Notkun íslenska skjaldarmerkisins

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:59:24 (4760)

2000-02-23 14:59:24# 125. lþ. 70.2 fundur 314. mál: #A notkun íslenska skjaldarmerkisins# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 564 hef ég lagt svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. forsrh. um notkun íslenska skjaldarmerkisins:

[15:00]

,,Hefur einstaklingum eða fyrirtækjum verið veitt heimild til notkunar skjaldarmerkis Íslands? Ef svo er, hver veitti leyfið, hvenær og á hvaða forsendum?``

Þess ber að geta að nefnd sem skipuð var á vegum forsrn. til að endurskoða lög um þjóðfána var jafnframt af hálfu hæstv. forsrh. falið að skoða lög um íslenska skjaldarmerkið. Þar segir svo, með leyfi forseta, í 1. gr.:

,,Skjaldarmerki Íslands er silfurlitur kross á heiðbláum feldi með eldrauðum krossi innan í silfurlita krossinum. Armar krossanna skulu ná alveg út í rendur skjaldarins á alla fjóra vegu.``

Og síðan er talið upp:

,,Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir sem getur í Heimskringlu: Griðungur, hægra megin skjaldarins, bergrisi, vinstra megin, gammur, hægra megin, ofan við griðunginn, og dreki, vinstra megin, ofan við bergrisann.

Skjöldurinn hvílir á stuðlabergshellu.``

Og í lögunum kemur fram að einungis handhöfum ríkisvalds sé heimilt að nota skjaldarmerkið.

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn er komin til út af því að íslenskt fyrirtæki, Thorspring, hefur notað íslenska skjaldarmerkið um nokkurra ára tímabil. Í þessum lögum er allur vafi af tekinn og það var rétt hjá hæstv. forsrh. þegar hann bætti þessum störfum við fánanefndina að eðlilegt væri að skjaldarmerkið væri tekið til athugunar líka vegna þess að nokkuð bar á því að merkinu væri lítil virðing sýnd eða rætt væri um það nánast í einhverjum hjáverkum.

Það var þetta, virðulegi forseti, sem gaf mér tilefni til að varpa fram þessari fyrirspurn: Hvernig má á því standa að íslenskt fyrirtæki notar íslenska ríkisskjaldarmerkið á framleiðsluvöru sína?