Rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 16:02:54 (4788)

2000-02-23 16:02:54# 125. lþ. 70.7 fundur 345. mál: #A rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðuleg forseti. Hv. þm. Þuríður Backman spyr hvers vegna tilboði Securitas/Verkafls um að reisa og reka nýtt hjúkrunarheimili við Sóltún var tekið í ljósi staðhæfinga um að aðrir hagkvæmari kostir kunni að hafa verið í boði.

Tvö tilboð bárust í útboð heilbr.- og trmrn. í byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Reykjavík. Báðum tilboðum var hafnað þar sem þau voru hærri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Í framhaldi af því var gengið til samninga við Securitas hf. og Verkafl hf. á grundvelli þess að tilboð þeirra í áðurnefndu útboði hlaut hærri einkunn hvað varðar húsnæði, þjónustu og verð.

Hið nýja hjúkrunarheimili mun rísa við Sóltún í Reykjavík og þar verða 90 hjúkrunarrými. Hjúkrunarheimilið við Sóltún mun verða frábrugðið þeim heimilum sem eru í rekstri í dag hvað varðar umönnunarþyngd og inntöku vistmanna. Heimilinu verður ætlað að bjóða upp á þjónustu fyrir þann hóp aldraðra sem þarfnast mestrar umönnunar án þess þó að þeir þarfnist sjúkrahússvistar. Við hönnun heimilisins er litið til framtíðar hvað varðar uppbyggingu á heilbrigðisþjónustu fyrir þá einstaklinga sem mesta þörf hafa á umönnun. Jafnframt er um hagkvæma lausn að ræða fyrir ríkisvaldið. Kröfur um inntöku eru meiri en á öðrum hjúkrunarheimilum. Gert er ráð fyrir að þeir einstaklingar sem verða á hjúkrunarheimilinu þurfi á meiri umönnun að halda en á öðrum hjúkrunarheimilum. Því eru kröfur um starfsmannafjölda meiri í Sóltúni en á öðrum heimilum.

Mikill metnaður er sýndur frá hendi bjóðenda í húsnæði og þjónustu á nýju hjúkrunarheimili. Fyrirtækið hefur hópi ráðgjafa á að skipa með mikla reynslu í starfsemi hjúkrunarheimila. Áhersla er lögð á að heimilið takið við þeim sem hafa mesta þörf fyrir umönnun. Því verður heimilið byggt sérstaklega til að taka við öldruðu fólki af sjúkrahúsunum en þörfin fyrir þann hóp er orðin mjög brýn.

Virðulegi forseti. Staðhæfingar um að aðrir hagkvæmari kostir kunni að hafa verið í boði eiga ekki við. Í nýja hjúkrunarheimilinu sem rísa mun við Sóltún í Reykjavík verða einstaklingar með meiri umönnunarþörf. Því eru meiri kröfur gerðar til húsnæðis og þjónustu en á öðrum hjúkrunarheimilum. Mestu skiptir að virkt eftirlit verður haft með þeirri þjónustu sem veitt er til að tryggja að vistmenn fái ávallt bestu þjónustu sem unnt er að veita.

Virðulegi forseti. Hér er ég ekki að segja að ýmsir aðrir hefðu ekki getað tekið þessa þjónustu að sér en það voru aðeins tveir sem buðu í hana. (Gripið fram í: Hverjir?) Það voru aðeins tveir sem buðu í þessa þjónustu og það hefur legið fyrir lengi. Við höfnuðum báðum tilboðunum vegna þess að við töldum þau ekki hagkvæm en skoðuðum síðan lægra tilboðið og gengum til samninga við þá sem það áttu. Til að skýra út nákvæmlega hvað við erum að tala um, af því að við vorum að tala um þennan RAI-stuðul áðan, þá verður sá stuðull á þessu heimili á bilinu 1,05--1,20 sem er auðvitað sá hæsti. Ég vil hins vegar taka það fram sérstaklega að við erum auðvitað að fara út í töluverða nýjung með þessu útboði en ég held að hún sé holl fyrir okkur. Við erum ekki að segja að einhverjir aðrir hefðu ekki getað tekið þetta að sér. En við buðum þetta út og erum búin að ganga frá þessu máli. Ég held að það hljóti að vera tilhlökkunarefni fyrir menn að sjá þetta heimili rísa og fá hér 90 ný hjúkrunarrúm fyrir þá einstaklinga sem sannarlega hafa þörf fyrir þau.