Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:22:41 (4743)

2000-02-23 14:22:41# 125. lþ. 70.94 fundur 342#B Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield# (umræður utan dagskrár), umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Íslensk stjórnvöld hafa um árabil fylgst með og haft áhyggjur af kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield og því reynt eftir fyllsta megni að fylgjast með starfseminni þar. Skýrslan sem breska kjarnorkustofnunin birti í síðustu viku kom öllum á óvart, ekki síst breskum stjórnvöldum því alltaf hefur verið litið svo á sem ástand öryggismála í verksmiðjunni væri ásættanlegt.

Í skýrslunni koma fram alvarlegir gallar varðandi öryggiseftirlit í verksmiðjunni. Niðurstöður skýrslunnar setja að mínu mati spurningarmerki við endurvinnslu kjarnorkueldsneytis og herða á kröfunni um gagngerar umbætur strax eða að öðrum kosti lokun stöðvarinnar.

Um leið og fréttir bárust af skýrslu þessari sl. föstudag skrifaði ég bréf til Johns Prescott, breska umhverfisráðherrans. Í bréfinu krefst ég upplýsinga frá breskum stjórnvöldum um viðbrögð við skýrslunni. Ég legg mikla áherslu á þá hagsmuni sem Íslendingar eiga að gæta og því líti stjórnvöld hér á landi á innihald hennar alvarlegum augum. Skýrslan veki margar spurningar um öryggi þeirrar starfsemi sem þar fer fram og að mengunarslys í verksmiðjunni mundi hafa alvarlegar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir líf fólks hér á norðurslóðum. Í bréfinu krefst ég skýringa bresku ríkisstjórnarinnar og ítreka fyrri kröfur Íslands um að tryggt verði að losun geislavirkra efna verði eins nálægt engu og hægt er, þ.e. eins og sagði í bréfinu ,,as close to zero as possible``, ella hugleiði bresk stjórnvöld alvarlega að loka verksmiðjunni.

Hæstv. utanrrh. mun síðar í þessari viku eiga tvíhliða viðræður við Robin Cook utanríkisráðherra Bretlands og mun hann fylgja eftir bréfi mínu og ítreka kröfur okkar og mun hann koma á framfæri þeirri skoðun íslenskra stjórnvalda að helst vildum við að stöðinni yrði lokað og að við lítum á að hér sé um mjög alvarlegt mál sé að ræða.

Eins kom fram í máli hæstv. utanrrh. fyrr í vikunni hafði þegar verið ákveðið að taka málefni Sellafield upp áður en þau válegu tíðindi bárust sem nú eru í brennidepli. Í ljósi síðustu frétta af stöðu mála er ljóst að málið verður tekið upp af enn meiri þunga.

Ísland hefur lengi haldið uppi mótmælum gegn losun geislavirkra úrgangsefna í hafið. Þau mótmæli hafa m.a. leitt til þess að framfarir hafa átt sér stað í rekstri endurvinnslustöðvarinnar í Sellafield. Dregið hefur til muna úr mengun af völdum sesíum en ástæða er til að hafa áhyggjur og mótmæla auknu magni af teknesíum-99 sem hefur núna á þriggja ára tímabili verið losað út í hafið alla vega, en það hefur nú þegar borist að ströndum Noregs og er spáð að það gæti komið inn á hafsvæði Íslands á næstu tveimur árum.

Á norrænum vettvangi höfum við tekið sterkt frumkvæði í umræðunni um Sellafield-stöðina. Á fyrsta fundi mínum sem umhvrh. með norrænu umhverfisráðherrunum á Mývatni liðið sumar tók ég Sellafield-málið til umræðu. Í framhaldi af þeim fundi lagði ég fram tillögu að sameiginlegu bréfi norrænu ráðherranna til breska umhverfisráðherrans og var það sent út í nóvember sl. Í bréfi norrænu ráðherranna er sjónum einkum beint að þeirri hættu sem stafar af mengun af teknesíum-99 og Bretar hvattir til að uppfylla skuldbindingar þær sem þeir hafa tekið á sig með OSPAR-samningnum um að minnka í áföngum losun geislavirkra efna í hafið og stöðva losun árið 2020. Við höfum reyndar ítrekað að þeir geri það mun fyrr.

Á fundi norrænu umhverfisráðherranna í Kaupmannahöfn í gær tók ég málið enn á dagskrá. Norrænu umhverfisráðherrarnir líta einnig á þetta mál mjög alvarlegum augum og var algjör samstaða um að senda yfirlýsingu til breskra stjórnvalda. Í yfirlýsingunni er minnt á fyrri erindi um málið og enn undirstrikuð sú ógn sem hafsvæðunum á Norðaustur-Atlantshafi stafar af mengun í Sellafield.

Næsti fundur OSPAR-nefndarinnar verður í Kaupmannahöfn í júní í sumar en þar munu norrænu umhverfisráðherrarnir á fundinum ítreka að bæði Bretar og Frakkar standi við þær skuldbindingar sem þeir tóku á sig á ráðherrafundinum 1998 þess efnis að á árinu 2000 verði unnið að því að minnka til muna losun geislavirkra efna í hafið og að á árinu 2020 verði losun geislavirkra efna hætt.

Í starfi mínu hef ég lagt mikla áherslu á varnir gegn geislamengun og hef m.a. þegar rætt það mál sérstaklega við Margot Wallström sem fer með umhverfismál í framkvæmdastjórn ESB.