Ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:26:33 (4774)

2000-02-23 15:26:33# 125. lþ. 70.4 fundur 341. mál: #A ferskt vatn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég fagna því sem kom fram í máli hæstv. utanrrh. að til skoðunar er að starfsmenn á varnarsvæðunum fái hreint vatn. Þá meina ég ekki klórblandað sem er í sjálfu sér mjög óeðlilegt þegar eitt besta og heilnæmasta vatn sem hægt er að fá sem rennur eftir leiðslunni. Það er rétt sem hæstv. utanrrh. sagði að hún var greidd að hluta til af varnarliðinu. Vatnið er tekið við Svartsengi og því er dælt bæði til Reykjanesbæjar og upp á völl. Í dælustöðinni sjálfri eru svo klórblöndunartæki sem blanda eitthvert hlutfall af klór og vatni. Í sjálfu sér er því algjör óþarfi að leggja nýjar leiðslur, hélt ég. Það væri nægjanlegt að taka þetta klórblöndunartæki úr sambandi og þar með er komið ferskt vatn um allan völl.

Hvort það er ekki hægt út af einhverjum öðrum ástæðum þekki ég ekki en í sjálfu sér ætti þetta mál að vera mjög einfalt ef vilji er fyrir hendi af hálfu yfirmanna varnarliðsins.