Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 10:40:45 (4800)

2000-02-24 10:40:45# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[10:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu, þar sem leitað er breytinga á lögum um starfsemi lífeyrissjóða og felur í sér að víkka verulega fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna, þarf nokkurrar skoðunar við, ekki síst í ljósi núverandi efnahagsástands og einnig með tilliti til mats á hvað slík áhættufjárfesting og rýmkun felur í sér þegar litið er til mikilla skuldbindinga sjóðanna í lífeyrisgreiðslum og bótagreiðslum til sjóðfélaga. Ég held að í tengslum við þetta mál sé því nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um stöðu lífeyrissjóðanna og hvort rétt og skynsamlegt sé að veita þá rýmkun sem hér er leitað eftir.

Lífeyrissjóðirnir eru orðnir gífurlegir að vöxtum og hafa um langan tíma verið mesta uppsöfnun sparnaðar í landinu, enda er lífeyrir úr lífeyrissjóðunum orðinn sívaxandi hluti af kjörum aldraðra. Í raun má segja að lífeyrissjóðirnir séu orðnir hreint fjárhagslegt stórveldi, ríki í ríkinu.

Nú má alveg velta því fyrir sér hvort ekki sé bara eðlilegt fyrir fjármagnsmarkaðinn að hafa þennan risa á markaðnum til mótvægis við hinar ægistóru viðskiptablokkir eins og kolkrabbann sem sífellt er að sölsa undir sig meira af völdum og eignum í þjóðfélaginu sem leitt hefur til allt of mikillar fákeppni og samþjöppunar valds. En allt hlýtur það þó að vera undir háttsemi lífeyrissjóðanna komið hvort þeir tryggja annars vegar félögum sínum mannsæmandi lífeyri og hins vegar hvernig þeir haga ávöxtun á þessu fjármagni fólksins og hver hegðun þeirra er á fjármála- og hlutabréfamarkaðnum og hvort hún stuðli að heilbrigðri samkeppni á markaðnum.

Það er auðvitað afar mikilvægt að hegðun þessa fjárhagsrisa á markaðnum sé með þeim hætti að hún stuðli að eðlilegri samkeppni en í því felast líka hagsmunir sjóðfélaganna þegar á allt er litið. Ekki síður er mikilvægt að vinnubrögð innan sjóðanna séu lýðræðisleg og að launþegar og fólkið sem sjóðina á getur með opnum og aðgengilegum hætti haft áhrif á allar ákvarðanir sjóðanna eins og t.d. um fjárfestingarstefnu þeirra og hins vegar hvort í rekstri sjóðanna ríki ráðdeild og sparnaður. Ég held líka að full ástæða sé til þess að lífeyrissjóðirnir hugi betur að því að kjör til stjórna séu lýðræðislegri og opnari sjóðfélögum en nú er.

Einnig þarf að vera sýnilegra hvernig yfirbyggingu og rekstrarþáttum í yfirstjórn sjóðanna er háttað þannig að þar ríki fyllsta aðhald í öllum rekstri og topparnir séu ekki að skammta sér óeðlileg laun og fríðindi eins og stundum hefur verið haldið fram.

En loks þarf að liggja fyrir skýr fjárfestingarstefna og strangt eftirlit með fjárhag og starfsemi sjóðanna, þar með talið að reglulega liggi fyrir tryggingafræðilegar úttektir á getu þeirra til að standa undir skuldbindingum sínum. Þetta eru allt eðlilegar kröfur sem á að gera til sjóðanna sem byggja fjármögnun sína á skylduaðild sjóðfélaga og hljóta að koma líka til umræðu nú þegar lífeyrissjóðirnir eru að biðja um auknar fjárfestingarheimildir fyrir lífeyrissjóðina. Og þó hér sé að verulegu leyti um að ræða sjóði í eigu félaga í samtökum vinnumarkaðarins á almennum markaði og auðvitað líka hina opinberu lífeyrissjóði, þá er það skylda Alþingis að hafa náið eftirlit með lífeyrissjóðunum og að þeim séu settar skýrar leikreglur varðandi tryggingarvernd og lífeyrisréttindi fólksins og varðandi ávöxtun á þessum gífurlegu fjármunum sem fara í gegnum sjóðina.

Ef litið er til fjárhagsstöðu sjóðanna, þá var hrein eign til greiðslu lífeyris um 500 milljarðar kr., ég held um áramótin síðustu, það eru um 2,5-föld fjárlög íslenska ríkisins, enda eru lífeyrissjóðirnir ekki einasta ráðandi um sparnað einstaklinganna í landinu. Þeir eru stærstu aðilarnir og uppistaðan á fjármála- og hlutabréfamarkaðnum, enda hafa allar fjárfestingar þeirra og ávöxtun á fjármagni lífeyrissjóðanna mikil áhrif á þróun fjármálamarkaðarins, þar með talið vaxtaþróun og ávöxtun á ríkispappírum, ekki síst húsbréfum.

