Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 11:26:41 (4807)

2000-02-24 11:26:41# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[11:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú sennilega ekki svarað þessari spurningu af því að hv. þm. hefur spurt hennar svo oft og ég er búinn að svara henni svo oft hér á undanförnum árum. Ég er líklega hættur að heyra spurninguna. Það er þegar búið að svara spurningunni einu sinni í þessari umræðu. Það gerði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og ég er sammála því svari.

Að svo miklu leyti sem rétt er að nota þetta eignarréttarlega hugtak í þessari umræðu þá eru það auðvitað sjóðfélagarnir og fjölskyldur þeirra sem eiga sjóðina. Þeirra eru skuldbindingarnar. Það er til þeirra sem féð á að renna. En gleymum því ekki í leiðinni að kerfið er ekki byggt í einkaeignarréttarlegum skilningi. Þetta er félagslegur samtryggingarsjóður, (Gripið fram í: Sameignarsjóður.) sameignarsjóður. Þetta er þannig fyrirbæri. Gleymum því aldrei að þar af leiðandi er svolítið misvísandi að nota einkaeignarréttarleg hugtök í umræðum um þessi mál. Á sama hátt finnst mér ekki skynsamlegt að blanda því sem gengur og gerist í hlutafélögum inn í umræður um þetta fyrirkomulag og hvernig það eigi að byggjast upp.