Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:17:08 (4742)

2000-02-23 14:17:08# 125. lþ. 70.94 fundur 342#B Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Strax og fréttist af svartri skýrslu breska kjarnorkueftirlitsins á föstudaginn fór ég fram á þessa umræðu utan dagskrár um öryggismál í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield, enda ástæðan ærin. Rannsóknir kjarnorkueftirlitsins höfðu leitt í ljós að um kerfisbundna fölsun öryggisprófana hefur verið að ræða í stöðinni, rangar magntölur um úrgang fluttar frá henni og sömuleiðis um ófrágengnar birgðir. Þá mun innra eftirlit stöðvarinnar vera í molum og vanhæfir starfsmenn hafa orðið uppvísir að því að endurnota gamlar skýrslur þegar gera hefur þurft nýjar. Allar þessar upplýsingar er að finna í niðurstöðum þríþættrar skýrslu um öryggismál stöðvarinnar sem breska kjarnorkueftirlitið gerði opinbera sl. föstudag.

Herra forseti. Upplýsingar af þessu tagi valda vissulega miklu uppnámi í þeim löndum sem liggja næst Bretlandi og hafa ráðamenn á Írlandi og Norðurlöndunum ítrekað gert athugasemdir við rekstur endurvinnslustöðvarinnar í Sellafield. Nú síðast í gær voru umhverfisráðherrar Norðurlandanna með málið á dagskrá á fundi sínum og kemur fram í viðtali við hæstv. umhvrh. í Morgunblaðinu í morgun að full samstaða hafi verið meðal ráðamanna um að bregðast hart við þeim fréttum sem hér um ræðir. Og svo var send út ályktun, reyndar í kjölfar sendibréfa og símtala sem flestir ef ekki allir ráðherrarnir áttu við bresk yfirvöld strax á föstudaginn. En, herra forseti, er það ekki orðið alveg ljóst að sendibréf, símtöl og ályktanir hafa litlu breytt um losun geislavirkra efna í hafið frá kjarnorkuendurvinnslustöðvunum í Dounreay og Sellafield? Í 20 ár eða meira hafa ráðamenn lýst áhyggjum sínum vegna skaðvænlegra áhrifa sem þessar kjarnorkuendurvinnslustöðvar valda á lífríkinu og íslenskir ráðamenn hafa æ ofan í æ látið þessar áhyggjur sínar í ljósi við bresk yfirvöld einir sér eða í samráði við ráðamenn á hinum Norðurlöndunum.

Alþingi Íslendinga mótmælti því harðlega með þál. 1993 þegar kjarnorkuendurvinnslustöðin í Sellafield var stækkuð og hafin var starfræksla THORP-endurvinnslustöðvarinnar þar en við þá stækkun var losun geislavirkra efna í hafið tífölduð frá því sem verið hafði fram að þeim tíma. Ég fullyrði, herra forseti, að þessar aðferðir hafa engan veginn skilað fullnægjandi árangri í baráttunni gegn losun geislavirkra efna í hafið. Það skiptir engu máli hvað bresk yfirvöld gefa oft út yfirlýsingar um að nú skuli tekið til hendinni sem aldrei fyrr.

Tveir ráðherrar í bresku ríkisstjórninni, þeir John Prescott og Nick Brown sendu síðast frá sér yfirlýsingu 19. nóvember sl. þar sem þeir lofuðu takmörkun á losun og miklu hreinsunarstarfi. Þeir lofuðu bættu öryggiseftirliti og því að brugðist yrði við þeirri uppsöfnun birgða á geislavirkum úrgangi sem ekki hefur tekist að steypa saman við gler eða steinsteypu. Sannleikurinn er nefnilega sá, herra forseti, að kjarnorkuendurvinnslustöðin í Sellafield hefur ekki undan og nú fyrir skemmstu neituðu Japanir að taka við sendingu frá Sellafield á grundvelli falsaðra pappíra og krefjast þess að hún verði send aftur yfir hafið heim til Sellafield á kostnað þarlendra.

Það væri hægt að halda áfram lengi að útlista það í hve miklum ólestri öll innri mál stöðvarinnar virðast vera í. En ég læt hér staðar numið með því að benda á fullyrðingar hæstv. umhvrh. í umræðum hér á þingi í haust þar sem hún svaraði fyrirspurn frá mér um aðgerðir íslenskra stjórnvalda í málefnum Sellafield og Dounreay og sagði um áhrif mótmæla íslenskra stjórnvalda, með leyfi forseta, að þau hefðu m.a. leitt til þess að miklar framfarir hafi átt sér stað í rekstri endurvinnslustöðvarinnar í Sellafield og mjög dregið úr losun á sesíum. Reyndar kom síðar fram í máli hæstv. ráðherra að ekki hefði að sama skapi tekist að draga úr losun á teknesíum-99. En þingheimi til fróðleiks má geta þess að niðurbrot teknesíum-99 er svo hægt í náttúrunni að það tekur 213 þúsund ár fyrir náttúruna að helminga það efni, sem þýðir að það tekur 426 þúsund ár fyrir náttúruna að brjóta efnið endanlega niður.

Herra forseti. Er ekki hér um svo alvarleg áhrif að ræða að nauðsynlegt sé að gripið verði til afdrifaríkari aðgerða? Ég spyr hvort hæstv. umhvrh. hafi aldrei hugleitt það að kannski sé kominn tími til að sendiherra Íslands í Lundúnum verði hreinlega kallaður heim. Ég vil í a.m.k. hvetja hæstv. umhvrh. til að setja fram með formlegum hætti afdráttarlausa kröfu um að kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield verði lokað tafarlaust. Ég gæti vel hugsað mér að það tæki þrjú til fimm ár ef ákvörðun yrði tekin núna.

Í ljósi þessa sem ég nú hef sagt langar mig að leggja til við hæstv. ráðherra og fá frá henni viðbrögð hér og nú að hún beiti sér fyrir því að á næsta fundi aðildarríkja OSPAR-samningsins sem haldinn verður í Kaupmannahöfn í júní nk. verði sett fram sameiginleg stefna a.m.k. Norðurlandanna og Írlands um það að stöðinni verði lokað innan þriggja til fimm ára. Og þá langar mig að fara þess á leit við hæstv. ráðherra að hún sæki þennan fund sjálf og hvetji samráðherra sína á hinum Norðurlöndunum (Forseti hringir.) og raunar allra OSPAR-ríkjanna til að mæta á fundinn til að auka vægi hans í þessum málum því að vopnin í baráttunni sem við höfum notað hafa ekki dugað.