[10:45]

Sem dæmi um hve gífurlega miklir fjármunir fara um hendur lífeyrissjóðanna þá er ég hér með samanburð á eignum lífeyrissjóðanna sem hlutfall af þjóðarframleiðslu miðað við hin Norðurlöndin í árslok 1996. Þá voru eignir lífeyrissjóðanna sem hlutfall af þjóðarframleiðslu í Danmörku 21,45%, í Finnlandi 7,87%, í Svíþjóð 43,40%, á Íslandi 62,80% og í Noregi minnst, 4,23%. Eignir lífeyrissjóðanna sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hér á landi eru margfalt meiri en á hinum Norðurlöndunum, ekki síst ef borið er saman við Finnland og Noreg.

Við getum líka tekið sem dæmi að heildarmarkaðsvirði skráðra hlutafélaga á Verðbréfaþingi Íslands er nú, án hlutabréfasjóða, um 318 milljarðar kr. en hlutabréfaeign hefur sjöfaldast frá árinu 1995 en þá var hún um 45 milljarðar kr. Heildarmarkaðsvirði skráðra hlutafélaga er sem sagt nærri því 200 milljörðum minna en hrein eign lífeyrissjóðanna sem er um 500 milljarðar kr.

Til marks um það hvað eign lífeyrissjóðanna vex gífurlega hratt þá var hrein eign þeirra til greiðslu lífeyris 306 milljarðar í árslok 1996 en var nú í nóvember 1999 um 485 milljarðar kr. Hún hafði vaxið um 180 milljarða eða um 63% á tæpum þremur árum.

Annað dæmi má einnig taka. Bara fjármagnstekjur sjóðanna á sl. ári voru 30 milljarðar kr. Þetta sýnir auðvitað umfram allt annað hve brýnt er að sjóðirnir hafi ákveðið aðhald og eftirlit, að fjárfestingarstefna þeirra sé skýr, öryggi og varkárni sé í áhættufjárfestingu og meginmarkmiðið, sómasamlegar lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga, sé þungamiðjan í starfi þeirra.

Sem betur fer hefur lífeyrissjóðunum fækkað mjög og hafði frá 1991 til ársloka 1997 fækkað um 22, þ.e. úr 88 í 66 en rekstrarkostnaður þeirra á árinu 1997 nam 511 millj. kr. sem eru auðvitað gífurlega miklir fjármunir. 50 lífeyrissjóðir eru nú með 97% af heildareignum lífeyrissjóðanna. Um það þarf efh.- og viðskn. einmitt að fá sundurliðaðar upplýsingar, um rekstur sjóðanna og hvernig þróunin í rekstri þeirra hefur verið.

Nokkrar spurningar vakna vegna þessa frv., þegar lífeyrissjóðirnir vilja fá rýmkun á fjárfestingarheimildum sínum.

Í fyrsta lagi: Eru þessar breytingar eðlilegar og knýjandi? Í því sambandi vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji heppilegt að rýmka þessar heimildir núna með tilliti til stöðu efnahagsmála, ekki síst gífurlegs viðskiptahalla og stöðu krónunnar. Hefur verið leitað álits Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka á þessari breytingu? Ef svo er spyr ég hæstv. fjmrh.: Hver eru viðbrögð þeirra?

Í öðru lagi spyr ég: Hvað eru sjóðirnir í heild langt frá núverandi fjárfestingarhámarki og hvaða sjóðir eru nálægt mörkunum? Það svaraði þeirri spurningu sem ég varpaði hér fram, um hvort breytingin sem hér er lögð til sé knýjandi. Þessum spurningum er ekki síst varpað fram í ljósi núverandi stöðu efnahagsmála.

Ég spyr í þriðja lagi: Telur hæstv. fjmrh. að heimildir Fjármálaeftirlitsins séu nægjanlega skýrar og afdráttarlausar til að hafa eftirlit með sjóðunum, t.d. varðandi upplýsingagjöf sjóðanna, um aðkomu, fjárskuldbindingar, fjárfestingarstefnu, áhættustýringar o.s.frv.? Hverjar eru heimildir Fjármálaeftirlitsins til að knýja á um nauðsynlegar upplýsingar frá lífeyrissjóðunum til að það geti haldið uppi nauðsynlegu aðhaldi og eftirliti með afkomu og stöðu sjóðanna?

Í fjórða lagi spyr ég hæstv. fjmrh. hvort sú lagaheimild sem hér er óskað eftir varðandi rýmkun á fjárfestingarmöguleikum sjóðanna tengist á einhvern hátt hugsanlegri fjármögnun þeirra í Fljótsdalsvirkjun og hvaða möguleika og svigrúm þeir hafa nú að óbreyttum þessum lögum sem hér eru til umræðu til að fjárfesta þar.

