Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 12:16:26 (4818)

2000-02-24 12:16:26# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[12:16]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það ekki þannig í andsvörum að menn geti farið að ræða hér algjörlega nýtt mál eins og imprað var á hér í lokin, þ.e. varðandi erindi Samtaka aldraðra. Út af því þá vildi ég spyrja þingmanninn, fyrst hún fullyrðir að fjármagnstekjur séu 2/3 af útgreiddum lífeyri úr lífeyrissjóðunum: Hvað skyldu fjármagnstekjur vera stór hluti af útgreiddum lífeyri úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, þar sem ríkið leggur með milljarða á hverju ári í uppbætur á lífeyri? Ég held að það leiði í ljós hvaða villigötum menn eru á með þetta mál ef þeir hugleiða þann þátt málsins. Þar er ekkert um það að ræða að réttindi manna séu tengd því hvað þeir hafa borgað inn í sjóðinn, heldur allt öðrum hlutum, eftirmannslaunum o.þ.h.

Annað atriði, spurt var: Hvað liggur á? Af hverju vera að þessu ef aðeins nokkrir sjóðir eru að reka sig í mörkin? Það er vegna þess að menn þurfa að hafa svigrúm til þess að skipuleggja starfsemi sína fram í tímann. Ef nefndin kallar á Landssamtök lífeyrissjóða, sem hafa lagt mikla áherslu á þetta mál við mig, komið á minn fund ítrekað og sent erindi, þá munu þeir heyra frá þeim samtökum hvað þau leggja mikla áherslu á að þetta mál nái fram að ganga. Ekki endilega vegna þess að allir sjóðirnir ætli að drífa sig upp í þetta mark á næstu mánuðum eða á þessu ári. Menn verða hins vegar að geta séð pínulítið fram í tímann og áttað sig á því hvar þeir standa. Ég hygg að þau samtök muni leggja áherslu á að þetta verði rýmkað enn frekar til samræmis við það sem þau lögðu áherslu á við mig. Þau vildu fara með þetta töluvert hærra, sem ég taldi óráðlegt og óvarlegt.

Að því er varðar viðbótarlífeyrissparnaðinn þá mun koma sérstakt frv. um það mál. Þá verður það á dagskrá og hægt að ræða allar spurningar hv. þm. um það efni. Það olli mér vonbrigðum að þátttakan var ekki meiri en hún þó var. Að því er varðar opinbera starfsmenn þá vitum við að tæplega þriðjungur þeirra hagnýtti sér þetta en verulega minni hluti fólks á hinum almenna vinnumarkaði. Ég mun koma nánar að því máli síðar vænti ég.