Olíuleit við Ísland

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:09:59 (4738)

2000-02-23 14:09:59# 125. lþ. 70.13 fundur 356. mál: #A olíuleit við Ísland# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:09]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu ákaflega áhugavert mál. Svo ber til að iðnn. var í heimsókn hjá Orkustofnun í gær og þá bar þessi mál á góma, möguleika til grunnrannsókna bæði á landi og á landgrunninu. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að veita fjármagn til þeirra forrannsókna sem þarf að vinna svo unnt sé að meta hvort ganga eigi til samstarfs við olíufyrirtæki um aðrar og viðameiri rannsóknir. Það er engan veginn ásættanlegt að hér sé veitt 1 millj. eða upp í 8 millj. kr. til svona verkefnis, það þarf að gera betur. Að sjálfsögðu mundu bara allra fyrstu rannsóknir lenda á okkar fólki hér heima. Þær rannsóknir eigum við að vinna en ekki að leggja mat á það að óskoðuðu hvort við höldum að olía sé hér við strendur Íslands. Ég tek undir með hv. þm. Árna Ragnari Árnasyni um að skoða þurfi landgrunnið allt.