Það sem þarf sérstakrar skoðunar við af hálfu efh.- og viðskn. er í fyrsta lagi sú heimild sem óskað er eftir varðandi fjárfestingu í óskráðum verðbréfum, að hún nái jafnt til innlendra og erlendra verðbréfa en megi þó ekki nema meiru en 10% af hreinni eign lífeyrissjóða. Einnig þarf að skoða áhrif þess að heimild þeirra til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum verði aukin úr 40% af hreinni eign í 50%. Lífeyrissjóðirnir hafa í vaxandi mæli leitað til útlanda með sínar fjárfestingar og ekki skal úr því dregið að aukin arðsemi í fjárfestingum sjóðanna og möguleikar þeirra til að nýta sér arðvænlega fjárfestingarkosti innan lands og erlendis eru mikilvægir.

En lífeyrissjóðirnir hafa fyrst og fremst skyldur við félaga sína, að tryggja hag þeirra sem best með stýringu á fjármunum sínum og fjárfestingarstefnu. Þar er til margs að líta. Lífeyrissjóðirnir eru fyrst og fremst uppbyggðir til að tryggja kjör og afkomu sjóðfélaga sinna en sú spurning verður sífellt áleitnari hvort þeir séu orðnir meiri fjárfestingarlánasjóðir en lífeyrissjóðir. Síaukin sókn þeirra í fjárfestingu erlendis vekur líka ýmsar spurningar. Hvaða áhrif hefur það almennt á stöðu efnahagsmála og fjármála- og hlutabréfamarkaðarins hér innan lands? Nefna má að fjárfesting þeirra í erlendum verðbréfum var í lok árs 1997 tæplega 26 milljarðar kr. en var nú í nóvember 1999 rúmlega 82 milljarðar kr. Á sama tíma hefur fjárfesting þeirra t.d. í húsbréfum aukist lítillega eða úr tæpum 70 milljörðum í 74 milljarða. Það segir sig sjálft að kaup stórra fjárfesta eins og lífeyrissjóðanna hefur mikil áhrif á ávöxtunarkröfu húsbréfa. Ég tel reyndar að þeir hafi þar ákveðnum skyldum að gegna því stór hluti launþega og sjóðfélaga þeirra sem greiða iðgjöld til lífeyrissjóðanna á mikið undir ávöxtunarkröfu húsbréfa og afföllum þeirra. Um það geta lífeyrissjóðirnir miklu ráðið en þeir virðast í auknum mæli beina fjármagni sínu á erlendan hlutabréfamarkað í stað markaðarins hér innan lands.

Í Viðskiptablaðinu nú í janúar kemur t.d. fram að 107% eignaaukning varð hjá þeim í erlendum hlutabréfasjóðum og 49% aukning í erlendum hlutabréfum á árinu. Þegar litið er á hlutabréf og hlutabréfasjóði þá var innlend eign þeirra 31. okt. á síðasta ári 37 milljarðar og hafði einungis vaxið um tæpa 8 milljarða frá árinu áður, þ.e. frá um áramótum eða á tíu mánuðum, á meðan útlend eign þeirra í hlutabréfum og hlutabréfasjóðum óx úr tæpum 38 milljörðum í 66 milljarða eða um 28 milljarða kr.

Ég tel ljóst, þegar þetta er skoðað, að lífeyrissjóðirnir eru að draga verulega úr kaupum sínum á ríkispappírum, húsbréfum o.fl. sem örugglega mun ýta upp afföllum á húsbréfunum. Ég ítreka þá skoðun mína að lífeyrissjóðirnir hafi ákveðnum skyldum að gegna á þeim markaði vegna hagsmuna sjóðfélaga sinna, að afföll haldist þar skapleg.

Það er ástæða til að halda því til haga að í Viðskiptablaðinu er vitnað til, af því við erum hér að tala um áhættufjárfestingu lífeyrissjóðanna, tveggja lífeyrissjóða sem hafa notað eignir sjóðanna til að styrkja fyrirtæki í heimabyggð. Út af fyrir sig ætti kannski ekki að gagnrýna það en sjóðirnir verða að hafa í huga áhættuna sem þeir taka með slíkri fjárfestingu. Hér er talið að þar hafi verið um vafasama fjárfestingu að ræða.

Raunávöxtun lífeyrissjóðanna á Íslandi er mjög misjöfn. Hún er allt frá því að vera 4,6% meðalávöxtun 1994--1998 alveg upp í 10,1% þannig að hegðan lífeyrissjóðanna á markaðnum er mjög misjöfn.

