Fjarvinnslustörf í Ólafsfirði

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:57:49 (4759)

2000-02-23 14:57:49# 125. lþ. 70.1 fundur 245. mál: #A fjarvinnslustörf í Ólafsfirði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er vandsvarað ef menn skilja orð manns á tiltekinn hátt, til að mynda þau orð sem fyrirspyrjandi vitnaði í í upphafi að ég hefði sagt, að til athugunar væri að flytja eitthvað af starfsemi Hagstofunnar til Ólafsfjarðar og hv. fyrirspyrjandi segir að ég hafi kveðið fast að orði. Mér finnst sjálfum að þetta sé ekki mjög fast að orði kveðið. Ég hefði þá orðið að segja að til greina kæmi að kanna, skoða og athuga ef ég ætlaði að verða veikari en þetta. Þetta var afskaplega varfærið orðalag af minni hálfu, að til athugunar væri, ég sagði aldrei meira.

Þess vegna vil ég líka gæta mín að nefna ekki einhverjar tímasetningar sem ég gæti hugsanlega ekki staðið við. En það má hins vegar vera að ég hafi ekki talað nógu skýrt áðan um að hin pólitíska afstaða og viljinn til þess að færa slík verkefni liggur þegar fyrir. Það hefur gerst að framsækin fyrirtæki sem hafa farið með starfsemi út á land eða viljað fara með starfsemi sína út á land hafa síðan lent í því að verkefni skortir. Þau eru komin með þjónustuna en verkefni fyrir þau skortir. Ég vil ekki að við byrjum þannig á Ólafsfirði. Ég vil að verkefni séu orðin tæmandi og það sé grundvöllur fyrir langvarandi starfsemi sem gæti undið upp á sig. Þannig vil ég að við vinnum að málinu.