Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 11:59:52 (4813)

2000-02-24 11:59:52# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[11:59]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega alveg rétt að staða opinberra starfsmanna í þessu efni hefur löngum verið mun betri en annarra og það var jafnan talið svo í gegnum tíðina að þessi staða væri metin til launa, a.m.k. var það gjarnan haft á orði að opinberir starfsmenn þyrftu að sætta sig við aðeins rýrari kjör en aðrir vegna þess að þeir hefðu miklu betri lífeyrisréttindi. En gjaldþrot er kannski ekki rétta orðið í þessu sambandi. Það er réttara að tala þá um skort á greiðslugetu sem t.d. hefur leitt til þess að grípa hefur þurft til skerðingar á réttindum í sjóðunum. En þetta mál er nú flóknara en svo að unnt sé að ræða það af viti í stuttu andsvari, en ég legg áherslu á að þó að einstakir lífeyrissjóðir standi misvel að vígi og auðvitað hinir minni kannski lakar en þeir sem stærstir eru, þá er ekki ástæða til að gera því skóna að þeir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.