Þriggja fasa rafmagn

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 13:49:24 (4727)

2000-02-23 13:49:24# 125. lþ. 70.12 fundur 355. mál: #A þriggja fasa rafmagn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[13:49]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil fagna þessari fyrirspurn frá hv. þm. Helgu Erlingsdóttur. Hún var virkilega tímabær. Það að hún var í farvatninu hefur kannski ýtt á eftir því að hæstv. iðnrh. hefur nú samkvæmt beiðni hæstv. forsrh. fengið erindi um að skipa nefnd um þetta. Ég fagna því í sjálfu sér og það er náttúrlega vonum seinna að efnd sé samþykkt þál. frá 123. löggjafarþingi um það.

Því ber að fagna að þessi skref séu stigin því að þetta er virkilegt réttlætismál. Þetta er bara uppbyggingar- og þjónustumál. Þetta er það sem allir eiga rétt á að fá og það er mun nær að sjá tekið á málum með þessum hætti en að skera niður fjármagn til að byggja upp dreifikerfi raforku í sveitum eins og gert var við afgreiðslu fjárlaga.

Ég vona því að hæstv. ráðherra ýti hratt og vel þarna úr vör.