Aðgerðir NATO í Júgóslavíu 1999

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:41:10 (4779)

2000-02-23 15:41:10# 125. lþ. 70.5 fundur 342. mál: #A aðgerðir NATO í Júgóslavíu 1999# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin og tek á mig sök í því að hafa lagt fram margar fyrirspurnir þannig að utanrrh. hæstv. er vissulega vorkunn að ná ekki að svara þeim öllum.

Ég held að ef við færum út í upprifjun á því hvers vegna farið var út í þessar loftárásir þá var það sannarlega svo að menn ætluðu að stöðva þann ógeðfellda hildarleik sem í gangi var í Kosovo og stöðva þær þjóðernishreinsanir sem þar voru sagðar í gangi. Á daginn hefur hins vegar komið að þær hófust fyrst fyrir alvöru eftir að loftárásirnar hófust og í skjóli þeirra. Og NATO skipti reyndar um markmið í miðjum loftárásunum. Síðari hluta árásartímans var það markmiðið að gera flóttamönnunum kleift að snúa heim.

Einnig er komið á daginn að þær upplýsingar sem byggt var á og haldið var að fjölmiðlum í aðdraganda þess að loftárásirnar hófust hafa reynst stórlega rangar. Þannig hélt t.d. bandaríski varnarmálaráðherrann því fram að talið væri að allt að eitt hundrað þúsund manns hefðu verið myrtir í ofsóknum Serba í Kosovo nokkrum dögum áður en loftárásirnar hófust. Nú hefur sem betur fer komið í ljós að þarna var um gríðarlegt ofmat að ræða. Sem betur fer er þessi tala kannski nær því að vera 3--4 þúsund. Og það kemur á daginn að ekki er allur munur á hversu margir Serbar og hversu margir Albanar eða Kosovo-Albanar höfðu fallið í átökum frelsishers Kosovo svokallaðs og serbneska hersins í héraðinu vikurnar og mánuðina á undan.

Ég veit ekki hvort stríðsglæpadómstóllinn, jafngóður og hann er og jafngleðilegt og það er að fastadómstóll skuli vera kominn til sögunnar, er endilega rétti aðilinn til að framkvæma rannsóknina sjálfa. Það er ljóst að til dómstólsins geta komið mál ef þau verða þangað send. En það sem samtökin eru að fara fram á er að óháðir aðilar dragi saman upplýsingar og framkvæmi rannsóknina.

Menn telja, herra forseti, að það sé sálfræðilegur hernaður að vera með loftárásir á skotmörk sem fyrst og fremst virðast þjóna þeim tilgangi að valda truflunum á daglegu lífi almennings, óbreyttra borgara, og gera þeim erfiðara um vik og þreyta þá þar af leiðandi þannig en ekki að lama hernaðargetu andstæðingsins.