Fjármögnunarkerfi sjúkrahúsa

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:58:21 (4786)

2000-02-23 15:58:21# 125. lþ. 70.6 fundur 269. mál: #A fjármögnunarkerfi sjúkrahúsa# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þetta er umræða sem er og verður alltaf í gangi því það er alveg sama hvaða kerfi við setjum á, við þurfum sífellt að hafa það í endurskoðun. Við sjáum dæmi frá Norðurlöndunum, dæmi frá Bandaríkjunum og dæmi frá Bretlandi um mismunandi kerfi og þeir eru sífellt með sín kerfi í endurskoðun. Og það er ekkert sjálfgefið að það verði miklu meiri lukka innan sjúkrahússkerfisins þó að þessi breyting eigi sér stað.

Ég vil minna á að strax 1995 benti ég á mikilvægi þess að breyta því kerfi sem við höfum í dag. En þá vantaði þetta kostnaðarmat sem ég minntist á áðan. Það er alveg nauðsynlegt að vita hvað hlutirnir kosta til þess að koma breyttu kerfi á. Það hefur hins vegar tekið töluverðan tíma en er núna komið mjög vel áleiðis og sú vinna sem er unnin t.d. í dag á stóru sjúkrahúsunum er náttúrlega grundvöllurinn fyrir því að við getum breytt þessu kerfi.

Ég á von á því að árið 2001 getum við notað nýtt kerfi við fjárlagagerðina og það er auðvitað mjög spennandi verkefni sem bíður okkar þar. En ég segi að við hefðum ekki getað gert þetta nema af því að við erum komin svona langt varðandi sameiningu spítalanna og það hefur einmitt opnað þessa leið fyrir okkur til að ljúka þessu verki.