Ég vil benda á að aukin heimild lífeyrissjóða til erlendra fjárfestinga eins og hér er kallað eftir getur haft veruleg áhrif á afföll í húsbréfakerfinu og vaxtastig í landinu. Einnig er ljóst að rýmkun heimilda þeirra til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum eykur á gengisáhættu lífeyrissjóðanna eins og fram kemur í grg. með þessu frv. Ég tel því brýnt að Seðlabanki og Þjóðhagsstofnun leggi mat á hver áhrifin yrðu af því að auka heimildir sjóðanna til að fjárfesta erlendis. Einnig þarf Fjármálaeftirlitið að leggja mat á fjárfestingarstefnu sjóðanna almennt með tilliti til áhættustýringar og heildarskuldbindinga sjóðanna. Ég spyr hæstv. fjmrh. hvort svo hafi verið gert og hvort hann telji það ekki eðlilega varfærni að það liggi klárt fyrir áður en málið er afgreitt frá Alþingi. Hrein eign lífeyrissjóðanna frá 1997--1999 jókst úr 353 milljörðum í 484 milljarða í nóvember sl. og hún er mest í erlendum verðabréfa- og hlutabréfasjóðum. Því er eðlilegt að um þetta sé spurt.

Einnig þarf í efh.- og viðskn. að kalla eftir upplýsingum varðandi ákvæði í þessu frv. sem snerta auknar almennar hæfiskröfur til stjórnenda sjóðanna. Vissulega er mjög brýnt að þær séu strangar þegar um hendur þeirra fara orðið 500 milljarðar kr., uppistaðan í sparnaði landsmanna og lífeyri landsmanna á komandi árum. Jafnframt þarf kannski að svara því hvaða áhrif þessar hæfiskröfur hafa á starfsöryggi þeirra sem nú starfa við sjóðina, hvort þær hæfiskröfur kalli á einhverjar uppsagnir.

Hér hefur mikið verið rætt um almennt viðskiptasiðferði á fjármálamarkaði. Ég tel afar brýnt að þær reglur sem verið er að undirbúa nái til lífeyrissjóðanna einnig og þeim verði uppálagt og gert að fara að þeim leikreglum sem þar er verið að setja, líka varðandi það sem við höfum verið að ræða um innherjaviðskipti. Sérstökum starfsmönnum stærstu sjóðanna hefur verið falin ávöxtun þeirra. Þeir bera þar mikla ábyrgð og því er brýnt að allar reglur sem við setjum, sem snerta viðskiptasiðferði þeirra sem ávaxta þessa fjármuni, og allar trúnaðarupplýsingar og allt sem þar þarf að vernda með sérstökum reglum nái einnig til þeirra sem starfa hjá lífeyrissjóðunum.

Ég er að fara að ljúka máli mínu, herra forseti. Ég hef lagt nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra og vænti þess að hann svari þeim við þessa umræðu. Ég vil einnig spyrja hann um það sem fram hefur komið í blöðum nýlega og snertir úrbætur eða tillögur sem ríkisstjórnin hugar nú að til að auka hér lífeyrissparnað. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að ekki liggi enn fyrir hversu mikið skattfrelsi lífeyrissparnaðar verður aukið frá því sem miðað er við í þeim tillögum sem nú eru í undirbúningi. Samkvæmt gildandi lögum geta launamenn lagt til hliðar 2% af launum til viðbótar 10% lögbundnum sparnaði en á móti leggur ríkið fram 0,2% í þennan viðbótarlífeyrissparnað. Mér skilst að hugmyndirnar séu að gera tillögur um aukin framlög ríkisins og aukna möguleika launamanna til þessa sparnaðar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hve margir hafa hagnýtt sér þessa sparnaðarleið frá því að hún var tekin hér með lögum frá þinginu. Hver hafa verið útgjöld ríkissjóðs vegna þeirra sem hafa hagnýtt sér þessa sparnaðarleið? Það er vissulega brýnt, eins og ríkisstjórnin er að gera, að huga að því hvernig hægt er að auka þjóðhagslegan sparnað, sem hefur ekki verið minni um langt skeið. Það kom einmitt fram hér við fjárlagaafgreiðsluna að hann hefur ekki verið minni síðan í lok 8. áratugarins, er núna 14% af landsframleiðslu en samkvæmt upplýsingum frá peningastofnunum þyrfti hann að vera 30 milljörðum meiri, eða 19% af landsframleiðslu, til þess að sparnaður standi undir áformaðri fjárfestingu á þessu ári. Auðvitað þarf að leita allra leiða til þess að auka hér sparnað. Hæstv. fjmrh. fær öruggan stuðning við það en spurningin er hvort leiðin sem ráðherrann leggur til hér sé nægjanleg. Það eru svo margir ávöxtunarkostir í boði fyrir fólk að það virðist leita annað en í þessa sparnaðarleið sem opnuð var fyrir þá sem eru með lífeyrissparnað hjá lífeyrissjóðum.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari hér við umræðuna þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hann.