Olíuleit við Ísland

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:05:39 (4735)

2000-02-23 14:05:39# 125. lþ. 70.13 fundur 356. mál: #A olíuleit við Ísland# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:05]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með svör hæstv. iðnrh. og jafnframt þakka fyrirspyrjanda fyrir að halda þessu máli vakandi öll þessi ár. Mér heyrist einhver von til þess að rannsóknir og alvöru olíuleit geti hafist hér við landið. Það er nú vonum seinna því hjá flestöllum ríkjum hér í kringum okkur leggja menn ofurkapp á að finna slíkar auðlindir, til að leita af sér allan grun.

Við höfum sett í þetta eina til tvær milljónir á ári og það eru náttúrlega hlægilegar upphæðir þegar um er að ræða slíka framkvæmd, þ.e. olíuleit á hafsbotni. Enda mun ekki talað um milljónir heldur milljarða og hundruð milljarða í þeim málaflokki þegar við lítum til frænda okkar Norðmanna. Auðvitað erum við ekki að tala um neitt í þeim dúr en eitthvað betra en ekki neitt.