Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 11:55:27 (4810)

2000-02-24 11:55:27# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[11:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir mjög greinargóða ræðu um þetta mál. Mig langaði aðeins til að forvitnast vegna þess að eðli lífeyrissjóða er út af fyrir sig dálítið misjafnt, annars vegar er um ríkisrekna sjóði starfsmanna að ræða og hins vegar almenna sjóði. Ég skil það a.m.k. svo að þeir sjóðir sem eru í höndum ríkis og sveitarfélaga séu tryggðir af þeim, en almennir sjóðir eru einungis sú trygging sem sjóðirnir veita sjálfir, þ.e. meðferð þess fjár sem þar er. Með mjög rýmkuðum heimildum til handa sjóðstjórnum er náttúrlega verið að auka áhættuna. Og það sem áður gilti að fjárfesta í tryggum bréfum ríkis og sveitarfélaga eða í mjög tryggum fyrirtækjum er ekki lengur markmið eða skylda skulum við segja, heldur er mönnum heimilt að fjárfesta sem víðast væntanlega og minnka áhættuna og auka þá möguleika sjóðsins til að tryggja þá hagsmuni.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig færi með þessa mismunandi sjóði ef þeir yrðu gjaldþrota, ef almennir sjóðir yrðu gjaldþrota, sætu þá eigendur sjóðsins í dag uppi með það að eiga ekki neitt?

Það er auðvelt að fara upp úr þessum þökum. Við höfum kynnst því að virðulegustu bankastofnanir í heiminum hafa orðið gjaldþrota vegna þess að einhver doktor í viðskiptum fór með allt saman út úr myndinni, þannig að stjórnendur bankanna áttuðu sig ekki á því hvað var að gerast. Ýmislegt getur því gerst.