Fjarvinnslustörf í Ólafsfirði

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:55:52 (4758)

2000-02-23 14:55:52# 125. lþ. 70.1 fundur 245. mál: #A fjarvinnslustörf í Ólafsfirði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég hafði vænst þess að fá svör sem væru ögn nákvæmari. Nú er ég ekki að vanmeta það sem gert hefur verið og ég vænti þess að sú vinna sem þegar hefur farið fram og hæstv. forsrh. lýsti fyrir okkur áðan sé að hluta til vinna sem getur þá nýst öllum öðrum sem væntanlega eru að huga að sambærilegum flutningi verkefna. En vegna þess hversu fast var kveðið að orði nú þegar á haustdögum, þá hafði ég og vissulega fleiri vænst þess að málið væri komið lengra.

Auðvitað þarf að vanda til vinnunnar en það er svo merkilegt, herra forseti, að þegar kemur að opinberu aðilunum, þá virðast málin vera mun þyngri heldur en þegar einkaaðilar eru að fela fjarvinnslustöðvum út um landið verkefni. Af því hef ég verulegar áhyggjur vegna þess að okkur finnst það oft vera þannig að það sé nánast einstefnuloki í gangi þegar um er að ræða tilflutning verkefna. Þau renna til Reykjavíkur en erfiðara er að ná þeim aftur til baka.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða er til að ítreka frekar á þessari stundu þau efnisatriði sem hér voru sett fram en ég vil þó freista þess að biðja hæstv. forsrh. um að vera ögn nákvæmari hvað varðar tímasetningar, hvort hann geti gefið því fólki sem bíður í óvissu örlítið nákvæmari upplýsingar um það hvenær megi vænta þess að störfum fjölgi og atvinnuleysið minnki.