Ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:25:10 (4773)

2000-02-23 15:25:10# 125. lþ. 70.4 fundur 341. mál: #A ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru að sönnu góðar fréttir að ekkert skuli felast í samningum við Bandaríkjamenn sem hindrar að það megi drekka hreint vatn í flugstöðinni í Keflavík og að það þurfi ekki um aldur og ævi að vera klórblandað. En ég held að þetta dragi nú athyglina að því í raun og veru að mörgu leyti afbrigðilega og óeðlilega ástandi sem ríkir um þetta mannvirki. Nú eru Íslendingar að ráðast í stækkun þess á sinn kostnað og ég leyfi mér að halda því fram að sambúðin við Bandaríkjamenn um þetta mannvirki hafi reynst okkur dýr og verði svo áfram þangað til þau samskipti komast á hreint.

Ég held því að það ætti að nota tækifærið ef farið verður í viðræður við Bandaríkjamenn um hluti eins og vatnsveituna þarna upp eftir og láta á það reyna hvort ekki sé hægt að losa þá út úr þessum samskiptum þannig að síðan megi færa forræði fyrir þessu samgöngumannvirki undir samgrn. eins og önnur samgöngumannvirki og færa þetta þar með inn í samgöngugeirann og taka upp eðlilega stjórnsýslu á þessum stað. Því að þarna ríkir óeðlilegt ástand í raun og það er ekki til framdráttar samgöngu- og ferðamálum okkar að hafa þá tvískiptingu sem þarna hefur viðgengist.

Það væri því fróðlegt að heyra hvort hæstv. utanrrh. er þeirrar skoðunar að á þessu mætti taka.