Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 12:07:03 (4817)

2000-02-24 12:07:03# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[12:07]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin við þeim spurningum sem ég bar hér fram þó að hann hafi ekki svarað þeim öllum og vil ég því ítreka eina eða tvær spurningar sem hann svaraði ekki.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra að brýnt er að leikreglur gildi frá Alþingi varðandi lífeyrissjóðina þegar við erum að tala um meðferð á skyldubundnum sparnaði manna, ég held að það sé alveg ljóst. Spurningin er hve strangar og stífar þær leikreglur þurfa að vera. Ég hef sagt hér og ítreka það sem mína skoðun að ég tel að þær eigi að vera alveg eins strangar og gildir almennt um fjármálamarkaðinn og ekki síður þegar við erum að tala um lífeyrissjóði þar sem mesti sparnaður landsmanna myndast.

Ég hafði verulegar áhyggjur af því hvað þessi rýmkun á heimildum mundi þýða fyrir stöðu efnahagsmála eins og hún blasir við okkur nú og ég heyri það í svörum hæstv. ráðherra að ráðherrann hefur ekki miklar áhyggjur af því að það hafi einhver neikvæð áhrif á efnahagsmálin, að rýmka svo mjög heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestingar og áhættufjárfestingar. En ég verð að segja að það veldur mér nokkurri undrun og mér finnst það nokkuð sérkennilegt að fjmrn. hafi ekki séð ástæðu til þess að leita sérstaklega umsagnar t.d. Seðlabanka eða Þjóðhagsstofnunar á því hvaða áhrif það hefði að rýmka svo mjög heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestingar miðað við stöðu efnahagsmála. Það liggur þá hér fyrir að það hefur ekki verið gert og eftir því mun ég auðvitað ganga í hv. efh.- og viðskn. að Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun segi álit sitt á því. Það er náttúrlega eins og hér hefur komið fram og ráðherra staðfestir að þegar verið er að auka svo mjög heimildir þeirra til að fjárfesta erlendis, við erum að tala um 50 milljarða og eins og hæstv. ráðherra nefndi, þá er í því fólgin veruleg gengisáhætta. Og mér finnst líka full ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessari rýmkun miðað við viðskiptahalla.

Ég nefndi líka í máli mínu ávöxtun ríkispappíra og dró þar sérstaklega fram húsbréfin, en á undanförnum vikum hafa afföll af húsbréfum verið að aukast, sem kemur sér auðvitað mjög illa fyrir þá sem standa í íbúðarkaupum. Ég held að skýringuna megi m.a. rekja til þess að lífeyrissjóðirnir hafa dregið mjög úr kaupum sínum á ríkispappírum eins og húsbréfum og hafa í auknum mæli verið að leita erlendis. Eins og fram kemur í yfirliti sem ég hef var staða erlendra verðbréfa í eigu lífeyrissjóðanna í lok árs 1997 tæpir 26 milljarðar en er rúmir 82 milljarðar í nóvember 1999. Þetta kemur sér mjög illa fyrir þá sem standa í íbúðarkaupum. Ég vil ítreka að mér finnst lífeyrissjóðirnir hafi þar ákveðnar skuldbindingar við sjóðfélaga sína, þar sem margir hverjir þurfa að standa í slíkum kaupum. Þetta þarf sérstaklega að skoða í nefndinni, en það liggur fyrir að fjmrn. og hæstv. ráðherra hafa engar verulegar áhyggjur af því að þetta hafi nein neikvæð áhrif.

Það sem ég spurði ráðherrann um þó að það tengist ekki beint því máli sem hér er til umfjöllunar, þá erum við þó að tala um ráðstöfun á sparnaði lífeyrisþega, ég spurði hæstv. ráðherra um hvort hann hefði einhverjar upplýsingar um hve margir hefðu hagnýtt sér þá sparnaðarleið sem opnað var fyrir með því að launamenn gátu lagt til hliðar 2% af launum til viðbótar 10% lögbundnu framlagi. Og hvort hann hefði einhverjar upplýsingar um hvaða útgjöld það hefði í för með sér miðað við hve margir hagnýttu sér þetta. Nú skilst mér að útgjöldin hafi verið eitthvað minni en áætlað var vegna þess að færri hefðu nýtt sér þennan fjárfestingarkost og er það auðvitað með hliðsjón af því hve margir ávöxtunarkostir eru í boði sem fer sífellt fjölgandi að þá dregur úr áhuga fólks á því að leggja til hliðar sparnað að því er þetta varðar ef betri kjör standa til boða annars staðar.

