Vörugjald af ökutækjum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 12:41:04 (4824)

2000-02-24 12:41:04# 125. lþ. 71.6 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[12:41]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Að sjálfsögðu þarf að hafa í huga samkeppnissjónarmið og jafna stöðu. Ég tel hins vegar afskaplega mikilvægt að hafa umhverfissjónarmiðin í huga líka. Ég var að benda á að ég tel að ríkisvaldið eigi að ganga fram og sýna gott fordæmi með því að setja þennan hvata inn í verð eða skattlagningu á þessum bílum. Þeir eru heldur dýrari í dag, eins og ég nefndi áðan, vegna þess að þeir eru almennt ekki komnir í fjöldaframleiðslu. Þess vegna tel ég mjög eðlilegt að ríkisvaldið, vegna umhverfisstefnu sinnar, gangi örlítið lengra þó vissulega fagni ég því skrefi sem hér er stigið.

Varðandi almennar breytinga vil ég þakka svar ráðherra um endurskoðun á þessum tekjustofni ríkisvaldsins. Ég bendi hins vegar á það sem ég nefndi áðan og ítreka að það eru ekki nema fjögur til fimm ár í að fjöldaframleiðsla hefjist á vetnis- og metanólknúnum bílum hjá a.m.k. þremur bílaframleiðendum. Fjöldaframleiðsla þýðir að þeir verða almennt samkeppnisfærir í verði. Það er skammur tími til ársins 2004 og þess vegna held ég að mjög nauðsynlegt sé fyrir ríkisvaldið a.m.k. að fara að huga að þessu.

Ég tek auðvitað undir það með hæstv. ráðherra að forstöðumenn einstakra ríkisstofnana stjórna því hvernig bílar eru keyptir. En að sjálfsögðu getur ríkisstjórnin gefið ákveðna viljayfirlýsingu í tengslum við umhverfisstefnu sína. Ríkissjóð þarf auðvitað að reka vel og það gerir hæstv. ráðherra en það þarf líka að horfa til langtímaáhrifa sem útgjöld og tekjur ríkissjóðs frá ári til árs taka ekki mið af.