmu ári var verð á sementi lækkað um 7% og voru það nú nokkur tíðindi þó hljótt færu. Ég held að Sementsverksmiðjan sé ágætlega í stakk búin til að takast á við þá samkeppni sem er að skapast. Menn eiga ekkert að vera hræddir við samkeppni. Hún mun efla fyrirtækið til að gera enn betur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að fyrirtækið er í góðum gír í dag og ég fagna yfirlýsingu ráðherrans að það sé ekki á dagskrá að selja verksmiðjuna.