Ekki er bara verið að auka heimildina erlendis um hvorki meira né minna en 50 milljarða til að fjárfesta í erlendum hlutabréfum heldur er líka verið að hækka heimild sjóðanna til að fjárfesta í skráðum skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga, skuldabréfum og víxlum banka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem lúta eftirliti opinbers eftirlitsaðila, hlutabréfum fyrirtækja og öðrum verðbréfum úr 35% í 50%. Og síðan er lagt til að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum nái jafnt til verðbréfa sem gefin eru út af innlendum og erlendum aðilum en ekki einungis innlendum eins og nú er. Við erum því að tala um verulegar breytingar og verulega rýmkun sem sjóðirnir fá með þessu sem hér er lagt til. Og það liggur fyrir hjá hæstv. ráðherra og hann hefur upplýst í svari sínu að það eru mjög fáir sjóðir sem rekast í þetta þak í dag. Það virðist því svo að fyrst og fremst sé verið að breyta þessum lögum og rýmka þessa heimild fyrir örfáa sjóði og eins og ráðherrann orðaði það til þess að þeir gætu gert ráðstafanir og áætlanir fram í tímann. Ég sé ekki að það liggi svo mjög á þessu miðað við þau svör sem hér voru sett fram og spyr ráðherrann um hvað liggi mikið á að efh.- og viðskn. afgreiði þetta mál og hvað mikið sé rekið á eftir því af hálfu lífeyrissjóðanna. Ég tel að við eigum aðeins að staldra við, ekki síst í ljósi stöðu efnahagsmála.

[12:15]

Ég skal ekki tefja þetta mál enda er tími minn að verða búinn. Hér var spurt um samspil lífeyrisgreiðslna og almannatrygginga. Það væri mjög gott að fá að heyra um það í þessari umræðu um lífeyrissjóðina, stöðu þeirra og skuldbindingar, hvort eitthvað sé á döfinni af hálfu ríkisstjórnarinnar í því sambandi, þ.e. ég held að ríkisstjórnin hafi uppi hugmyndir um breytingar og athugun varðandi samspil lífeyrisgreiðslna og almannatrygginga. Ég þurfti aðeins að bregða mér frá áðan og veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur svarað þessu á þeim stutta tíma sem ég gat ekki verið hér.

Einnig finnst mér ástæða til að nefna við þessa umræðu að það olli mér miklum vonbrigðum að hæstv. ráðherra og fjmrn. sáu ekki ástæðu til þess að verða við eindregnum og eðlilegum óskum, að því er ég tel, frá Samtökum aldraðra um að breyta skattlagningu lífeyrisgreiðslna þannig að skattlagning lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóðum sæti sömu skattalegu meðferð og fjármagnstekjur. Því hefur enda ekki verið hnekkt, að því er ég best veit, að 2/3 hlutar af lífeyrisgreiðslum sem sjóðfélagar fá úr sjóðum sínum, eru vextir og verðtrygging. Ég verð að láta það í ljós að það sem ég hef lesið um skoðun ráðuneytisins í blöðum, þ.e. að engin ástæða sé til að breyta þeirri tilhögun sem verið hefur á þessum málum, olli mér verulegum vonbrigðum. Það hlýtur að koma með einum eða öðrum hætti til skoðunar á hv. Alþingi þó það sé ekki endilega í tengslum við frv. sem við ræðum hér.

Ég vænti þess að ráðherrann svari mér um þær hugmyndir sem eru á döfinni um aukinn sparnað: Hve margir hafa hagnýtt sér þá sparnaðarleið sem opnuð var fyrir ekki löngu síðan?