Fjarvinnslustörf í Ólafsfirði

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:48:03 (4754)

2000-02-23 14:48:03# 125. lþ. 70.1 fundur 245. mál: #A fjarvinnslustörf í Ólafsfirði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Eins og kunnugt er af fréttum hefur atvinnuástand í Ólafsfirði verið afar ótraust. Í vor greip um sig mikill geigur meðal íbúanna þegar ljóst var að eitt stærsta fyrirtækið á staðnum mundi líklega hætta starfsemi og það varð því miður niðurstaðan.

Í sjónvarpsþætti hinn 19. október sl. þar sem rætt var um nýútkomna skýrslu Iðntæknistofnunar um möguleika á fjarvinnsluverkefnum varð það Ólafsfirðingum þó nokkur huggun að hæstv. forsrh. sagði Hagstofuna hafa það til skoðunar að flytja hluta af starfsemi sinni til Ólafsfjarðar. Orðrétt sagði hæstv. forsrh.: ,,Hagstofan er að vinna núna að skoðun á því að ákveðinn hluti af hennar starfsemi fari fram á Ólafsfirði.`` Jafnframt gat hann um áhugasaman hagstofustjóra sem hefði verið að vinna að þessu og taldi að með sama hætti gætu menn farið að skoða fleiri hluti. Sannarlega tek ég undir það, herra forseti.

Ólafsfirðingum var það líka mikilvægt að fá þannig von um atvinnu fyrir vinnufúsar hendur og framtíðarsýn sem stendur til breikkunar á atvinnugrundvelli þeirra og stærri hlutdeildar í þjónustugeiranum því öllum er ljóst að fiskvinnsla mun ekki bæta við sig mannskap á næstu árum heldur mun tæknin þvert á móti fækka fólki. Já, sannarlega voru vaktar miklar vonir. Íslensk miðlun kom sér upp fyrirhugaðri starfsstöð í Ólafsfirði og allt var gert klárt. En svo leið og beið og í byrjun desember sl. hafði enn ekkert gerst sem handfast var.

Þá lagði ég fram þá fyrirspurn sem hér er nú loks á dagskrá þar sem ég spyr hæstv. forsrh. hvað líði undirbúningi fjarvinnslustarfa á vegum Hagstofu Íslands í Ólafsfirði. Enda nærtækt að spyrja hann þar sem hann vakti svo miklar væntingar með ummælum sínum í nefndum sjónvarpsþætti.

En þó að rúmur tveir og hálfur mánuður sé nú liðinn er málið enn á sama stað gagnvart Ólafsfirðingum. Engin eru störfin né heldur svörin. Í dag eru þar á milli 60 og 70 manns á atvinnuleysisskrá. Ég ítreka því spurningu mína til hæstv. forsrh. sem ég hef lagt fram á þskj. 300:

Hvað líður undirbúningi fjarvinnslustarfa sem talað var um á vegum Hagstofunnar í Ólafsfirði?