Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 11:23:36 (4805)

2000-02-24 11:23:36# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[11:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Ég fagna því, herra forseti, að hv. þm. gleðst yfir eign lífeyrissjóðanna eins og ég geri og viðurkennir að skuldbindingar eru á móti. Við þurfum að ræða þetta á þeim forsendum.

Hverjir fara með þessa eign? Jú, ég fór yfir það. Ég held að það þýði ekki að taka þetta dæmi af Eimskip og reyna að setja samasemmerki á milli þessa og venjulegs hlutafélags. Þetta er ekki þannig fyrirbæri auk þess sem ég efast stórlega um að það mundi virka þannig þó að menn héldu einhvers konar ,,almenna hluthafafundi`` í lífeyrissjóðunum og reyndu að innleiða þá stjórnunarhætti.

Ég var ekki mjög hrifinn af því sem gerðist á aðalfundi Fjárfestingarbankans. Ég er þá ekki aðallega að hugsa um þessi áflog um stjórnina. Mér er að mestu leyti sama um það hverjir sitja þar í stjórn. Það sem mér blöskrar er sá hugsunarháttur sem virðist orðinn allsráðandi, að menn eigi að moka sem mestu fé í sjálfa sig ef þeir mögulega lífsins geta, að ef menn komist í aðstöðu til þess þá sé bara um að gera að hrammsa sem mest. Maður spyr sig að því hvort það hafi verið til þessa sem verið var að einkavæða þessa sjóði, þ.e. að menn gætu síðan bara smellt fingrum og dregið út úr þeim milljarða króna handa sjálfum sér. Það er auðvelt að kaupa ríkisfyrirtæki ef þú getur látið þau borga sig sjálf á nokkrum mánuðum þar á eftir. Ofurlaun og flottræfilsháttur af því tagi sem þarna er á ferðinni, segi ég alveg hikstalaust, fellur mér ekki sérstaklega vel. Ég held að margir gætu auðvitað með sama hugarfari gert slíkt hið sama. Auðvitað eru ýmsir hér í aðstöðu til að hækka verðið gagnvart kúnnum sínum og hirða þann gróða í eigin vasa. En það gera ekki allir. Ég hélt að það væri eitthvað til sem héti þjónustuhugsun hjá þessum fyrirtækjum.

Fyrir hverja er þessi banki rekinn? Er hann rekinn fyrir starfsmennina og eigendurna eða er hann rekinn fyrir íslenskt atvinnulíf? Er mönnum alveg sama hvaða fjármunir eru teknir þarna út til að moka í eigendur og starfsmenn með þessum hætti?

Varðandi stjórnarkjörið þá kom ég einmitt inn á það og þar get ég tekið undir með hv. þm. Það er ástæða til að ræða hvort lífeyrissjóðirnir eigi að skipta sér í eins miklum mæli af stjórnum þeirra fyrirtækja sem þeir hafa fjárfest í og raunin virðist vera.