Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:32:28 (4747)

2000-02-23 14:32:28# 125. lþ. 70.94 fundur 342#B Öryggismál kjarnorkustöðvarinnar í Sellafield# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að sönnu ánægjulegt að þegar kemur að því að mótmæla breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum þá geta allir Íslendingar sameinast í umhverfismálum enda snýr þá að öðrum en okkur sjálfum að taka til.

Í málefnum kjarnorkuiðnaðarins hafa Bretar sýnt á sér heldur dapurlega hlið býsna lengi. Þeir hafa lítið gert með mótmæli grannþjóða og þeir hafa þumbast við með býsna svipuðum hætti og þeir gerðu þegar í hlut átti iðnaðarmengunin frá Bretlandseyjum sem mestu olli um súra regnið í Skandinavíu. Þrátt fyrir mótmælin og þrátt fyrir tilraunir til að koma á alþjóðlegum samningum sem tækju til þessarar starfsemi hafa Bretar rekið áfram bæði stöðina í Dounreay og stöðina í Sellafield og reyndar stækkað þá síðarnefndu og hafið þar endurvinnslu á kjarnorkueldsneyti. Báðar þessar stöðvar hafa affall til sjávar og í báðum tilvikum bitnar mengunin fyrst og fremst á öðrum þjóðum en Bretum sjálfum. Þetta segir sína sögu um þau viðhorf sem þarna hafa legið til grundvallar.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram bæði hjá málshefjanda og fleirum að það er tímabært og þó fyrr hefði verið að við Íslendingar tökum afdráttarlaust upp þá stefnu að ekkert annað sé ásættanlegt fyrir okkur en lokun þessarar stöðvar. Og, eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich kom inn á, formaður utanrmn., þá eigum við auðvitað að herða róðurinn fyrir því að grundvallarreglan verði bann, bann við afrennsli frá kjarnorkustöðvum til hafsins. Þeir sem vilja vera í þessum bisness geta séð um hann sjálfir og urðað sinn úrgang sjálfir. Það er eina lausnin í þessum málum sem nokkurn tíma getur orðið einhver sátt um. Ég held að það hljóti að vera þannig, herra forseti.

Ég er ekki að gera lítið úr þeim mótmælum sem uppi hafa verið höfð á undanförnum árum en ég held að tími sé kominn til --- og við höfum fengið tilefni til þess og vopn í hendur --- að ganga núna harðar fram en áður.